08.05.1947
Neðri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (4150)

96. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta mál er búið að vera nokkuð lengi á döfinni, en n. skilaði sínu áliti, þ.e.a.s. meiri hl., 15. f. m., og minni hl. 20. s. m. Eins og af þessu má ráða, var n. ekki sammála um afgreiðslu málsins, og þess vegna komu fram tvö nál. Undir nál. meiri hl. skrifa 3 nm. (SkG, SK, PO), en undir álit minni hl. einn nm. (ÁkJ). Fimmti nm. (FJ) var ekki viðbúinn að taka afstöðu til málsins, og nú stendur þannig á, að hann er veikur, og getur hann því ekki gert grein fyrir afstöðu sinni, en ég hygg, að það sé ekki ástæða til að fara fram á að fresta málinu af þeim sökum, því að hv. þm. Ísaf. hefur að sjálfsögðu tækifæri til að gera grein fyrir afstöðu sinni við 3. umr.

Þegar þetta mál kom til sjútvn., átti n. fund um það skömmu síðar og var sammála um það að senda frv. til þriggja aðila og beiðast umsagnar þeirra um málið, þ.e. L.Í.Ú., Sjómannafélags Reykjavíkur og Sjómannafélags Hafnarfjarðar. N. sýndist, að það mundi valda of miklum töfum að leita umsagnar fleiri aðila, og því takmarkaði hún þessar umsagnarbeiðnir við þessa þrjá Eins og segir í nál. meiri hl., barst umsögn frá L.Í.Ú. og hafa hv. þm. getað kynnt sér hana á þskj. 656. Hins vegar bárust ekki svör frá þessum tveim sjómannafélögum, sem n. beiddist umsagnar frá. Ég sé að sönnu, að minni hl. segir, að það hafi borizt svar frá Sjómannafélagi Hafnarfjarðar, en það hefur ekki komið í mínar hendur eða til skrifstofunnar. Það svar hlyti að vera stílað til n. Ef sjómannafélagið svaraði öðrum aðilum en n., þá er það annað mál. Hitt kann vel að vera, að umsögn frá þessu félagi liggi á lestrarsal Alþ. Nú sjá hv. þdm., hvaða svör meiri hl. hefur fengið við þessu máli.

N. hefur reynt að kynna sér það, hvaða áhrif þetta mundi hafa fyrir útgerðina, því að það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að breyt., sem gerðar eru á starfsháttum hjá framleiðendum, verða að vera slíkar, að það torveldi ekki framleiðsluna eða stöðvi hana. Samkv. umsögn landssambandsins mundi þessi breyt., sem hér er farið fram á í frv. á þskj. 164, valda því, að það þyrfti að fjölga skipsmönnum og skipshöfnum um 7–10 manns. Nú hef ég ekki getað sannprófað, hvort þetta er rétt, en ég veit, að þetta kemur frá þeim aðila, sem veit bezt um þessa hluti, og það leiðir af eðli málsins, að það mundi þurfa að fjölga mönnum talsvert á þessum skipum, hvort sem það væri nú nákvæmlega þessi tala eða ekki. Slík fjölgun skipsmannanna mundi leiða af sér fyrst og fremst mjög aukinn kostnað fyrir útgerðina, nema því aðeins að rýrður yrði hlutur skipshafnanna að sama skapi. Auk þess mundi þurfa að breyta skipunum talsvert, ef þessi breyt. yrði gerð. Ég held, að það væri ekki til hagsbóta fyrir þá, sem stunda sjómennsku á togurunum, að ráðstafanir væru gerðar til þess, að hlutur þeirra væri rýrður. Eins og öllum er kunnugt, þá stunda íslenzkir togarar nærri því eingöngu svo kallaðar ísfisksveiðar nú orðið. Það kann vel að vera, að það geti orðið breyt. á þessu, þó er það vafasamt. En á ísfisksveiðum hagar þannig til, að sjálfur veiðitíminn er ekki nema viss hluti af hverri sjóferð, og það mun vera nokkru skemmri úthaldstími nú en áður í hverjum túr. Ég hef fengið upplýsingar um það, að ef það er tekið yfirlit yfir mörg ár, þá kemur það þannig út, að í veiðiferð eru 26 dagar og siglingatími togara er áreiðanlega ekki minni en 10–11 dagar, auk þess ganga margir óveðursdagar frá, svo að varla munu togarar vera að veiðum lengur en 9 daga í mesta lagi, og á öðrum tímum en þeim, þegar togararnir eru að veiðum, er mjög fátt af skipshöfninni við vinnu. Meðaltími á ísfisksveiðum hefur þó ekki verið reiknaður nákvæmlega út. Ég hygg, að minni hl. hafi ekki athugað þetta og því síður flm. Þetta frv. er því ekki borið fram af neinni þörf, heldur af tilhneigingu til þess að blása sig út fyrir einhverjum kjósendum. Þegar menn koma með gersamlega órökstuddar gerbreytingartill. við atvinnuhætti í landinu, þá er rétt að menn fái ofanígjöf fyrir það. Ég segi þetta frá eigin brjósti. En meiri hl. sjútvn. komst að þeirri niðurstöðu, að frv. væri ekki á rökum byggt og horfi til ófarnaðar og leggur þess vegna ákveðið til, að frv. verði fellt.