23.05.1947
Neðri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (4160)

96. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Hermann Guðmundsson:

Það væri freistandi að ræða þetta mál allýtarlega. Málsatvik og meðferð þingsins á því er á þann veg. En vegna þess að ég legg megináherzlu á, að atkvgr. fari fram, þá skal ég stytta svo mál mitt sem mér er kleift og stikla á aðalatriðum. Hjá þeim mönnum, sem skipa sjútvn., virðist skoðunin vera sú hin sama og kemur fram í bréfinu frá L.Í.Ú., sem birt er í nál. sjútvn. Ég vil minnast á eitt atriði, sem varpar nokkru ljósi yfir það, hversu þetta plagg, sem meiri hl. sendir frá sér, er sannleikanum samkvæmt. Í því er haldið fram, að frv. hafi verið sent til umsagnar allra stærstu aðilanna í þessu máli, L.Í.Ú., Sjómannafélags Reykjavíkur og Sjómannafélags Hafnarfjarðar. Þar segir, að svar hafi komið frá L.Í.Ú., en svör frá sjómannafélögunum hafi ekki borizt. En Sjómannafélag Hafnarfjarðar sendi sjútvn. svar snemma í janúar þ. á., svo að ég sé ekki, að hér sé rétt með farið, og er það einkennileg starfsaðferð hjá n. að birta álit annars aðilans, en segja, að hinn hafi ekki sent svar, þó að það væri búið að liggja í þinginu þennan tíma og n. hefði aðgang að því. Ein af meginástæðunum, sem L.Í.Ú. færir fram gegn þessu frv. og n. gerir að sinni viðbáru, er sú, að ekki sé mannapláss á íslenzku togurunum til þess, og þess vegna þurfti að bæta við það, ef frv. yrði að l. Sá farmannafjöldi, sem L.Í.Ú. tilnefnir, 7–10 menn, er ekki réttur. Það er nefnd hærri tala en rétt er. Það þyrfti að fjölga um 3–4 menn, en ekki 7–10. Ég skal í þessu sambandi benda á það, að á ísfiskveiðum er 21 maður skráður, þar með talinn skipstjóri, stýrimenn, bátsmaður og matsveinn. Vistarverur þessara manna eru aftur á skipinu, en skipstjóra undir „brú“. Aftur á skipinu í „lúgar“ er pláss fyrir 21 –24 menn, svo að það má bæta við 4–8 mönnum. Megnið af íslenzka flotanum kemur undir þessa lýsingu, sem ég hef nefnt. Um stærri togara er það að segja, að þeir munu vera mannfleiri en þeir smærri, og mun nú erfiðleikum bundið að koma fleiri mönnum á þá en nú er. En í því sambandi má á það benda, að íslenzk útgerð hefur ekki horft í það að breyta skipunum, þegar það hefur verið gróðavon að framkvæma breyt., þó það hafi verið vafasamt vegna sjóhæfni skipanna. Það er þess vegna vel hægt að breyta skipunum án mikils tilkostnaðar, þannig að hægt væri að koma við þeirri fjölgum, sem gera má ráð fyrir að verða mundi, ef frv. næði fram að ganga.

Önnur ástæðan, sem n. færir fram gegn frv., er sú, að útgerðin mundi ekki þola þann kostnað, sem af þessu mundi leiða. Þessi viðbára, sem er tekin upp úr bréfi landssambandsins, kemur mér ekki á óvart og engum, sem fylgzt hefur með gangi verklýðsmála hér á landi. Það hefur aldrei verið borin fram ósk eða krafa um bætt kjör handa verkalýðnum, svo að henni hafi ekki verið mætt með þessu sama svari: Útgerðin þolir þetta ekki, hún fer á höfuðið. Þrátt fyrir þetta hefur verkalýðshreyfingin íslenzka náð fram fjölda kjarabóta, og ég sé ekki betur en að útgerðin hafi blómgazt fyrir það og útgerðarmönnum fjölgað og gróðinn vaxið, og það mun enn verða, þú að þetta frv. yrði að lögum.

Mér er sagt, að hv. frsm. n. hafi hér, þegar málið var fyrst til umr., haldið því fram, að hér væri um kosningabeitu að ræða, en ekki hagsmuni sjómanna. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að segja, að sjómannastéttin hefur frá öndverðu barizt fyrir því að fá vinnutíma sinn í samræmi við það, sem aðrar stéttir hafa haft, og orðið aftur úr hvað þetta snertir. Á stéttarþingum, sem haldin hafa verið, þar sem sjómenn hafa átt sína fulltrúa, hefur verið um þetta rætt, og hafa komið fram ákveðnar óskir. Á alþýðusambandsþingum undanfarin ár hefur þetta mál verið til umr. og samþykktir gerðar. Það er einmitt þetta, sem er ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt. Þetta er áhugamál sjómanna og mál, sem þeir vilja, að nái fram að ganga, og fullyrðingar um, að hér sé ekki um hagsmunamál þeirra að ræða, falla um sjálfar sig, þegar þess er gætt, að fyrir Alþ. liggja áskoranir frá flestum starfandi togarasjómönnum um að samþykkja frv. Það er hér á hæstv. Alþ. viðurkennd sú staðreynd, að sjómannastéttin sé þarfasta stétt þessa þjóðfélags, sem leggur sig í hættu til að halda við þjóðfélaginu, og því hefur oft verið haldið fram, að þessir menn séu þess verðir að njóta góðs og bætts aðbúnaðar. Ég held því fram, að þeir, sem ekki eru með þessu máli, séu ekki samkvæmir því, sem haldið hefur verið fram í þessu sambandi, og ég held því fram, að Alþ. gefist nú tækifæri til að leiðrétta þann ósóma, sem nú ríkir varðandi vinnutíma sjómanna. Ég treysti og trúi, að þeir menn muni greiða atkv. með þessu frv., sem láta ekki flokksofstækið hlaupa með sig í gönur. Hér er um hagsmunamál sjómanna að ræða, en ekki flokksmál, og mun ég því greiða atkv. með frv.