19.12.1946
Neðri deild: 42. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jónas Jónsson:

Ég get verið hv. 1. þm. Skagf. sammála um það, að eðlilegt væri og æskilegt, að hér yrði, og frekar fyrr en síðar, komið á gagnlegri löggjöf um innflutning fleiri húsdýra, en sauðfjár, en ég er ekki sammála honum um að fella úr þessu frv. þá kafla, sem að því lúta að hefja þessar tilraunir, það er ekki rétt hugsað. Það er heldur ekki alveg rétt hjá hv. þm., að þetta frv. marki ekki tímamót í sögu málsins. Tilefni þess má rekja beint til þeirrar nýju afstöðu, er landbrh. ásamt meiri hluta Alþ. stuðlaði að fjárskiptunum í Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafirði í fyrra, og sagði, að horfið væri að fjárskiptunum vegna þess, að þau væru aðalatriðið. Á þessum grundvelli lét hann vinna. Það, sem horfið var frá með atkvgr. í fjvn. þá, voru hinar leiðirnar, og þær eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi eru það meðul, sem leitað hefur verið að í mörg ár, stuðningur hinna svokölluðu vísinda. Allt hefði það betur verið ógert. Þessi meðalaþáttur reyndist mjög kostnaðarsamur, og allt var það „húmbúg“ og til leiðinda fyrir alla, sem nálægt því komu, en þó fyrst og fremst fyrir þjóðina sjálfa. Það verður því alveg að afskrifa þessi vísindi og vonina um hjálp þeirra. Önnur leiðin, sem reynd hefur verið, er uppeldisstyrkja-leiðin, sem einnig hefur reynzt mjög kostnaðarsöm. Það hefur verið lagt fram geysimikið fé til að sætta menn á sýktu svæðunum við að hanga við búskap, þótt pestirnar geisuðu. En það er ómögulegt að halda þessum styrkjum, ef farið verður að beita sér fyrir fjárskiptum, og fastast er sótt á um fjárskipti þar, sem sauðfjárræktin er mest og eingöngu treyst á hana, t.d. að nokkrum hluta á Vestfjörðum, í Dölum, Húnavatnssýslu og í Skagafirði, og á þessum slóðum þarf fyrst að endurnýja sauðfjárstofninn. En þar sem hugsanlegt er að treysta að nokkru leyti á mjólkurframleiðsluna um sinn, a.m.k. eins og í Borgarfirði og á Suðurlandi. væru fjárskipti að vísu æskileg, en ekki jafnbrýn og þar, sem eingöngu þarf að treysta á sauðfjárræktina. Bændur, sem áður treystu á vísindin og því næst á uppeldisstyrkina, eru nú mest farnir að treysta á fjárskiptin. Þannig hefur straumurinn snúizt sökum árangurs af þeim tilraunum, sem þegar hafa verið gerðar í þessu efni. Það var annað viðhorfið, þegar fjárskiptaleiðin, sem ég vildi fara, var felld í fjvn. fyrir fáum árum með 7 atkvæðum gegn 2. Svo langt var þá enn frá því, að fjárskiptin væru orðin „aðalatriðið“. En almennt vonleysi um hjálp vísindanna og styrkina gera það nú að verkum, að fjárskiptin eru eina leiðin í þessum málum. Eftir þeirri leið verður að þoka sér áfram, fyrst gegnum sauðfjárhéruðin og síðar gegnum mjólkurhéruðin eftir óskum manna og fjárhagslegu bolmagni. Það sem hv. landbrh. lagði til í fyrra, og ég býst við, að hv. 1. þm. Skagf. sé honum samdóma, er viðvíkjandi framtíðinni. Við, sem höfum beitt okkur fyrir fjárskiptum. erum ekki alveg vissir um, að þau séu óbrigðul. Pestin hefur komið upp í annað sinn í Þingeyjarsýslu, fjárskiptin þurfa ekki endilega alltaf að reynast alveg örugg, eins og landbrh. benti á. Og þá kemur að útlenda stofninum og afstöðu hv. 1. þm. Skagf. Báðir þm. Skagf. vilja slá því máli á frest, og hv. 2. þm. Skagf. virðist vera á móti því með öllu að flytja inn útlendan fjárstofn. En nú beini ég því til hv. 1. þm. Skagf., sem vill fella niður 7. kafla frv., að svo stöddu a.m.k., að beita sér einmitt fyrst fyrir þessum innflutningi sauðfjár. Hvað mundi ella verða úr innflutningi fleiri húsdýra? Hv. þm. hefur áhuga á innflutningi þeirra almennt, en sér, að sú skoðun á enn þá minna fylgi að fagna, en vera skyldi. En hve langt verður þangað til, að hún fæst viðurkennd í þinginu. án þess nokkur berjist fyrir henni? Eða eigum við að hika við innflutning hrúta og tæknifrjóvgun allar götur, þangað til bændur eru farnir að sætta sig við innflutning húsdýra almennt? Ég segi nei. Vegna stöðu sinnar er hv. 1. þm. Skagf. manna bezt kunnugt um ósigra þá, sem orðið hafa í þessum málum, og mótþróa bænda gegn innflutningi sauðfjár. Þetta frv. er einmitt heppilegt millispor. Ég, og ég hygg Árni Eylands, við erum með því, að fluttar verði inn fleiri tegundir húsdýra. Aftur á móti er hv. 2. þm. Skagf. algerlega á móti öllum innflutningi þeirra, og svo er um marga fleiri leiðandi menn í bændastétt, að þeir mega ekki heyra innflutning nefndan. Við hv. 1. þm. Skagf., og skoðanabræður okkar, eigum hins vegar að sætta okkur við, ef við gætum fengið þá litlu tilraun gerða undir ströngu eftirliti. er 7. kafli frv. fjallar um, og þá sæist, hvort sú tilraun aflaði málinu fylgis meðal löggjafanna og bænda, því að gegn vilja þeirra verður féð ekki flutt inn og á ekki að gera það. Gegn tæknifrjóvgun mælir það eitt með skynsemi, ef ekki reyndist með öllu unnt að útiloka smithættu. Reynslan mundi fljótlega skera úr því. Búfræðingar telja, að tæknifrjóvgun í 5–6 kynslóðir muni skapa hér nýjan, útlendan stofn. Ég er því mjög sammála hv. 1. þm. Skagf. um framtíðarhugsjón hans, sem hann hefur áður kveðið fastar að orði um en nú. Málið er enn ekki nógu sterkt í hugum manna, en það er hæpið að biða eftir rýmri skilningi á því, er komi af sjálfu sér, og þarf í því sambandi ekki annað, en benda á þá baráttu, sem háð hefur verið í þessum efnum.

Ég held, að aðferð Englendinga verði bezt við þau dýr, sem yrðu flutt hingað til tæknifrjóvgunar. Englendingar leyfa innflutning húsdýra undir ströngu eftirliti. Ef dýrin reynast örugglega heilbrigð, er þeim hleypt inn í landið, ella er þeim slátrað. Þetta hygg ég frumatriði þeirrar viðtæku framkvæmdar að bæta bústofninn og þá fyrst fjárstofninn. En því má ekki flýta um of, á meðan hugir manna eru að opnast fyrir þessu, því að enga er unnt að frelsa án vilja þeirra.