22.12.1946
Neðri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (4180)

107. mál, bátaútvegurinn o.fl.

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég er alveg samdóma hæstv. forsrh. og hv. þm. V-Ísf., og mér fannst anda heldur köldu að hæstv. atvmrh. Það fyrirheit hans að yfirgefa stj. er ekki annað en að þetta frv. verði vitnisburður um, hve eftirsóknarverður flokkur hans er og hve fast hinir tveir stærstu flokkar þingsins sækjast eftir að komast sem næst honum, líkt og það er heitasta ósk fátækra Skota að komast til London. Ég held, að það sé ekki gleymt, að þessi sami flokkur hefur beðið um margar milljónir af ríkisfé til þess að klára tvö fyrirtæki. Það eru hinar nýju síldarverksmiðjur. Hann fékk í fyrra háa upphæð, og nú bætir hann við. Menn sundlaði, er fjárl. námu yfir einni millj. kr. Það var mikið lán, að þessi hæstv. ráðh. skyldi þá ekki vera á þingi. Þá voru hraustir og traustir drengir á þingi, þótt þeir skildu ekki þessa fjármálaspeki. Þessi hæstv. ráðh. hefur starfað í anda síns flokks, sem við mátti búast, og var tilgangurinn tilraun til að hjálpa flokksmönnum sínum, en taka ekki á sig ábyrgð að öðru leyti, og þegar hann gekk í þessa ríkisstj., þá var hann þar aðeins að hjálpa flokki sínum og ekki til annars, þótt hér sé farið fram á aðra hluti. Ég vil aðeins benda á, hversu Norðmenn standa okkur að baki í byggingu síldarverksmiðja. Þeir byggja nýja 10 þús. mála síldarverksmiðju, sem kostar 5 millj. norskra kr., en okkar yfir 40 millj. kr. En mér finnst nú rétt að viðurkenna, að hér er reynt að hjálpa til þess, að atvinnureksturinn komist yfir á hendur ríkisins, og nú segir hæstv. ráðh., að síldarverðið verði miklu hærra í sumar en nokkru sinni. Undir venjulegum kringumstæðum, er verð hækkar á vöru, þá hefði ekki átt að búast við, að grípa þyrfti til ráðstafana, sem þetta frv. felur í sér. Hvernig er þetta? Er þetta samrýmanlegt, að með hæsta verði komist enginn bátur úr höfn? Það hlýtur að vera eitthvað annað, sem stöðvar hjólið. Ég varaði hæstv. forsrh. við þessu haustið 1944 og tók þá sem dæmi hina raunalegu ástarsögu Haralds hárfagra. Þá benti ég á, hvernig þessi vinátta mundi enda, en hæstv. atvmrh. hefur nú farið í skúffu hæstv. samgmrh. og dregið sér þar frv. um landshöfn á Snæfellsnesi, en hann hefur þó seilzt dýpra í skúffu hæstv. forsrh., því eftir því sem dagblaðið Vísir hermir, þá mun þetta frv. ekki kosta minna en um 40 millj. kr. Nú telja höfuðstólpar Sjálfstfl., útvegsmenn, að atvmrh. hafi opnað svo arma sína, að ég skil ekki annað en að þeir snúi sér alveg að hinni rauðu samstæðu, , og verða þá ekki eftir nema heildsalar, því að þeir fá að borga þessar 40 millj. Ég get ekki annað en óskað hálfsýslunga mínum, hæstv. ráðh., til hamingju með þennan pólitíska hælkrók, sem hann hefur fellt hæstv. forsrh. á, um leið og hann innbyrðir helming Sjálfstfl.

Í Heimskringlu Snorra Sturlusonar er sagt frá því, er Haraldur hárfagri leit ástmey sína liðna, en hún var samt jafnrósrauð í kinnum sem hún væri kvik, og konungur sat yfir henni og hugði, að hún mundi lifna. Fór svo fram um þrjá vetur, og kom svo loks, að einn vitur maður kom vitinu fyrir konung og segir: „Það hæfir ekki, að svo fögur kona liggi of lengi í sama fatnaði, og er miklu sæmilegra, að hún sé hrærð og skipt undir henni klæðum.“ Þegar hún var svo færð úr rekkjunni, þá kom rotnunin í ljós. Ullu þá út úr líkamanum ormar og eðlur, froskar og pöddur, og lagði af óþef mikinn. Er konungur sá þetta, lét hann brenna líkið. Snorri lýsir þessu eftirminnilega vel.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, stendur nú í líkum sporum og Haraldur hárfagri, að undan hinni rósrauðu sæng kommúnista koma undarleg kvikindi fram, og stærsta paddan er þetta frv.