16.12.1946
Neðri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (4182)

107. mál, bátaútvegurinn o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi hér aðeins segja örfá orð, áður en þetta mál fer til hv. n. Ég vil þá fyrst leyfa mér að minna á það, að þegar núv. ríkisstj. tók við völdum fyrir tveimur árum, þá var það talið aðalatriðið af henni sjálfri að koma í veg fyrir það, að verðbólgan í landinu færðist í vöxt. Ríkisstj. hafði það sem sagt á sinni stefnuskrá að stöðva verðbólguna. Ég ætla mér ekki að heyja hér langar kappræður um þetta mál. Þess gerist ekki þörf, því að frv. það, sem hæstv. atvmrh. leggur hér fyrir þingið, sýnir svo ljóst sem verða má, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekizt að framkvæma þetta atriði í stefnuskrá sinni. Því er sem sagt lýst yfir af hæstv. atvmrh., að eftir tveggja ára stjórn hans og þeirrar ríkisstj., sem hann hefur tekið sæti í, þá sé þannig komið með framleiðslu okkar, að aðstaðan til útflutnings sé þannig, að ekki þurfi til þess að hugsa, að menn ýti fleytu á flot, nema fiskverðið verði hækkað um 30%, eða úr 50 aurum hvert kg. upp í 65 aura. Slíkar gífurlegar búsifjar hefur framkvæmd þessara mála núv. ríkisstj. fært sjávarútveginum. Þetta vildi ég aðeins undirstrika í sambandi við þetta mál.

Að öðru leyti vildi ég segja það, að mér fannst hæstv. atvmrh. gefa heldur litlar upplýsingar um afurðasöluna og möguleikana, sem við höfum til að selja afurðir sjávarútvegsins. Það skiptir höfuðmáli í þessu sambandi, hvernig — horfurnar eru í þeim efnum. Ég geri ekki ráð fyrir, að útvegsmenn vilji gera sér það að leik að ganga inn á þá braut, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Þótt ég greiði atkv. með þessum ráðstöfunum, dylst mér ekki, að þetta ráð felur ekki neitt það í sér, sem útgerðin getur unað við til lengdar. En ég mun heldur greiða atkv. með slíku neyðarúrræði en láta útgerðina eina verða fyrir búsifjum. Nú er lagt til að fara inn á þá braut, að ríkissjóður ábyrgist útvegsmönnum ákveðið verð fyrir fiskinn, en fyrir liggja litlar upplýsingar um, hvernig horfir í afurðasölunni yfirleitt. Sérstaklega fannst mér dauft yfir því, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert til að gera tilraunir til að fá samninga um sölu afurða landsmanna. Ég vil fyrst spyrja um það, hvernig útlitið sé með brezka markaðinn. Hvað mun maður geta gert sér vonir um, að hann gefi fyrir fiskinn, eins og nú standa sakir með markaðsverð þar í landi? Þetta hefur ekki verið upplýst, og væri fróðlegt að fá nokkuð um það að vita. Enn fremur hef ég ekki veitt því eftirtekt, að hæstv. atvmrh. eða forsrh. hafi upplýst, hvað komið hafi af föstum tilboðum í hraðfrysta fiskinn. Ég bið afsökunar, ef þetta hefur farið fram hjá mér. Sama máli gegnir um saltfiskinn. Ég tók ekki eftir, að upplýst hafi verið, hvaða tilboð hafi komið í hann. En allt eru þetta atriði, sem hafa mikla þýðingu í sambandi við ákvörðun Alþ. í þessu máli. Um þetta hafa gengið miklar sögur manna á milli og blöðin hafa stundum drepið á þetta, án þess að nokkuð hafi komið um málið frá ríkisstj. sjálfri. Á kannske að skilja þessa þögn ríkisstj. þannig, að hún hafi ekkert gert í því að fá samninga við Breta um afurðasölu, ekkert gert til þess að fá verzlunarsamning við Bretland fyrir næsta ár? En Bretar hafa verið stærstu kaupendur sjávarafurða frá Íslandi. Ég leyfi mér hér með að bera fram fyrirspurn um þetta. Þá hefur heyrzt, að Bandaríkjamenn hafi keypt nokkuð af afurðum héðan. En hafa ekki heldur verið gerðar neinar ráðstafanir til þess að selja þangað vörur? Hafa engir menn verið sendir vestur til þeirra hluta? Og hvað hefur yfirleitt verið gert í þessum málum? Og að lokum: Hvað er að frétta af þessum svo kölluðu Rússlandssamningum? Hvað hefur komið frá Rússum varðandi þetta? Hafa þeir spurt eftir afurðum héðan, og hvaða tilboð hafa þeir gert? Hvernig er þessum málum varið? Þetta eru þau atriði, sem þm. þurfa að hafa sem gleggsta vitneskju um, áður en þeir ákveða sig, hvort út í neyðarráðstafanir skuli leggja og hvernig þær þá eiga að vera. Mér finnst, að undarlega hljótt hafi verið um þessi mál frá hálfu hins opinbera. Og undarlega hefur litið borið á því, að menn hafi verið sendir til þessara landa til að selja afurðir landsmanna. Hins vegar hefur maður tekið eftir því, að Norðmenn hafa verið að gera undanfarna mánuði hvern samninginn af öðrum um sölu á sínum afurðum. Á þessum samningagerðum er auðséð, að það er hreyfing í þessum málum frá annarra hendi en Íslendinga. Með þessu er ég ekki að segja, að ríkisstj. hafi ekkert gert. Það má vera, að hún hafi gert eitthvað, og sé svo, þá hefur það ekki verið upplýst. Mér er nær að halda, að fyrir utanrmn. hafi ekki verið til meðferðar neinar samningaumleitanir í þessa átt. Nú er málum svo komið, að menn standa frammi fyrir því, að útvegsmenn hafa sagt, að þeir gætu ekki gert út um næstu áramót,. nema verðið hækki mikið. Hins vegar er ekkert opinberlega vitað um söluhorfur. Það er mikið skrafað um þessi efni. Síldarolían á að verða í mjög háu verði. Þó eru nokkrir mánuðir enn þá, þangað til ástæða er til að gera út um þá sölu. Þetta eru fyrirspurnir um markaðsleitirnar. Okkur, sem fyrir utan stj. stöndum, virðist lítið hafa verið gert í þessum málum og lítið upplýst varðandi þetta.

Þá vil ég aðeins minnast á frv. aftur. Það verður þá fyrst fyrir, að ef menn ætla að fara út á þessa braut að láta ríkissjóð ganga í ábyrgð fyrir visst verð, þá verða menn að gera ráð fyrir, hvernig á að standa undir slíkri ábyrgð, ef verulegur skellur verður. Þingið verður að horfast í augu við þetta og gera sér grein fyrir því, að út í slíkt er ekki hægt að leggja, nema hægt sé að afla þeirra fjármuna, sem af þessu gæti leitt, að til þyrfti að gripa, ef skellur yrði af þessu. Hvernig á að taka þá fjármuni, og hvernig eru möguleikarnir til þess? Í sambandi við fjárl. er gífurleg tekjuöflun á döfinni, enda eru þau orðin gífurlega há eða hátt á 2. hundrað millj. kr. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir þessu um leið og þetta mál verður afgr. Menn verða að fara að gera sér grein fyrir því, hvort ekki sé kominn tími til þess að fara að gera aðrar ráðstafanir, sem gætu gert útgerðinni kleift að reka atvinnurekstur sinn við sæmileg skilyrði. Ég held það þyrfti að athugast vel nú, hvort slíkt er ekki nauðsynlegt og hvort það er ekki meira knýjandi en þetta, sem hér er gert ráð fyrir. Það er öllum augljóst, að útgerðarmenn óska ekki eftir, að ástandið sé þannig, að það sé knýjandi nauðsyn, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir afurðir þeirra. Þeir kjósa helzt að fá að reka atvinnurekstur sinn, án þess að slíkt komi til. Ég sé ekki betur en ef haldið verði áfram á þessari braut, þá líti út fyrir, að útgerðin, sem undir þessu stendur, væri rekin með styrk frá þeim, sem á henni lifa. Það væri ekki skemmtileg þjóðfélagsmynd og ekki góð til þess, að menn lærðu að skilja, hvað það er, sem stendur undir þessu öllu. Ef skellur yrði af þessu og ríkissjóður yrði að svara út tugum millj. kr., þá væri það ekki skemmtileg þjóðfélagsmynd, sem við blasti, og ekki uppörvandi fyrir útgerðina. Ég held þess vegna, að ekki sé vanþörf á, að fram komi glöggar upplýsingar um afurðasölu okkar, svo að menn geti betur gert sér grein fyrir, hvernig málin standa. Þá mætti einnig reyna að komast að samkomulagi um aðra leið til hjálpar útgerðinni, sem vonir stæðu um, að gæti leitt til betri árangurs. En náist ekkert samkomulag um raunhæfar aðgerðir til bóta á þessu ástandi, þá neyðast menn auðvitað til þess að grípa til einhverrar ábyrgðar sem neyðarúrræðis til þess að forða útgerðinni frá að verða færð í kaf af fyrstu verðfallsbylgjunni, sem á landið skellur.

Þá vil ég benda á það, að ef inn á þessa braut verður farið og ef ekkert liggur fyrir í þessu máli, sem bent gæti til raunhæfrar úrlausnar, þá verður það óhjákvæmilegt að taka hér með aðrar útflutningsvörur. Ég vil benda hv. n. á landbúnaðarafurðirnar í þessu sambandi. Ef farið er inn á þá braut á annað borð að setja slíka tryggingu fyrir lágmarksverði, þá verður það að ganga sem jafnast yfir.