17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (4185)

107. mál, bátaútvegurinn o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem fram hefur komið í umr. um þetta mál.

Í sambandi við þær tilraunir, sem verðar voru til að afla markaða í Sovétríkjunum, og út af því, sem hæstv. forsrh. tók hér fram og las upp úr skýrslu, sem þeir hafa samið þessir þrír menn, sem ég nefndi til þess að eiga samtöl við Semenow, umboðsmann frá Exportkhleb, matvælastofnun Sovétríkjanna, vildi ég bæta við það, sem þar er sagt, nokkru, sem gefur skýringu á því, sem hæstv. forsrh. og utanrrh. sagði.

Það hefur verið nokkur deila um þetta, hvort slælega eða vel hafi verið unnið að því að afla markaða þessara. Ég ætla ekki að fara inn á þá deilu, heldur benda á, að þegar þessir menn, Ársæll Sigurðsson, Einar Sigurðsson og Ólafur Jónsson frá Sandgerði, fluttu þau tilmæli, að Sovétríkin sendu hingað n, til þess að undirbúa samninga um sölu sjávarafurða til Sovétríkjanna, þá vildi Semenow fá þetta staðfest munnlega eða skrifl. frá utanrrh., annaðhvort við sig eða sendiherra Sovétríkjanna. Ég flutti þá til hæstv. fors.- og utanrrh. orð um, að beiðni um, að Sovétríkin sendu menn hingað til að athuga um samninga um kaup á vörum héðan, þyrfti að var staðfest af honum sem utanrrh., annaðhvort við Semenow eða sendiherra Sovétríkjanna hér. Ég fann strax, að hæstv. utanrrh. fannst einhver tormerki á því að senda slíka skriflega beiðni, en sagði mér þó, að hann mundi eiga tal við sendiherra Sovétríkjanna, þegar þeir hittust hjá Sveini Björnssyni, forseta Íslands, þegar sendiherrann legði fram skilríki sín. En hæstv. utanrrh. hefur láðst að gera það. Og hæstv. utanrrh. hefur gleymt þessu, eins og kom fram, þegar ég talaði við sendiherra Sovétríkjanna. Það hefur ekki borizt til sendimannsins frá Exportkhleb né til sendiherra Sovétríkjanna staðfesting á þessu frá hæstv. utanrrh. Hins vegar mun Semenow hafa sent Exportkhleb tilkynningu um það, að af okkar hálfu væri óskað eftir, að hingað væru sendir menn frá Sovétríkjunum til að athuga um þessa samninga, en ekki væri beinlínis beiðni ríkisstj. hér um, að svo væri gert. Og þar sem Semenow kom ekki hingað aftur, þó að upphaflega væri gert ráð fyrir því, þegar hann fór, þá var ekki hægt að tala við hann meira um þetta hér. — Þannig liggur því ekki fyrir nein beiðni frá íslenzku ríkisstj., hvorki um, að sendir verði menn hingað frá Sovétríkjunum til að athuga um þessa samninga, né heldur beiðni um, að Sovétríkin taki við mönnum héðan í því skyni.

Hæstv. fors.- og utanrrh. sagði, að hann hefði enga beiðni fengið frá mér um þessa hluti. Það er rétt, að ég hef ekki sent slíka beiðni. En það þarf ekki nema að koma niður að höfn til þess að sjá nauðsynina á, að reynt sé að semja um sölu á fiskafurðum okkar. Ég flutti fram við hann munnlega beiðni um, að hann staðfesti þessa orðsendingu, sem hann sendi með þeim Ólafi Jónssyni í Sandgerði og Einari Sigurðssyni til þessa . fulltrúa Exportkhleb, sem hér var. En hæstv. ráðh. gerði það ekki, svo að það er ekki hægt að búast við neinu af þessu, þar sem íslenzka ríkisstj. vildi ekki binda nafn sitt við þessi tilmæli. Ég veit ekki, hvers vegna hæstv. forsrh. vildi ekki staðfesta þessi tilmæli, munnlega eða skriflega. Hann kann að hafa haft sínar ástæður fyrir því. Ég veit það ekki. Og er kannske að finna einhverjar skýringar á þessu í þeim fréttum, sem okkur eru að berast utan úr heimi um ýmsar aths. manna hér á Íslandi í sambandi við viðskiptamál.