17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (4195)

110. mál, landshöfn og fiskiðjuver á Rifi

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þakka hæstv. samgmrh. hans fyrirheit um, að rannsókn skuli fara fram, en ég er bara á þeirri skoðun, að rannsóknum sé það langt komið, að óhætt sé að hefja verkið. Ég er langt frá því að vera á móti fullkominni rannsókn, en þarna er bara brýn nauðsyn að gera eitthvað fyrir þennan stað, svo að fólkið yfirgefi hann ekki, og svo er það vitað, að mannvirki eins og hér um ræðir verða ekki byggð á svipstundu. Það er vitað, að hafnargerð á Rifi byggist fyrst og fremst á því, að gerður verði skjólgarður, og auk þess á dýpkun. Á þessu tel ég vera hægt að byrja, eins og málin nú liggja fyrir, og mundi þessi byrjun, ef framkvæmd yrði, geta orðið strax til mikilla nota. Ástandið er þannig orðið á Sandi, að fólkið bara flytur burt úr plássinu, ef ekki verður hafizt handa. En eins og vitað er, eru þar út af ein beztu fiskimið. Það er því hreinn og beinn þjóðarskaði, ef þau nýtast ekki. Ég tel því, að ekki sé hægt að bíða eftir fullkominni rannsókn, enda hennar ekki þörf til að hefja verkið. Það má vel vera, að fullkomin hafskipahöfn þar vestra kosti 20 millj., eins og samgmrh. sagði. En ég er þeirrar skoðunar, að með því að hefja verkið og leggja til þess 5 millj. megi koma þarna upp allgóðri bátahöfn, sem svo smám saman megi bæta, eftir því sem getan leyfir.