18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (4217)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Gísli Sveinsson:

Það er óþarft að hafa þau orð, að menn ræði lengi um mál, þó að menn ræði nokkuð um þingsköp. Það eru ekki takmarkanir fyrir umr. um þingsköp, heldur aðeins um meginmálin. Og ég þóttist þurfa þennan tíma, sem ég tók, til þess að skýra það, sem fyrir mér vakti.

Hins vegar benti ég hæstv. forseta á það, að það getur verið dálítið reikult, þegar hann talaði um, að það ætti að ráða þessum málum eftir beztu skynsemd En þó að maður geri ráð fyrir, að bezta skynsemdin sé hjá hæstv. forseta, þá er það svo, að ef aðrir brúklega skynsamir menn eru ekki sammála honum, þá verður það endirinn, að hæstv. forseti sjálfur dæmir um skynsemina. — Nei, betra er að fylgja einhverjum reglum í þessu efni. Og það er til viss háttur, sem hafður hefur verið um afgreiðslu slíkra mála sem þessa.

Nú hefur einn hv. þm., sem tekið hefur til máls um þetta, talað til styrktar stefnu hæstv. forseta í þessu atriði og talið, að þar sem hér væri um svo mikið fjárhagsatriði að ræða, þá hlyti málið eftir eðli sínu og reglum þingskapa að eiga að fara til fjhn. En þetta hefur ekki verið svo, heldur hefur myndazt venja í samræmi við þingsköp um, að hliðstæð mál þessu fari til annarra n. Og skal ég benda hv. þd á það í þessu sambandi, að ég veit ekki betur en að sá stærsti lagabálkur, sem komið hefur í seinni tíð fyrir hæstv. Alþ., sem hljóðar um hin mestu fjárútlát ríkis, héraða og einstaklinga, sem getur í sögunni, að ákveðin hafi verið með einum lagabálki hér á landi, almannatryggingarnar — hvert fór frv. um þær? Fór það til fjhn. hv. d.? Nei. Það fór til þeirrar n., sem eftir eðli og efni málsins þótti hlýða, en ekki eingöngu eftir fjárhagshlið málsins. Það fór þess vegna ekki til fjhn., heldur heilbr.- og félmn., einmitt eftir till. flokksbróður þessa hv. þm.

Nú er það álitamál, hvort á að taka þetta mál, sem hér liggur fyrir, fyrir af menntmn. eða ekki. Ég tel það ekki réttmætt eftir öllum atvikum. En að sjálfsögðu læt ég mér það í léttu rúmi liggja, því að þetta er ekkert persónulegt atriði fyrir mig. En ég tel það óreglulegt og óréttmætt að taka þetta mál úr höndum menntmn.