18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (4221)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Forseti (BG):

Út af þessum orðum hv. 6. þm. Reykv. skal það tekið fram, að það er fjarri því, að ég leggi til, að þetta mál fari til fjhn., af því að ég vantreysti menntmn. Þetta veit hv. 6. þm. Reykv., að lá ekki á bak við till. mína um n. í þessu máli, því að við höfum oft rætt það í menntmn., hvaða mál ættu að vera í þeirri n., og ég hef haldið því fram, að slík mál sem þetta ættu þar ekki heima. Til vitnis um þetta eru aðrir hv. menntmnm. þessarar hv. þd. — Og lýsi ég hér úr forsetastóli jafnframt hv. 6. þm. Reykv. ósannindamann, þar sem hann sagði, að ég hefði aldrei mætt á fundum í menntmn. — En viðvíkjandi því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þetta mál sé hjá n., þá er það ekki meiri hl. n., sem hefur tekið þetta mál að sér til flutnings, heldur aðeins einn maður í n. — Annars er mér ókunnugt um, vegna hvers hv. 6. þm. Reykv. vænir mig um, að mér gangi nokkuð annað til í þessu efni en það, að ég álít rétt, að þetta mál sé hjá þeirri n., sem ég hef lagt til, að það færi til, og er að reyna það, sem ég kalla að koma einhverri skynsamlegri venju á það, hvernig málum sé skipt á milli n. í hv. þd.