18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (4224)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Gunnar Thoroddsen:

Ég tel mér skylt sem nm. í menntmn. að mótmæla þeim alröngu ásökunum, sem form. menntmn. hefur haft um fundarstörf hæstv. forseta d., þar sem hv. 6. þm. Reykv., form. menntmn., sagði í fyrri ræðu sinni, að hann (hæstv. forseti) mætti aldrei á fundum n., en dró að vísu úr því í síðari ræðu sinni. — Fyrsti fundur í menntmn. þessarar hv. d. á þessu þingi er samkv. gerðabók menntmn., sem ég hef hér hjá mér, haldinn 5. nóvember. Þar er bókað: Allir nefndarmenn sóttu fundinn. Undirskrifað: Sigfús Sigurhjartarson. 2. fundur n. er haldinn 9. nóvember. Í fundargerð þess fundar er bókað: Allir nefndarmenn sóttu fundinn. Undirskrifað: Sigfús Sigurhjartarson. 3. fundur n. á þessu þingi er haldinn 11. nóvember. Bókað í fundargerð: Allir nefndarmenn mættir. Undirskrifað: Sigfús Sigurhjartarson. 4. fundur n. er haldinn 12. nóv. Þar er bókað í fundargerð: Allir nefndarmenn sóttu fund. Undirskrifað: Sigfús Sigurhjartarson.

Ég ætla ekki að fara lengra í þetta til sönnunar því, að hv. 6. þm. Reykv. hefur hér í ádeilum sínum viðkomandi þessu efni farið með staðlausa stafi.