19.12.1946
Neðri deild: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (4229)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég skal ekki lengja umr. Ég trúi því vel, að hæstv. forseti hafi óskað þess við Alþýðublaðið, að þetta mál yrði ekki rætt. Þykir mér það ofur eðlilegt. En ég verð að segja, að mér þótti það ekki gott hjá hæstv. forseta, þegar hann fór að halda því fram, að ég hefði sagt, að hann hefði enga fundi sótt í menntmn. (Forseti: Ég lýsi hv. þm. algeran ósannindamann að þessu. Hér er fjöldi manns við, sem hlustaði á hv. 6. þm. Reykv. og heyrðu hann segja „aldrei“. Einn af okkar allra beztu þingskrifurum skrifaði það þannig upp. Svo dró hv. þm. aftur saman seglin, þegar hann sá, að hann hafði sagt of mikið.) Það má vera, að skrifarinn hafi tekið það þannig niður, en þetta smáorð „nær“ framan við hefur fallið niður. En í framhaldi af þessu vil ég geta þess, að þar sem stendur í bókunum, að forseti hafi mætt á 20 fundum af 47, er í þessu bókað, þó að hann hafi ekki nema aðeins litið inn á fundina án þess að taka þátt í nefndarstörfum.

Um orðbragð forseta þarf ég ekki að halda neina ræðu. Hann notaði ekki orðið ósannindi síðast úr forsetastóli sínum, heldur önnur verri orð. Og sjálfur hefur hann nú vitnað, því að enn einu sinni hefur það sýnt sig með hann, sem á að sjá til þess, að aðrir þm. gæti hófs í málflutningi, að skapið er svo mikið, að hann fær ekki stjórnað geðofsa sínum né ráðið við tungu sína. En þetta er honum áskapað, og þýðir ekki um það að fást. Læt ég svo útrætt um þetta mál frá minni hendi hér í þ. Það má vera, að blöðin taki upp á að ræða málið frekar, og má þá vera, að ég sjái ástæðu til að leggja eitthvað til málanna á þeim vettvangi.