10.01.1947
Neðri deild: 51. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það er langt um liðið, síðan umr. um þetta mál var frestað og ég eðlilega orðinn nokkuð gleyminn á, um hvað ágreiningurinn aðallega var í sambandi við það. Ég vil þó, sérstaklega vegna ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem hann flutti við þá umr., fara um þetta mál nokkrum orðum, þótt hann sé ekki hér viðstaddur nú.

Ég mun hafa látið í ljós í framsöguræðu minni, að ég væri glaður yfir því, að það hefði orðið samkomulag í landbn. um öll aðalatriði þessa máls varðandi framkvæmdina. Og sannleikurinn er sá, að þau tvö atriði, sem hér er nokkur ágreiningur um, eru ekki nein aðalatriði varðandi framkvæmdina og snerta þess vegna í raun og veru ekki það samkomulag, sem orðið hefur um málið í landbn., en um þessi tvö atriði, sem ágreiningur hefur orðið um, vil ég fara nokkrum fleiri orðum í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Skagf.

Það má segja það um innflutningsmálið, að það sé að vissu leyti mjög ólík aðstaða þessara tveggja þm., því að hv. 2. þm. Skagf. er þar ekki í neinni mótsögn við sjálfan sig, því að hann vill banna algerlega allan innflutning. og hef ég ekkert við það að athuga, þó að hann hafi verið á öðru máli í því efni fyrr, það er engin mótsögn af hans hálfu. En hv. 1. þm. Skagf. hefur fullkomlega komizt í mótsögn við sjálfan sig, þar sem hann vill setja ný l., önnur l., um innflutning og enn viðtækari, en gert er ráð fyrir í 7. kafla þessa frv., sem ég og meiri hl. n. vill halda eins og hann er, með þeim breyt., sem n. hefur orðið sammála um. Hv. 1. þm. Skagf. benti á það, að nauðsynlegt væri að setja nánari ákvæði um þessi innflutningsmál, og það er út af fyrir sig satt, en ég tel, að í 7. kafla þessa frv. sé svo varlega í farið, að það sé miklu betra að samþ. hann eins og hann er eftir till. n. og fella niður hin gömlu l., sem mikil ógæfa hefur af hlotizt, en að láta þau standa áfram. Varðandi það, sem síðasti ræðumaður var að vitna í, að illa hefði til tekizt um innflutning á þeim kindum, sem fluttar voru inn hér s.l. haust. er það út af fyrir sig rétt, og má segja, að það sé engin furða, þó að menn séu tortryggnir, þegar hver vitleysan rekur aðra hjá þeim sendimönnum, sem sú stofnun sendi, sem með þessi innflutningsmál hefur að gera, en það er tæplega hægt að gera ráð fyrir því, að slíkir sendimenn hagi sér þannig, að maður gæti ætlað, að þeir væru ekki með heilbrigðri skynsemi, en það verður að teljast, þegar það kemur fyrir, að menn flytja frá öðrum löndum gripi, sem þeir vita, að eru sýktir af einhverjum sjúkdómi. Það hefur komið fyrir, að þetta hefur komið að sök, en ég geri ráð fyrir, að það yrði farið það gætilega í þessi mál, að sendir yrðu þeir menn, sem mætti treysta til að haga sér vel í þessum efnum.

Varðandi hitt, deiluatriðið, sem hér hefur verið rætt um, sem er brtt. frá meiri hl. n., um að orðið „sauðfjársjúkdómar“ komi í staðinn fyrir orðið „karakúlsjúkdómar“, þá er það að segja, að hið síðarnefnda er fyllilega eðlilegt nafn, því að það er vitað mál af þeim aðilum, sem bezt þekkja, að uppruna þessa sjúkdóms er þannig háttað, að hann er innfluttur hingað til landsins með karakúlfé, og það þýðir ekkert fyrir hv. 2. þm. Skagf. að vitna til þess, að það sé útlent orð, því að þar sem þessi fjártegund hefur borið þetta heiti, er eðlilegt, að miðað sé við það nafn, sem uppruninn segir til um, enda er öll hin svo kallaða sauðfjársjúkdómanefnd, sem er auðvitað skipuð hlutlausum mönnum, sammála mþn. um það að halda þessu nafni, og einnig sauðfjárræktarráðunauturinn. En það kemur till. frá stjórn Búnaðarfélags Íslands um að feila þetta niður, og get ég skilið, af hvaða rótum hún muni runnin. Brtt. aftur á móti, eins og hún er borin fram, getur ekki staðizt, þannig að hún falli saman við það, sem eðli málsins fjallar um. Að kalla þetta einu nafni sauðfjársjúkdóma getur ekki staðizt, í fyrsta lagi vegna þess, að það eru líkir sjúkdómar í öðrum búpeningi, veikin er einnig í kúm, og þá er sannarlega ekki viðeigandi að kalla hana sauðfjársjúkdóma. En sér í lagi fær þetta ekki staðizt vegna þess, að það eru miklu fleiri tegundir sjúkdóma, sem ásækja sauðfé okkar, en þessir 3 karakúlsjúkdómar, sem þetta fjallar um. Við höfum átt við að stríða garnaveiki, bráðapest og marga aðra sjúkdóma, sem hafa ásótt sauðfé okkar og ekki er búið að útrýma enn.

Hv. 1. þm. Skagf. mun hafa slegið því fram hér síðast, þegar hann talaði, að ósamræmi væri í því hjá okkur, sem hefðum samið þetta frv., að hafa ekki komið með till. um að breyta nafninu á þessari n. í samræmi við þessa till. um heitið á sjúkdómunum. Þetta eru út af fyrir sig ekki rök, sem hægt er að taka góð og gild, því að það er allt annað, þó að það sé sett n. til að stjórna þessum málum, að hún sé ekki endilega kennd við sama heiti og eðlilegt er að hafa á þeim sjúkdómum, sem um er að ræða. Hitt skal ég játa, að heitið á þessari n. er mjög álappalegt heiti, og það, að við í mþn. bárum ekki fram till. um það að breyta nafninu á þessari n., byggðist á því, að þetta er nú að komast í nokkra hefð. Í raun og veru hefur þessi n. lengst borið nafnið mæðiveikinefnd, og er það að sumu leyti skárra, en þó slæmt, en að kalla hana sauðfjársjúkdómanefnd er slæmt. Ég mun því síðar meir bera fram brtt. um nafn á þessari n., þó ekki að hún heiti karakúln. og tengja þannig nafn hennar við það starf, sem hún hefur á hendi. Sú stofnun, sem þessi n. stjórnar, hefur almennt borið nafnið Sauðfjárveikivarnir, og mun það prentað á ýmsa reikninga og skjöl, sem frá þessari stofnun hafa komið. Sannleikurinn er sá, að þessi n. er fyrst og fremst til þess að stjórna þeim vörnum, sem hér hafa verið og eiga að vera fyrir sauðfé okkar, ekki aðeins vörzlu og girðingum, heldur og yfirleitt koma í veg fyrir, að sauðfjárræktin bíði alvarlegan hnekki af hvers konar hættum í þessum sökum. Þess vegna finnst mér eðlilegt að kalla þessa n. „sauðfjárvarnastjórn“, eðlilegt, að hún taki nafn af því, að hún er að stjórna þessum vörnum, og finnst mjög mikið samræmi í því, miðað við það nafn, sem þessi stofnun hefur sett á skjöl sín, sem er Sauðfjárveikivarnir, og sé eðlilegra, að þessi n. sé kölluð sauðfjárvarnastjórn, en sauðfjársjúkdóman. Mætti líka segja, að væri hægt að kalla hana sauðfjárvarnan., en hitt finnst mér eðlilegast, að hún bæri nafnið sauðfjárvarnastjórn.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða nánar um þetta mál, enda fáir viðstaddir til að taka þátt í þeim umr.