10.01.1947
Neðri deild: 51. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jón Sigurðsson:

Það var út af ræðu hv. þm. A-Húnv., að ég vil segja nokkur orð. Hann sagði, að afstaða mín til innflutningsmálsins væri önnur, en verið hefði. Ég kannast ekki við þetta. Ég hef alla tíð verið á móti innflutningi á fé, a.m.k. meðan ekki eru gefnar upp allar vonir um, að við getum varizt sauðfjárveikisjúkdómum, og ég man ekki eftir að hafa greitt atkv. í gagnstæða átt. Ef hann á við þá afstöðu, sem búnaðarfélagið tók á sínum tíma, vil ég upplýsa, að ég var ekki einn í því liði, því að ég átti þá ekki sæti á búnaðarþingi. Það er því misskilningur, að ég hafi átt þátt í innflutningi fyrr eða síðar, þvert á móti hef ég verið á móti innflutningi og talið hann varhugaverðan. Þar fyrir mundi ég ekki telja, að ég hefði lítillækkað mig, þótt ég hefði skipt um skoðun í þessu efni, ef það væri fyrir reynslu, sem fengizt hefði, en því er bara ekki til að dreifa. — Þá ræddi hv. þm. mikið um ólestur og mistök í þeim innflutningi, sem hér hefur átt sér stað. Ég skal ekki kasta steini að þessum manni, sem fenginn var til þessa starfs. Ég hygg, að það hafi verið að tilhlutan stj., að þessi maður var fenginn. Sauðfjárræktarráðunautur, sem eðlilegast væri, að hefði farið, var á sýningarferð úti á landi og gat ekki snúizt við því, og ég hef ekki heyrt annars getið, en þessi maður sé bezti maður og tel víst, að hann hafi reynt að gera þetta eftir beztu vitund. En það sýnir manni, hve miklum erfiðleikum þetta er bundið, að svona skyldi takast til, alltaf færi það frekar á þann veginn. Þetta er heldur ekki nýtt, þetta hefur skeð oft, þjóðinni til tjóns, og mætti nefna t.d. fjárkláðafaraldurinn, sem gekk hér á 18. og aftur á 19. öld. Þó vil ég ekki segja, að í framtíðinni mætti ekki, ef niðurskurðurinn mistekst, reyna innflutning, en vil, eins og ég hef tekið fram, sjá, hvernig fjárskiptin takast, áður en ég fer að mæla með því, að lagt verði út í svona ævintýri. Og svona hélt ég, að hv. þm. A-Húnv. hugsaði, því að mér hefur skilizt hingað til, að skoðanir okkar féllu þar nokkuð saman.

Um nafnið skal ég ekki fjölyrða, mér er það ekki kappsmál og get látið mér í léttu rúmi liggja um það, hvort ofan á verður í því efni. Ef okkur er alvara með að hafa nöfnin á þessum sjúkdómum íslenzk, því þá ekki að taka þau upp í staðinn fyrir þessi erlendu nöfn, sem alls ekki eiga heima í málinu? Þetta er mín afstaða, og mér finnst óráð að lofa slíkum ónefnum að festast í málinu, ef hægt er að finna önnur íslenzk nöfn, sem betri eru. Mér fyndist ráðlegt, að n. fengi í lið með sér málhaga menn til þess að lagfæra þetta.