25.02.1947
Neðri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (4276)

174. mál, veiting prestakalla

Ingólfur Jónson:

Herra forseti. — Ég hafði nú ekki hugsað mér að ræða efnisatriði þessa frv., en ég vil láta þá skoðun í ljós, að ég tel frv. ekki nauðsynlegt.

Hv. 1. flm. dró fram ýmsar ályktanir, sem vafi er á, hvort mæla með eða móti frv., og sumar jafnvel frekar á móti, en fleira má nefna, bæði með og þó sérstaklega á móti. Ég býst við því, að fólkið í landinu, sem er vant að kjósa sér presta, það vilji gera það áfram. Það er nú svo, að það samstarf, sem þarf að vera á milli presta og safnaða, þarf frekar að aukast en minnka, en við því er varla að búast, ef prestarnir koma óvelkomnir, sendir af pólitískum ráðherra. Að vísu er svo sagt í frv., að leita skuli álits biskups um, hvern umsækjanda hann telji hæfastan, og í brtt. á þskj. 442 er bætt við sóknarnefndum prestakallsins og viðkomandi héraðsprófasti, en eftir sem áður fer hinn pólitíski ráðh. með veitingarvaldið, og við höfum langa reynslu fyrir því, að það vald hefur oft verið misnotað.

Ég held því, að þó að hv. 4. þm. Reykv. tali um, að biskup eigi að vera rödd kirkjunnar, þá sé engin vissa fyrir því, að hann ráði nokkru um það, hvaða prestur verður fyrir valinu, heldur er það alveg komið undir vilja hins pólitíska ráðh., sem er á hverjum tíma. Hér er því ekki verið að bæta úr því ástandi, sem er, heldur skapa einræði í stað lýðræðis og skapa ríkisvaldinu betri aðstöðu til að misbeita valdi sínu en áður var.

Hv. frsm. sagði, að flm. væru til viðtals um breyt. á frv. Ef frv. væri breytt svo, að sóknarnefndir hefðu vald í samræmi við þá aðila aðra, sem nefndir eru, og ráðherrann yrði að fara eftir vilja þeirra, væri frv. komið í það horf, að það væri a.m.k. ekki afturför frá því, sem nú er, og væri jafnvel til bóta, og þá væri hægt að segja, að þeir, sem réðu, væru hinir réttu aðilar. Þá væri valdið heldur ekki fengið í hendur pólitískum manni, sem ekki er alltaf sem heppilegast. En þó vil ég ekki segja, að þetta sé breyting til mikils batnaður frá því, sem nú er. Það eðlilegasta er, að fólkið velji sér sjálft þá menn, sem með því eiga að starfa. En hvað viðvíkur deilum innan safnaðanna út af kosningum, standa þær ekki svo djúpt né lengi, að til skaða sé. Þegar kosið er, þá hefur þó kosningin skorið úr um, hvaða umsækjandi eigi mestu fylgi að fagna, og söfnuðurinn átt þess kost að velja sér sjálfur mann. Ég tel því, að þetta frv. sé ekki nauðsynlegt, vægast sagt, þó að það geri ekki mikinn skaða, ef því er breytt í það horf, sem frsm. taldi sig geta fallizt á. En eins og það er nú, er það fráleitt, og . bezt væri, að það dagaði uppi.