19.02.1947
Neðri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (4286)

175. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta, sem prentað er á þskj. 409, hefur áður verið flutt í þeirri mynd, sem það nú er, á hv. Alþ. og er því þm. kunnugt, og almenningi er það að nokkru kunnugt vegna skrifa um það í dagblöðunum, og þarf því ekki hér mörgum orðum um að fara í framsögu.

Frv. þetta var áður flutt af fyrrv. borgarstjóra Reykjavíkur og núv. hæstv. utanrrh. Eins og segir í frv., þá er gert ráð fyrir, að tveir aðilar, ríki og Reykjavíkurbær, komi upp æskulýðshöll hér í höfuðstaðnum. Ég hygg, að menn geti orðið sammála um . nauðsyn slíkrar stofnunar sem þessarar, og eins og nú háttar, þá væri æskunni það mikils virði, að komið yrði á fót slíkri stofnun, en sökum húsnæðisskorts, þá hefur æskan átt óhægt um vik að rækja eðlilega félagsmálastarfsemi. Tilgangurinn er því að bæta aðstöðu unga fólksins í þessu efni, svo að því gefist kostur til félagsmálastarfa og íþróttaiðkana, en húsnæði til þessa hefur verið mjög erfitt að fá, og ef það hefur þá fengizt, þá hefur leiga þess verið það há, að ofviða hefur verið unga fólkinu og samtökum þess. Núverandi húsakostur er því of dýr, og er tilgangurinn með æskulýðshöllinni að bæta hér úr, og auk þess er ætlazt til þess, að þar geti farið fram alls konar fræðslustarfsemi, svo sem flutningur tónverka, kvikmyndasýningar o.s.frv. Áhugi unga fólksins á tónlist fer vaxandi, og nú fyrir skemmstu hefur tónlistarfélagið séð fyrir því, að unga fólkið hefur átt þess kost að hlýða á alls konar tónsmíðar, og hafa hljómleikar þessir verið ágætlega sóttir af æsku höfuðstaðarins. Einnig er gert ráð fyrir, að í æskulýðshöllinni geti farið fram fyrirlestrahald og alls konar tómstundaiðkanir. Hér má t.d. minna á, að áhugi fyrir taflíþróttinni hefur farið sívaxandi, og hafa Íslendingar jafnan staðið sig vel í þeirri íþrótt andans, enda þótt starfsemi skákfélaganna hafi jafnan verið á hrakhólum. Þá er í frv. vikið að því, að ekki væri óeðlilegt að bæjarbókasafnið yrði tengt æskulýðshöllinni. Yrði þar þá hvort tveggja lestrarsalur og myndarlegt bókasafn. Reykjavíkurbær mundi þá bera uppi allan kostnað við safnið. Að öðru leyti er gert ráð fyrir, að ríkið standi straum af kostnaðinum, en leiti þó til æskulýðsfélaga í bænum eftir stuðningi, þ.e. þeirra félaga, sem gætu komið til að hafa áhrif á rekstur æskulýðshallarinnar. Slíkt frv. sem þetta getur ekki lengur dagað uppi. Það er að vísu svo, að hægt er að hreyfa hér mótbárum gegn frv., að fjárhagur leyfi ekki þessar framkvæmdir, en þótt frv. verði nú samþ., þá mælir 6. gr. frv. svo fyrir, að l. komi ekki til framkvæmda, fyrr en veitt hefur verið fé til þessara framkvæmda í fjárl. og í fjárhagsáætlun Reykjavíkur, en samþykkt frv. nú hefur það í för með sér, að hert verður á því, að fé verði veitt. Afstaða bæjarstjórnar Reykjavíkur er sú, eins og greint er frá í grg., að stjórn bæjarins hefur skorað á hæstv. Alþ. að samþykkja þetta frv. og veita fé til þessa máls í fjárl. Um þessa skoðun bæjarstjórnarinnar hafa flokkarnir staðið óskiptir, og leyfi ég mér að vænta þess, að svo verði einnig hér á Alþ. Ég tel nú, að þegar málið fer í n., þá athugi hún gaumgæfilega álit það, sem herra Ágúst Sigurðsson hefur gefið út varðandi þetta mál, ásamt öðrum málsskjölum. Ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um þetta, en ég vænti þess, að málinu verði vísað til hv. allshn. og 2. umr.