03.03.1947
Neðri deild: 84. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (4300)

182. mál, út- og uppskipun á Ísafirði

Sigurður Bjarnason:

Þess er getið í bréfi, sem prentað er sem fskj. með þessu frv., að samþ. hafi verið að biðja FJ, HV og SB að beita sér fyrir þessu máli hér á Alþ. En nú hefur það atvikazt þannig, að ég hef ekki gerzt meðflm., og vil ég skýra, vegna hvers það er.

Það er fjarri því, að ég sé ekki sammála bæjarstj. um það, að auka þurfi tekjur bæjarsjóðs, sú nauðsyn er mjög brýn. En hins vegar tel ég, að með þessari ósk sé farið inn á vafasama leið, sem ekkert bæjarfélag hefur enn þá farið inn á, þó að til þess hafi verið pólitísk aðstaða.

Það eru einkum tvö atriði, sem mér finnst þörf á að athuga í þessu sambandi. Það er í fyrsta lagi, eftir hverju er verið að slægjast, er von á ágóða af þessari einkaheimild, ef hún fengist? Ég tel, að það sé borin von, ef athuguð er skipaútgerð ríkisins, sem hefur haft svipaða heimild, þá hefur þar verið um halla að ræða á þessum rekstri. Ég lít því þannig á, að það sé mjög vafasamur hagnaður fyrir hafnarsjóð að fá þessa heimild. Ég hefði talið nauðsynlegan grundvöll undir slíkar óskir, að vitneskja lægi fyrir um, hversu mikilla tekna mætti vænta af slíkri einkaheimild. Ég vil einnig benda á, að það er nokkuð hæpið af löggjafanum að svipta þá menn atvinnu, sem undanfarin ár hafa haft atvinnu af þessari starfrækslu og hafa náttúrlega, ef um hagnað hefur verið að ræða, greitt af henni útsvar og önnur gjöld til ríkis og bæjar. Það hefur stundum komið fyrir, að það hefur þótt hilla undir miklar tekjur og mikla arðsvon af rekstri einstaklinga, og svo þegar bæjarfélög hafa tekið þennan atvinnurekstur undir sig, hefur útkoman stundum orðið sú, að arðurinn hefur ekki reynzt eins mikill og menn gerðu sér vonir um. Ég gæti nefnt dæmi um þetta einmitt frá Ísafjarðarkaupstað, sem ég á þessu stigi málsins mun þó ekki gera, nema frekara tilefni komi til.

Ég skal svo ekki hafa mikið fleiri orð um þetta mál. Ég viðurkenni, eins og ég sagði, o veit glögglega um hina miklu þörf hafnarsjóðs Ísafjarðar að fá miklar tekjur til þeirra framkvæmda, sem fram undan eru hjá honum. En meðan engar upplýsingar eru um, hvort hagnaðar megi vænta af þeim atvinnurekstri, sem hér er um að ræða, þá er ég mjög tregur til þess að fara inn á þá leið, sem hér er lagt til í þessu frv.