03.03.1947
Neðri deild: 84. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (4301)

182. mál, út- og uppskipun á Ísafirði

Flm. (Finnur Jónsson):

Mér þykir ákaflega leitt, að hv. þm. N-Ísf. hefur ekki séð sér fært að verða við beiðni bæjarstjórnar Ísafjarðar um að verða meðflm. þessa frv., en að sjálfsögðu verður hann að gera það upp við sig og sína flokksmenn á Ísafirði, sem hafa nú forystu um að stjórna bæjarfélaginu, hvaða afstöðu hann tekur í þessu máli, jafnvel þó að ýmsir mundu líta svo á, að með því að ganga móti beiðni bæjarstjórnar Ísafjarðar að flytja þetta frv. sé hann að sjá þar um hagsmuni einstakra manna gegn hagsmunum bæjarfélagsins á Ísafirði. Ég vil ekki segja, að það sé svona, en það liggur ákaflega nærri, að það líti út fyrir, að málinu sé þannig háttað.

Hv. þm. N-Ísf. bar það aðallega fyrir sig, að ekkert bæjarfélag hefði slíka heimild sem þessa, og hefði þó staðið opið að leita hennar um margra ára skeið. Nú er það svo, að ég ætla, að Ísafjarðarkaupstaður hafi áður leitað eftir að fá heimild líka og þessa, og hafa verið borin fram frv. um það hér á þingi að veita bænum heimild, svipaða þessari, en þau frv. hafa ekki náð fram að ganga. Það er þess vegna ekkert einkennilegt við það, þó að falazt sé eftir sams konar heimild oftar en einu sinni, ef kaupstaðurinn teldi líklegt, að hann gæti haft einhverjar auknar tekjur af að fá slíka heimild.

Í öðru lagi virðast mér rök þau, sem hv. þm. hefur fyrir afstöðu sinni í þessu máli, vera nokkuð á reiki, þar sem hann var annað veifið að tala um, að óvíst sé, að hægt væri að hafa mikið upp úr þessu, en í hinu orðinu talaði hann um, að ekki mætti svipta þá menn, sem hefðu haft atvinnu af þessu, atvinnu sinni. Mér virðist þetta skjóta nokkuð skökku við, ef ekki má taka atvinnurekstur í hendur bæjarfélagsins, sem einstaklingar kynnu að tapa á, ef bæjarstjórnin á hinn bóginn skyldi telja, að væri hægt að koma atvinnurekstrinum þannig fyrir, að af honum gæti orðið nokkur ágóði fyrir bæinn. Þá virðist liggja í augum uppi, að þeim, sem yrðu losaðir við atvinnurekstur, sem þeir hefðu tapað á undanfarin ár, en bærinn teldi sér nokkra hagnaðarvon að, væri nokkur greiði ger jafnframt því, sem uppfyllt væri ósk bæjarfélagsins.

Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar, en ég vil aðeins benda á, að þar sem bæjarfélög hafa sums staðar notað sér ákvæði hafnarl. til þess að leggja visst gjald á afla þeirra skipa, sem leggja afla sinn þar á land, þá hefur Ísafjarðarkaupstaður ekki farið fram á að nota sér slíka heimild, þar sem hafnarn. taldi það vera misráðið. Hins vegar hefur bæjarstjórnin valið þá leið, sem stungið er upp á í þessu frv., og tel ég það fyrir mitt leyti mjög miklu heppilegra fyrir bæinn, því að ef bærinn á að geta veitt sjómönnum þá nauðsynlegu aðstöðu, sem hann þarf að veita sem útgerðarbær, þá veitir kaupstaðnum ekki af að fá mjög mikið auknar tekjur frá því, sem verið hefur.

Ég vil þess vegna óska þess, að hv. þm. N-Ísf. taki nú afstöðu sína til þessa máls til endurskoðunar milli umr. og fylgi frv. fram gegnum þingið.