03.03.1947
Neðri deild: 84. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (4302)

182. mál, út- og uppskipun á Ísafirði

Sigurður Bjarnason:

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að sér þætti leitt, að ég hefði ekki viljað framfylgja þeirri ósk, sem bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, flokksmenn mínir í bæjarstjórn, hefði sett fram, vil ég leyfa mér að segja, að ég hef að sjálfsögðu rætt þetta mál ýtarlega við bæjarstjóra og flokksmenn mína í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, og ég vil, að hv. þd. viti, að bæjarstjóra Ísafjarðar var þessi afgreiðsla málsins, sú afgreiðsla, sem það fékk í bæjarstjórn, alls ekki að skapi. Hann beitti sér fyrir því, fyrst þegar málið kom frá hafnarn., að því væri vísað til hafnarn. aftur til frekari athugunar. Þegar það kom enn á ný fyrir bæjarstj. eftir þá athugun, þá lagði bæjarstj. aftur á það áherzlu, að málið hefði ekki fengið nægilegan undirbúning, þann, sem nægði til þess, að þm. byggðarlaganna fyrir vestan yrði falið að flytja frv. um einkaheimild þá, sem hér ræðir um. Bæjarstj. beitti sér sem sagt gegn því, að þessi áskorun á þessu stigi málsins yrði send hv. þm. Ísaf. og öðrum þm., sem hún að lokum var send til. En varðandi afstóðu sjálfstæðismanna til þessa máls er það að segja, að þeir greiddu atkv. gegn þeirri till., sem samþ. var, eða sátu hjá af þeirri ástæðu, að þeim þótti málið ekki nægilega upplýst. Ég er þess vegna með minni afstöðu gersamlega í samræmi við óskir minna samstarfsmanna og flokksmanna í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar. Hins vegar er rétt, að það komi fram, að þessarar heimildar er óskað samkvæmt till., sem samþ. var af fulltrúum Alþfl. og Sósfl. í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar. Þetta vil ég láta koma fram í tilefni af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði.

En varðandi svo hitt, að ég sé hér að meta meir hagsmuni einstakra borgara á Ísafirði en hagsmuni bæjarfélagsins í heild, þá er það náttúrlega tiltölulega rúm túlkun á mínum orðum. Ég lagði á það megináherzlu í þeim orðum, sem ég sagði í upphafi, að ekkert lægi fyrir um það, hversu mikils hagnaðar væri að vænta af þessum atvinnurekstri. Ég benti einnig á, að það gæti verið hæpin leið að svipta menn fyrirvaralaust möguleikum um þennan atvinnurekstur. Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það hefur stundum komið fyrir í Ísafjarðarkaupstað, að meiri hluti bæjarstjórnar hefur eygt mikla tekjumöguleika af atvinnurekstri einstakra manna og hefur ekki látið við það sitja að afla sér þessara tekjumöguleika, heldur aflað sér möguleika til að njóta þeirra sjálfur. Ég get þar nefnt eitt dæmi, sem er mjög þekkt, en það er bæjarrekstur kvikmyndahúss á Ísafirði. Það var 1930, ef ég man rétt, sem kaupstaðurinn hóf rekstur kvikmyndahúss. Áður höfðu einstaklingar haft þann rekstur og hagnazt á honum, það vissu allir. Þeir höfðu byggt myndarlegt hús af sínum gróða og séð bæjarbúum fyrir sæmilegum kvikmyndum. Kaupstaðurinn ætlaði að græða á þessum atvinnurekstri, við skulum ekki lá honum það, við skulum segja, að það sé mannlegt og eðlilegt. Meiri hluti bæjarstjórnar, Alþfl., vildi nálgast þessa gróðamöguleika, þó að hann hafði þaðan allmiklar tekjur í útsvörum. Hver varð niðurstaðan þau 5 eða 6 ár, sem Ísafjarðarbær rak kvikmyndahús? Eitt árið komst hagnaður bæjarins af þessum rekstri í 5 þús. kr., öll hin árin varð hann undir þúsund krónum. Og síðasta árið, sem bærinn rak þetta fyrirtæki, þetta auðsæla fyrirtæki, hver haldið þið, að hagnaðurinn hafi verið þá? Það varð ekki hagnaður, það varð 600 kr. tap á kvikmyndahúsinu á Ísafirði síðasta árið, sem kaupstaðurinn rak það. Þannig fór með þennan mikla gróða, þessa miklu tekjulind, sem flokksmenn hv. þm. Ísaf. eygðu í bíórekstrinum í kjördæmi hv. þm. Ísaf. Niðurstaðan varð sú, að bærinn gafst upp á þessum rekstri, hætti við hann. Það má segja það til gamans, af því að það er farið að rabba um þetta á víðari grundvelli, að það var eitt einkenni talið vera á bíóinu, meðan það var rekið af bænum, og það var það, að þar hvorki heyrðist hljóð eða sást nokkur mynd. Þannig var bíóreksturinn meðan hann var í höndum flokksmanna hv. þm. Ísaf. Þetta varð til þess, að bæjarstjórn veitti öðrum aðila, verkalýðsfélaginu, heimild til 20 ára til að reka kvikmyndahúsið, og síðan hefur bærinn af þessu sáralitlar tekjur, hann fær ákveðinn hundraðshluta, 1945 mun hann hafa verið 16–17 þús. kr. Ég hef minnzt á þetta dæmi til þess að ítreka það, sem ég sagði í upphafi máls míns um það, að bæjarfélagið eygi verulega tekjumöguleika hjá einstaklingum og bærinn voni, að hann geti hagnazt af því sjálfur. Reynslan hefur a.m.k. orðið þessi.

Ég held, að ég hafi svo ekki á þessu stigi málsins fleira að segja um þetta. Ég vil gjarnan, að fram fari athugun á því í n., sem fær þetta mál til athugunar, hversu mikilla tekjumöguleika sé að vænta þarna, og vil ég leggja á það megináherzlu, og ég er fyllilega til viðtals við hv. þm. Ísaf., sem hefur mikinn áhuga fyrir framgangi þessa máls, hvernig beri að snúast við málinu að fengnum öllum upplýsingum um þetta mál. Ég endurtek þó það, sem ég sagði í upphafi, að ég er ekki reiðubúinn að segja, að það sé eðlilegt, að bærinn taki reksturinn, enda þótt vænta mætti nokkurs hagnaðar af þessum rekstri. Ég held yfirleitt, að það sé ekki rétt stefna, að það opinbera seilist eftir að taka í sínar hendur allan rekstur, sem arðvænlegur er, en láti einstaklingunum og félagssamtökum þeirra eftir að stunda þann atvinnurekstur, sem tiltölulega lítil arðsvon er af. Ég hygg, að það sé tiltölulega lítið skynsamleg stefna í þjóðfélaginu að skipta atvinnurekstrinum þannig milli einstaklinga og þess opinbera.

Ég vænti þá, að ég hafi gefið þær skýringar á afstöðu bæjarstjórans og sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Ísafjarðar, að það fari ekkert milli mála hér í d., hver afstaða þeirra er í þessu máli.