03.03.1947
Neðri deild: 84. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (4304)

182. mál, út- og uppskipun á Ísafirði

Sigurður Bjarnason:

Það eru aðeins örfá orð, herra forseti. Hv. þm. Ísaf. segir, að bréf bæjarstjóra taki af öll tvímæli um afstöðu hans í þessu máli og frekar beri á það að líta, sem skjallega sé staðfest, en það, sem bæjarstjóri kunni að hafa sagt við mig persónulega. Það er nokkuð til í þessu, en ég vil benda hv. þm. Ísaf. á, að að sjálfsögðu ber bæjarstjóra sem framkvæmdastjóra bæjarfélagsins og bæjarstj. að setja fram óskir og vilja meiri hl. bæjarstjórnar, enda þótt sá vilji sé gagnstæður vilja hans. Bæjarstjórinn á Ísafirði hlýtur, þegar hans bæjarstjórn hefur gert samþykkt um ákveðið mál, að framkvæma þær óskir, sem bæjarstjórn hefur falið honum að framkvæma með þeirri samþykkt sinni. Þess vegna er það, sem bæjarstjórinn segir við mig, fyllilega í samræmi við bréf hans, því að hann verður að framkvæma vilja meiri hl. bæjarstjórnar, þó að hann kunni að verða á móti málinu, þegar endanleg afstaða verður tekin í því. Þess vegna er ekki um neina ósamkvæmni að ræða hjá bæjarstjóranum, annars vegar í bréfi hans, þar sem hann fer þess á leit, að þm. kaupstaðarins beri málið fram, og hins vegar í ummælum hans við mig, þar sem hann lýsir yfir, að hann telji þetta mál ekki nægilega undirbúið til að krefjast einkaheimildar Ísafjarðarkaupstað til handa um þennan atvinnurekstur.

Það var aðallega þetta atriði, sem ég vildi drepa á í sambandi við það, sem hv. þm. Ísaf. sagði síðast. Viðvíkjandi hinu atriðinu, bíórekstrinum, sem kannske snertir ekki mikið þetta mál, þá sagði hv. þm., að verkalýðsfélagið hefði bætt úr þörf bæjarins fyrir samkomuhús, sem bærinn hefði ekki haft efni á að reisa. Þetta er ekki nema að hálfu leyti rétt. Hv. þm. er manna bezt kunnugt um, að fyrrv. kvikmyndahússeigendur, sem misstu kvikmyndahús sitt í bruna, óskuðu eftir að fá leyfi hjá byggingarnefnd og bæjarstjórn að byggja aftur fullkomið kvikmyndahús, en þeir fengu það ekki. Þannig stóð það í 5-6 ár, að ekkert samkomuhús var í bænum, sem heitið gæti. Bærinn flutti kvikmyndahús sitt í það eina íþróttahús, sem til var í bænum, þannig að æskan í skólum bæjarins varð að stunda líkamsæfingar í salthúsi eða þá engar líkamsæfingar. Það var ekkert samkomuhús í bænum, sem því nafni gæti nefnzt, í 5–6 ár, vegna þess að einstaklingar, sem reiðubúnir voru til að leggja fjármagn í þessar framkvæmdir, fengu það ekki. Þess vegna er þetta ekki rétt hjá hv. þm. Ísaf. Hins vegar fer því fjarri, að ég sé með þessum orðum að kasta steini að verkalýðsfélaginu. Það er vel að þessum tekjum komið. Það tók að vísu allmörg ár að koma upp kvikmyndahúsinu, og það varði hagnaðinum af kvikmyndarekstrinum í það. En ég vil skýra frá því, að hvorki ég né aðrir bæjarstjórnarfulltrúar á Ísafirði hafa fengið að vita um, hversu mikill hagnaðurinn sé árlega. Ég efast um, að hv. þm. Ísaf. viti sjálfur, hversu mikinn hagnað verkalýðsfélagið hefur af þessum atvinnurekstri. Ég er meðlimur í einu stéttarfélagi, sem stendur nokkuð að þessum rekstri. Við í sjómannafélagi Ísafjarðar höfum ekki fengið að sjá reikninga kvikmyndahússins og fullkomin skilríki fyrir, hver sé hagnaður stéttarfélagsins af þessum atvinnurekstri.

Ég vil að lokum geta þess, að ég ber fullkomið traust til meiri hl. bæjarstjórnar Ísafjarðar, þótt að honum standi tveir flokkar. Hitt veit ég vel, að minni hl. finnst það hart hlutskipti að vera minni hl. eftir að hafa verið svo lengi í meiri hl. En það er hlutskipti, sem menn verða að sætta sig við, og fer það eftir þroska mannanna, hvernig þeim tekst að sætta sig við það hlutskipti.