05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (4315)

187. mál, brunatryggingar á Akureyri

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. — Ég verð að segja það, að ég er undrandi yfir, að slíkt frv. skuli koma fram, og skal því fara nokkrum orðum um frv., þar sem hér er hætta á ferðum, ef þetta yrði samþ. Eins og hv. þm. vita, þá var eftir undirbúning fyrir 30 árum stofnað Brunabótafélag Íslands. Upprunalega náði félagið til nokkurra staða, en óx, og um langt skeið hefur verið skylda að tryggja þar allar fasteignir utan Reykjavíkur. Það hefur lækkað brunagjöld og gert meiri háttar framkvæmdir til að auka öryggi og minnka hættu á bruna. Ég sagði, að ég væri undrandi yfir framkomu slíks frv., og einkum frá Akureyri, því að ég álít, að Akureyrarbær þurfi sízt að kvarta undan viðskiptum við Brunabótafélag Íslands. Ég vildi benda á, að það er hættulegt fordæmi, ef einn bær rifi sig út úr allsherjar félagsskap landsmanna, því að ef það yrði, þá mundu fleiri koma á eftir, og væri þá rofinn þessi félagsskapur, sem er þjóðarheill. Ég sagði áðan, að Akureyri þyrfti ekki að kvarta, og ég trúi því ekki, að Akureyri gæti fengið betri kjör en hjá Brunabótafélagi Íslands. Samkv. skýrslu þar um námu fasteignaiðgjöld frá 1929–1945 994.265 kr., en brunatjón nam á sama tíma 943.456 kr. eða 94,85% af iðgjaldaupphæð. Rekstrarkostnaður var 271.649 kr. Beint tap Brunabótafélags Íslands á vátryggingum á Akureyri hefur því verið 220.840 kr. Ég verð að segja, að mér kemur það spánskt fyrir sjónir, að bæjarfélag haldi það slæm kjör, þegar reynslan sýnir, að tryggingafélagið hefur haft rúmlega 220 þús. kr. beint tap við hlutaðeigandi kaupstað. Húsavátryggingar á Akureyri njóta nú beztu kjara eða 20% afsláttar. Venjuleg iðgjöld af steinhúsum eru 2,25%0 og af timburhúsum 8%0. Á Akureyri eru iðgjöld af steinhúsum 1,8%0, eldvörðum timburhúsum 4,89'00 og timburhúsum 6,4%0. Meðaliðgjöld eru því 3,044%0. Það er ekki einungis að Brunabótafélag Íslands hefur veitt Akureyri lág iðgjöld sér til tjóns, heldur hefur það stutt bæinn með fjárframlögum og lánum til betri brunavörzlu. Brunabótafélag Íslands hefur útvegað Akureyri slökkvitæki auk brunabíls, og þetta gefur Brunabótafélag Íslands Akureyri kost á að greiða með iðgjöldum. Þar að auki hefur félagið ákveðið að lána Akureyrarbæ allt að 150.000 kr. til að greiða áður nefnda bifreið og byggja slökkvistöð. Því fer einnig víðsfjarri, að ábyrgðarlítið sé fyrir tryggingafélag gagnvart eldsvoða á Akureyri, einkum á Torfunefi og Oddeyri, þar sem mikið er þar af timburhúsum og brunahætta því mikil. Þegar þessar upplýsingar eru komnar fram, virðast mér auðsæ þrjú atriði, sem mæla því í gegn, að þetta frv. verði samþ. Í fyrsta lagi, að þá er rofin samhjálparkeðja Brunabótafélags Íslands, því að ef einn hlekkur bilar, þá koma fleiri á eftir, og er þá þessum þjóðnýta félagsskap hætt. Í öðru lagi eru engar líkur til, að Akureyri geti fengið hagkvæmari kjör en hjá Brunabótafélagi Íslands. Það er að minnsta kosti einkennilegt, ef önnur brunabótafélög vildu veita betri kjör. Og í þriðja lagi víl ég geta þess, að Brunabótafélag Íslands styrkir og styður Akureyrarbæ til að efla brunavarnir sínar og mun halda áfram að gera það. Og vel má vera, þegar stundir líða, að lækka megi iðgjöldin, þegar búið er að fullkomna brunatæki og öryggi. Það hefur Brunabótafélag Íslands sömu skilyrði til að gera og önnur félög. Allar endurtryggingar Brunabótafélags Íslands eru á innlendum höndum. Hér er því um að ræða innlent þjóðþrifafyrirtæki, og má sízt leggja stein í götu þess. Ég vildi mega ætla, að þegar hv. flm. hefur fengið þessar ýtarlegu upplýsingar og þegar n. hefur komið þeim til bæjarstjórnar, þá trúi ég ekki öðru en að hlutaðeigandi sjái, að hér er um misskilning að ræða að kljúfa sig þannig út úr þessum samtökum og bera fram þetta frv. Er því hyggilegast, að málið fari ekki lengra en það er komið.