05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (4317)

187. mál, brunatryggingar á Akureyri

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. — Það er aðeins athugasemd. Það er misskilningur að telja Reykjavík fordæmi um það, sem hér er farið fram á til handa Akureyri, því að Reykjavík hefur aldrei verið í Brunabótafélagi Íslands. En hins vegar eru allir kaupstaðir aðrir, kauptún og sveitarfélög í Brunabótafélagi Íslands. Það er þess vegna fordæmi, ef Akureyri brýzt út úr þessu kerfi. Orsökin til þess, að Reykjavík er utan við félagið, er sú, að meðan félagið var lítið, treystist það ekki að taka höfuðstaðinn í kerfið vegna fátæktar sinnar. Þá undraðist flm. mjög, að ég skyldi vera á móti því, að Akureyri færi úr brunabótafélaginu, þar sem ég hefði sagt, að hún ylli því tapi. En það er nú svo, þó að einhvers staðar sé tap, þá er nauðsynlegt að halda saman. Síðar hverfur tapið, og með auknum brunavörnum getur Akureyri staðið undir sér og jafnvel notið betri kjara með lækkuðum iðgjöldum.

Það má vel vera, að eitthvert einkabrunabótafélag, innlent eða erlent, vilji festa fót á Akureyri og keppa við okkar sameiginlega félag, jafnvel þó að það þurfi að gefa með starfsemi sinni fyrstu árin. En frá þjóðhagslegu sjónarmiði held ég, að ekki sé heppilegt að taka slíku boði, og álít betra að efla okkar eigið félag. Ég vona því, að Brunabótafélag Íslands dafni og að einstök bæjarfélög skerist ekki úr leik fyrir stundarhagnað, heldur haldi saman og stuðli að eflingu okkar innlenda félags.