20.03.1947
Neðri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (4325)

203. mál, þjóðhátíðardagur 17. júní og frídagur 1. maí

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé enga þörf á því að fara mörgum orðum um þetta mál til viðbótar þeirri stuttu grg., sem fylgir frv. Þetta mál, að gera 17. júní að almennum frídegi, er öllum auðskilið. 17. júní er nú þegar orðinn þjóðhátíðardagur í augum Íslendinga. Til þess að fullkomna það skortir aðeins lögfestinguna. Um það, að skylda bæjar- og sveitarfélög til þess að stofna til hátíðahalda þennan dag, er það að segja, að það er ekki mikið breytt frá því, sem verið hefur. Það hefur verið þannig, að bæjar- og sveitarstjórnir hafa stofnað til hátíðahalda þennan dag, og þar sem þær hafa ekki gert það, þá hafa ýmis félagasamtök komið í þeirra stað. Um 1. maí er það að segja, að sá dagur er nú þegar orðinn almennur hátíðisdagur verkamanna um allt land. Þetta hefur haft það í för með sér, að aðrar stéttir hafa farið á eftir með það að hafa sinn eigin frídag, eins og t.d. verzlunarmenn í Reykjavík og víðar. Þess er svo að gæta, að það hafa komið fram beinar áskoranir frá viðkomandi félagasamtökum um að gera 17. júní og 1. maí að almennum frídögum. Í.S.Í. hefur borið fram ákveðin tilmæli um, að 17. júní yrði gerður að þjóðhátíðardegi, og verkalýðssamtökin hafa borið fram tilmæli um, að 1. maí verði gerður að hátíðisdegi.

Ég vil svo óska þess, að frv. þetta nái samþykki hv. d. og því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.