12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (4347)

227. mál, kola- og saltverzlun ríkisins

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason.):

Herra forseti. Ég hef látið þessu frv. fylgja alllanga grg. og fer því aðeins örfáum orðum um það nú. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanfarið hefur oft verið skortur á kolum og salti og mikið skipulagsleysi um dreifingu þessara vara. Úti um land hefur skorturinn verið tilfinnanlegur, svo að erfitt hefur verið að nýta sjávarafla. Ekkert heildarskipulag er á þessum málum, hvorki um innkaup né dreifingu, enda í höndum einstaklinga, og hefur ríkið þar lítil skipti af. En fullyrða má, að heildarskipulagning fæst ekki á þessi mál nema með afskiptum ríkisvaldsins. Það má svo deila um, hve mikil afskipti ríkisins eigi að vera, t.d. hvort ríkið eigi að tryggja nægar birgðir án þess að þjóðnýta verzlunina, en bezt mun vera, að ríkið annaðist um kaupin, og mæla með því alveg sérstök atriði. Svo háttar, að ríkið hefur milligöngu um útvegun þessara vara. Í nokkur ár hefur hvorugt fengizt án milligöngu hins opinbera. Hins vegar hefur svo ríkið fengið einstökum mönnum vöruna til dreifingar, sem því miður hefur ekki farið sem bezt. Um það geta verið skiptar skoðanir, hvort ríkisverzlun sé æskileg eða ekki í sjálfu sér, en ég held, að um það blandist mönnum ekki hugur, að þær vörur, sem bezt séu fallnar til ríkisverzlunar, séu standard-vörur eins og kol og salt, þar sem innkaup eru gerð í mjög stórum stíl. Ég hygg, að reynslan hafi sýnt, að í ýmsum verstöðvum sé hvergi nærri séð fyrir þörfum útgerðarinnar, hvað snertir kol og salt, með núverandi fyrirkomulagi. Skortur hefur verið þar meiri en viðunandi sé. Þetta er að vísu engan veginn eingöngu að kenna slæmri dreifingu, því að erfitt hefur verið að fá þessar vörur. En fullyrða má, að þetta mætti bæta, en það verður ekki gert nema með heildarskipulagningu, þar sem ríkið annaðist bæði innkaup og dreifingu og hagaði innkaupum sínum þannig að kaupa sem mest í einu, svo að skipsrúm nýttist sem bezt, og dreifingunni svo, að þeim, sem nota vöruna, verði sem mestur hagur af.