04.05.1947
Neðri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (4362)

231. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Aðalefni þessa frv. er, að lagt er til, að I. um hafnarbótasjóð verði breytt þannig, að til þeirra staða, sem beðið hafa tjón á hafnarmannvirkjum sínum af óviðráðanlegum orsökum öðrum en venjulegri fyrningu, sé ríkisstj. heimilt að veita fé úr hafnarbútasjóði allt að kostnaðarverði nauðsynlegra endurbóta. Ennfremur er hér gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilt að veita þeim stöðum, sem ekki hafa fjárhagslega getu til þess að byggja nauðsynleg hafnarmannvirki, styrk úr hafnarbótasjóði til þessara framkvæmda.

L. um hafnarbótasjóð voru fyrst sett árið 1943. Þá var í þeim svo ákveðið, að ekki mætti veita fé úr sjóðnum fyrr en Alþ. hefði sett nánari reglur um það. Síðan var árið 1945 4. gr. þessara l. breytt þannig, að ríkisstj. var heimilað að gera ráðstafanir til þess að flýta fyrir aðkallandi hafnarbótum á stöðum, þar sem hafizt hefur verið handa um hafnarframkvæmdir, með því að leggja fram úr hafnarbótasjóði viðbótarframlag, jafnóðum og verkinu miðar áfram, þó aldrei hærra en svo, að framlagið í heild nemi þeirri hlutfallsupphæð af verkkostnaði, er hafnarlög staðarins ákveða. Þessi framlög úr hafnarbótasjóði mega þó aldrei nema hærri fjárhæð en 2/3 höfuðstóls sjóðsins. Og framlög, sem þannig eru greidd úr hafnarbótasjóði, skulu endurgreidd honum úr ríkissjóði á næstu þremur árum. — Sem sagt, eins og 4. gr. laga þessara var þarna ákveðin, mátti verja fé úr sjóðnum, þó ekki þannig, að um raunverulegt lán væri að ræða. Þetta var framkvæmt þannig, að fé hafnarbótasjóðs hefur verið notað til hafnarframkvæmda eins og .segir í 4. gr. samkv. þessari breyt. frá 1945.

Þegar l. um hafnarbótasjóð voru upprunalega sett, var það tilgangur þeirra, sem að þeirri lagasetningu stóðu, að meginhlutverk sjóðsins ætti ekki að vera lánastarfsemi, heldur fyrst og fremst að styrkja þá staði, sem örðugast ættu um vik til þess að ráðast í nauðsynlegar hafnarframkvæmdir og ekki hefðu fjárhagslegt bolmagn til þess. Það hefur hins vegar ekki orðið af því enn þá, að reglur væru nákvæmar um þetta settar. En þetta vakti fyrir flm. þessa frv.

Ég hef haft samráð við hæstv. samgmrh. um flutning þessa máls, og hann féllst á, að eðlilegt væri, að þessi breyt. væri gerð á l., að ekki aðeins þeir staðir, sem ekki hefðu fjárhagslegt bolmagn í þessu efni, fengju fé úr sjóðnum, heldur að einnig þeir, sem hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum, ættu að fá fé úr þessum sjóði.

Þetta er einfalt mál. Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar viðtökur. Og það er mjög nauðsynlegt að fá það afgr. á þessu þingi. Þess vegna vildi ég mælast til þess við hv. sjútvn., sem fær væntanlega þetta mál til meðferðar, að hún geri sér far um að afgreiða það sem allra fyrst til hv. þd. aftur. — Ég leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.