02.05.1947
Neðri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (4378)

232. mál, brunamál

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur flutt þetta frv. eftir beiðni hins háa félmrn., og hafa einstakir nm. óbundið atkv. um einstök atriði þess.

Frv. þetta er að mestu leyti samræming á þeim l., sem nú gilda um brunamál á hinum einstöku stöðum. Eins og nú standa sakir, eru sérstök l. til um slökkvilið á Ísafirði, Seyðisfirði, Akureyri, Hafnarfirði, l. um skipun sótara í kaupstöðum öðrum en Reykjavík, l. um brunamál, l. um brunamál í Reykjavík o.s.frv. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., eru þessi l. samræmd og breytt nokkuð, eftir því sem talið er, að nauðsynlegt sé vegna þeirrar framþróunar, sem orðið hefur í byggingarmálum kaupstaða hér á landi, síðan þessi l. voru sett, en þau elztu þeirra eru frá 1883.

Trúnaðarmaður Brunabótafélags Íslands eða verkfræðilegur ráðunautur þess um brunamál, en það er vegamálastjóri, hefur aðallega staðið fyrir samning þessa frv., og þar sem hér er um að ræða samræmingu á eldri l. og tilfærslu á þeim í einn lagabálk, vildi ég mælast til þess, að frv. yrði vísað til 2. umr. og teldi rétt, að allshn. taki frv. til nánari athugunar milli 2. og 3. umr.