16.10.1946
Efri deild: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (4386)

6. mál, vegalagabreyting

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 6 borið fram nokkrar breyt. við núgildandi vegalög frá 1933. Breyt. eru við l. gr. B. í l. nr. 37 1943, að á þeim verði gerðar eftirfarandi breyt.:

1. Gufudalsvegur, liðurinn orðist þannig: Af Vesturlandsvegi í Þorskafirði að Firði í Múlahreppi. Eins og l. eru, hefur verið tekinn upp í þjóðvegatölu vegurinn að Gufudal, og þegar hafizt handa um lagningu þessa vegar frá Gufudal og vestur eftir, því að allir, sem athugað hafa þau mál, eru sammála um, að yfir Gufudalsháls verði ekki farið til frambúðar og aldrei með bifreiðar, enda er sá vegur í fjallvegatölu. Er því nauðsynlegt að fá veginn út fyrir Skálanes, ef halda á áfram vegagerð vestur um Barðastrandarsýslu, og tengja þannig saman Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu með vegakerfi. Vestan við Gufudalsháls er blómleg byggð, Kollafjörðurinn, og hafa bændur þar nú brotizt í því á þessu ári að fá þangað búvinnsluvélar, svo sem traktora og aðrar vélar í sambandi við jarðyrkju, en hafa ekki getað komið þeim yfir hálsinn og ekki heldur sjóleiðis. Hafa bændur því lagt mjög mikið fé í að ryðja svo veginn kringum nesið, að hægt sé að brölta með þessar vélar yfir í Kollafjörðinn. Þetta er svo þungur skattur á þessum mönnum, að þeim er ógerlegt að rísa undir því einir að framkvæma þá vegagerð, sem hér er nauðsynleg. Ég tel þess vegna réttlátt og sjálfsagt, að þessi vegur verði tekinn í þjóðvegatölu, og þá ekki sízt vegna þess, að þetta er á þeirri póstleið milli Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu, sem nú er farin einu sinni í viku að sumrinu og einu sinni í hálfum mánuði að vetrinum. Póstleiðin breytist þannig nú, að pósturinn er látinn fara alla leið að Firði í Múlahreppi, en ekki yfir Þingmannaheiði. Þess vegna hef ég lagt til, að þessi leið sérstaklega verði tekin í þjóðvegatölu. Ég vil í sambandi við þetta upplýsa það, að á þessu ári hefur Landssími Íslands lagt til þó nokkurt fé í það að leggja síma á hvern bæ í Kollafirði, sem þá verður skoðað sem tákn þess, að þessi byggð eigi ekki að leggjast í eyði, enda er hér um framúrskarandi góðar fjárjarðir að ræða. Hygg ég, að það mundi mæta stórkostlegum mótmælum, ef gerðar yrðu sérstakar ráðstafanir til þess, að þar verði ekki byggð, ekki hvað sízt, þar sem Austur-Barðastrandarsýsla er að verða uppeldisstöð fyrir fjárstofna annarra sýslna í landinu, sbr. Þingeyjarsýslu og aðrar sýslur, sem hafa orðið hart úti af mæðiveikinni. En til þess að hægt sé að halda þessari byggð við, verður að uppfylla það frumskilyrði, að þetta hérað búi við sömu aðstöðu í vegasamgöngum eins og lægst eru gerðar kröfur um í öðrum héruðum, þ.e. að hægt sé að koma inn í þau hestvögnum eða litlum bifreiðum, eins og jeppabifreiðum, og að sjálfsögðu vélum, sem nauðsynlegastar eru til að bæta aðstöðuna við landbúnaðinn, svo sem sláttuvélum og traktorum. Ég vil því vænta þess, að hv. þm. taki vel á þessu máli og samþykki þessa breyt., sem ég hef hér rætt um.

Næsta breyt. er einnig við B-lið, að tekinn verði upp nýr vegur í þjóðvegatölu, nefnilega Suðurfjarðavegur frá Bíldudal um Suðurfirði á Barðastrandarveg.

Nú þegar er tekinn í þjóðvegatölu Barðastrandarvegur frá Brjánslæk að Patreksfirði, og eins hefur verið tekinn í þjóðvegatölu vegur frá Patreksfirði um Tálknafjörð til Bíldudals. Nú hafa framkvæmdir við vegina frá „Hálfdáni“ verið stöðvaðar og öllu því fé, sem til hans átti að renna eftir l., verið varið til þess að ljúka við veginn frá þessum Bíldudalsvegi út að Sveinseyri í Tálknafirði til þess að koma Patreksfirði í vegarsamband við Sveinseyri.

Á Sveinseyri er að rísa upp frystihús, og er því sanngjarnt að láta þetta fé ganga til þess að ljúka þessum vegaframkvæmdum, og hefur orðið um það samkomulag milli aðila heima fyrir. En samtímis hefur því einnig skotið upp, hvort ekki væri rétt að fresta um sinn vegagerðinni við „Hálfdán“ og tengja veginn frá Bíldudal við aðalvegakerfið, þannig að fara með hann frá Bíldudal inn með Suðurfjörðum á Barðastrandarveg. Ef Bíldudal er ætlað að hafa sitt vegasamband við aðalvegakerfi landsins um Brjánslæk, annaðhvort með bílferju yfir Breiðafjörð eða með vegarsambandi milli sýslnanna, Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslna, og enginn annar vegur er lagður um Bíldudal en vegurinn frá Patreksfirði, þá er Bíldudalur þannig settur, að það verður að fara yfir þrjár heiðar, sumar mjög erfiðar og háar (500 m), til þess að komast í samband við Barðastrandarveginn. Það er vitanlegt, að við þetta verður ekki unað í framtíðinni. Þess vegna hefur það komið til mála að hefjast þegar handa um að leggja veginn eins og bezt mætti fara og á þann hátt að fara beint frá Bíldudal inn með Suðurfjörðum og þannig inn á Barðastrandarveginn.

Ég vil benda hv. samgmn. á það, að þetta mál var hér til umr. á síðasta aðalþingi, og hefur vegamálastjóri gefið umsögn um þetta atriði og talið það mjög til athugunar að fresta vegagerðinni um „Hálfdán“ og taka upp þá vegagerð, sem hér er farið fram á. En þetta er önnur hlið málsins. Hin hliðin og sú, sem er bráðaðkallandi, er sú, að Bíldudalur er einangraður frá sinni eigin sveit og frá þeim bændum, sem framleiða mjólk fyrir þorpið, vegna vegleysna, svo að ógerlegt er að koma nokkrum hestvagni — hvað þá öðrum farartækjum — á milli Bíldudals og annarra jarða í sama hreppi. Afleiðingin er sú, að á Bíldudal er sífelld mjólkurþurrð, og nú er mjólkin þar komin upp í kr. 2,16 lítrinn, og mun það vera hæsta mjólkurverð, sem þekkist á landinu. Þrátt fyrir þetta telja bændur sig ekki geta haldið áfram mjólkurbúskap og munu leggja áherzlu á sauðfjárrækt, því að erfiðleikar eru svo miklir að koma þessum afurðum á markaðinn. Ég tel þetta meginatriði málsins og að það þoli enga bið, að úr þessu verði bætt með því að taka þennan veg inn í þjóðvegatölu. Þessi vegur er nú í sýsluvegatölu, en sýslusjóður er þarna svo fátækur, að hann hefur ekki megnað að leggja fram tvö s.l. ár nokkurt framlag í þennan veg, vegna þess að hann hefur orðið að leggja fram fé á móti ríkissjóði til þess að byggja brúna yfir ána, sem liggur þarna skammt frá. Ef ekki kemur önnur aðstoð til greina en tillag úr sýsluvegasjóði og ríkissjóði, þá líða áreiðanlega tugir ára, þar til þetta kemst í framkvæmd, og ég teldi það sama og að fella þann dóm yfir þessari sveit, að hún verði að leggja niður atvinnuvegina, og þorpið geti ekki lifað sem sjálfstætt þorp vegna mjólkurskorts, eins og þegar er komið á daginn.

3. till. er um það að taka Rauðasandsveg frá Ósum við Patreksfjörð um Hvalsker að Lambavatni í þjóðvegatölu. Það má segja það sama um þetta og um Bíldudal, að Patreksfjörður er í rauninni í mjólkurhungri. Það mun enginn staður finnast á landinu með 900 íbúa, sem hefur ekki fengið nema 39 þús. lítra mjólkur á s.l. ári, en við þá mjólkurþurrð varð Patreksfjörður að búa á s.l. ári, og flutningar eru svo örðugir þarna, að það hefur kostað upp undir 50 aura á l. að koma mjólkinni á staðinn. Við þessi kjör er ekki búandi. Þessi mjólk er mest komin úr Örlygshöfn, flutt yfir á bátum, og bændur hafa tekið á sig svo þunga skatta, að þeir byggðu á s.l. sumri bryggju, sem kostar um 30 þús. kr., og er kostnaðurinn svo verulegur, að ekki er sjáanlegt, að þessir aðilar geti staðið undir þessu í framtíðinni. Hins vegar eru blómleg héruð til mjólkurframleiðslu í Rauðasandshreppi, svo að hægt væri að hafa þar hundrað kúa, ef sköpuð væru skilyrði til þess að selja afurðirnar. Það hefur verið lagður vegur, ef veg skyldi kalla, milli Hvalskers og Saurbæjar á Rauðasandi, og hefur ríkissjóður lagt fram fé undanfarin ár til þess að endurbæta þennan veg, þó að vegamálastjóri hafi tekið sér það einræðisvald að láta ekki vinna fyrir þetta fé, bæði á þessu sumri og undanfarin sumur. Mun ég ræða það sérstaklega síðar. En enn þá vantar að koma vegarsambandi á um héraðið, sem liggur milli Hvalskers og Ósa í Patreksfirði. Nú er bílvegur kominn inn að Ósum frá Patreksfirði, en eftir er að opna leiðina frá Ósum út að Hvalskeri. Þetta er nú sýsluvegur, en hreppurinn hefur engin tök á því að standa undir öllum kostnaðinum, sem það hefur í för með sér að leggja bílveg þennan kafla leiðarinnar. Ég tel því nauðsyn bera til þess, að þessir vegir verði teknir í þjóðvegatölu þegar á þessu þingi og það svo snemma, að hægt verði að ætla ákveðið fé til vegagerðar á þessum svæðum. Ég tel, að þessu atriði megi ekki fresta. Ég bar þetta fram á síðasta aðalþ., og var það þá látið daga uppi. Ég fullyrði, að þetta sé svo aðkallandi mál, að hv. samgmn. megi ekki skella skolleyrunum við því. Ég vil benda á það, að hér kom í fyrra til Alþ. skjal frá öllum íbúum hreppsins í sambandi við þetta mál, og tel ég sjálfsagt, að það verði afhent hv. samgmn., og mun hún þá sjá, hversu menn heima fyrir líta á þetta atriði og hversu það er aðkallandi. Ég hef talið rétt, ef þessi vegur verður tekinn í þjóðvegatölu, að hann verði tekinn alla leið að Lambavatni, en vegleysa er frá Saurbæ að Lambavatni, og gæti þá farið saman að nokkru leyti skurðgröftur og vegargerð yfir þetta svæði, þar sem liggur við borð að rækta þetta land, enda ógerningur annað en að láta þessar jarðir koma í vegasamband jafnframt því, sem samband opnast við Patreksfjörð.

Þá er síðasti- liðurinn á þessu skjali, þ.e., að Látravegur komi frá Hvalskeri um Sauðlauksdal og Örlygshöfn að Látrum. Ég tel sjálfsagt, úr því sem komið er, að setja Sauðlauksdal sérstaklega í vegarsamband. Það er hugsað að láta koma upp barnaskóla — heimavistarskóla — að Sauðlauksdal, og hafa Rauðsendingar lagt á sig þungar byrðar til þess að þessi skóli komist upp, og veit ég það síðast um þetta mál, að það er aðeins eftir að ákveða, hvar skólinn verður settur niður; en það mun vera fengið nokkurn veginn samkomulag um Sauðlauksdal, og er því allt annað ósæmandi en að gera eitthvað fyrir þann stað, eftir því sem þar er aðstaða til. Hins vegar hafa Rauðsendingar einnig lagt á sig þungar kvaðir til þess að koma á vegarsambandi milli Látravíkur og Örlygshafnar, sumpart til þess að geta aukið mjólkurmagnið, sem flyzt úr Örlygshöfn, með því að fá mjólk frá Breiðavík, Látravík og Kollsvík, en sumpart til þess að geta komið sjávarafurðum þessa leið með bílum yfir til Patreksfjarðar, þegar ekki er hægt að lenda á þessum víkum. Þessir menn, sem hafa lagt fram ekki minna en 6–10 þús. kr. á ári í þessar framkvæmdir, eru nú að kikna undir þessum byrðum. Þessir vegir eru nú í fjallvegatölu, og hefur vegamálastjóri sýnt þessum mönnum samúð og reynt að verja úr ríkissjóði af fjallvegafé svo miklu sem hann hefur séð sér fært, gegn jafnmiklu framlagi annars staðar að. Ber því brýna nauðsyn til að taka þessa vegi í þjóðvegatölu, til þess að koma þessu í framkvæmd sem fyrst annars vegar og hins vegar til þess að létta undir byrðarnar hjá þessum mönnum, sem hljóta að kikna undir þeim á skömmum tíma.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta atriði. Ég vænti þess, að hv. samgmn. taki þessi atriði nákvæmlega til athugunar og leggist ekki á þetta mál eins og á síðasta aðalþingi, heldur látið málið koma til afgreiðslu hér í d., svo að séð verði, hvort fyrir því er þingvilji eða ekki. Ég legg svo til, að málið fari til hv. samgmn.