27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (4393)

86. mál, landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Flm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 136 og er flutt af þm. Seyðf. (LJóh), 1. þm. N–M. (PZ) og mér, er að mestu leyti samhljóða frv., sem flutt var í Nd. á síðasta þingi, en fékk ekki fullnaðarafgreiðslu þar. Því var vísað til sjútvn., og hún afgreiddi það með rökst. dagskrá, þar sem óskað var frekari undirbúnings.

Það eru ekki mörg ár síðan skipuð var n., sem átti að koma: með till. um það, hvernig bezt væri hægt að koma fyrir sjávarútvegi okkar, og til þeirrar n. má rekja margar till. T.d. voru á síðasta. þingi samþ. svo kölluð hafnalög, þar. sem. ákveðið var, að á 35 stóðum skyldi kostnaður greiddur að hlutum og ríkissjóður skyldi ábyrgjast að 3/5 hlutum, og einnig 68 staðir, þar sem ríkissjóður skyldi ábyrgjast að helmingi og kosta hafnargerð að hálfu. En svo kom ein hugmynd frá þessari n., og það er hugmyndin um landshafnir, sem skyldu sérstaklega teknar út úr með l. Þessar hafnir skyldi landið taka að sér að reka. Á síðasta þingi voru samþ. l. um Njarðvík og Keflavík, en n, hafði líka bent á fleiri staði, þar á meðal Höfn í Hornafirði, sem þetta frv. fjallar um. Þess má geta, að þegar talað var um landshafnir í Njarðvíkum og Keflavík, var ekki búið að ákveða þá geysimiklu stækkun á bátaflota landsmanna, sem nú hefur verið ákveðin, en sú stækkun rekur eftir því, að ríkið taki að sér þessi hafnarmannvirki, til þess að hinn aukni bátafloti fái aðstöðu til þess að stunda fiskveiðar.

Það eru nú milli 25 og 30 ár síðan vélbátaútvegur byrjaði fyrir alvöru í Hornafirði, þegar Þórhallur Daníelsson hóf að byggja verbúðir fyrir báta úr öðrum verstöðvum, og það leið ekki á löngu, áður en sjómenn af Austfjörðum byrjuðu að stunda sjóróðra þaðan og bátarnir urðu milli 30–40, fyrst smábátar, eins og bátar okkar voru þá, en svo varð þarna mikil verstöð, og hefur verið svo síðan, en nú er að draga úr sjósókn þaðan af ástæðum, sem ég kem að síðar. Því verður ekki neitað, að fiskimiðin þarna eru með þeim beztu hér við land. Veiðisvæðið stórt og stutt á fiskimiðin. Á síðustu árum hafa bátar ekki verið mjög margir, en aflamagnið hefur verið mjög mikið, sérstaklega má benda á, að á síðasta ári, þegar ekki voru nema einir 15 litlir bátar, sem voru að meðaltali ekki nema 18 tonn að stærð, aflaðist fiskur, sem nam að fob-verði 2,26 millj. kr. og hefur numið að ísfiskverði um 8 millj. kr. Það er auðséð, að sá floti, sem þaðan stundar fiskveiðar, færir þjóðarbúinu miklar tekjur, sem nauðsynlegt er, að notaðar séu. Í sambandi við það vil ég benda á mikilsvert atriði. Það hefur mikið borið á því á Hornafirði, að lifrarhlutur sjómanna væri rýr. Sjómenn voru að vonum óánægðir með þetta, og það varð til þess, að fenginn var maður til Hornafjarðar til þess að gera lýsisrannsóknir, og rannsóknir hans báru með sér, að lýsið úr fiski á Hornafjarðarmiðum er mun auðugra af vítamínum en af Vestmannaeyjamiðum og í Faxaflóa. Niðurstaðan var, að lifrin væri vítamínauðugust í Hornafirði. Þetta fullyrðir dr. Þórður Þorbjarnarson, að sé af því, að í Hornafirði safnast mikið af gömlum fiski og stórum. Að vísu fullyrðir hann ekki, að lifrin sé meira virði, en hann fullyrðir það, að á Hornafjarðarmiðum sé meira af fullorðnum fiski, en ungfiskurinn sé á Vestmannaeyjamiðum og í Faxaflóa. Þetta er mikilvægt atriði, þegar það kemur til athugunar, hvar bátaflotinn skuli afla. Annað atriði er það, sem ég vildi sérstaklega benda á, en það er sú mikla fækkun, sem orðið hefur á bátaflotanum á Hornafirði og var sérstaklega í fyrra. Þetta stafar af því, að á Hornafirði geta ekki stundað veiðar nema smábátar, og er ekki útlit fyrir annað en að útvegurinn minnki þarna stórkostlega, sem hlýtur að vera til tjóns fyrir þjóðarheildina, og þá vildi ég koma að því, sem nauðsynlegast er á Hornafirði, til þess að útvegurinn geti haldizt þar.

Þeir, sem ókunnugir eru, halda, að það sé fyrst og fremst innsiglingin, sem stendur í vegi fyrir vélbátaútveginum. Þetta er að vísu rétt, en það veldur þó ekki mestu erfiðleikunum. Það, sem mestum erfiðleikum veldur, eru grynningar fyrir framan kauptúnið. Það er þetta tvennt, sem þarf að færa í lag. Það er svo, að fyrir framan kaupstaðinn er stórt svæði mikið til umgirt eyjum. Þetta svæði þarf að grafa upp, og með því að grafa það upp fæst viðbótar-viðlegupláss fyrir marga báta. Þriðja mannvirkið, sem sennilega þarf að gera, er hafnargarður út í stóra eyju, Ósland, sem liggur fyrir utan, til þess að koma í veg fyrir, að Hornafjarðarfljót renni þar yfir. Fyrir nokkrum árum var búið að gera allmiklar rannsóknir og margháttaðar áætlanir um hafnargerð á þessum stað. Í sumar kom vitamálastjóri austur, og nú hefur verið þar á ferð maður frá vitamálaskrifstofunni, en sá maður er annaðhvort nýlega kominn til Reykjavíkur aftur eða hann er ekki kominn, en vitamálastjóri mun láta gera nýjan uppdrátt af höfninni og þeim plönum, sem hann telur, að þurfi að gera, þegar búið er að ganga frá því á grundvelli þeirra rannsókna, sem starfsmaður vitamálaskrifstofunnar hefur verið að framkvæma undanfarið.“

Þá kem ég að öðrum þætti í þessu frv., og það er 4.–6. gr., sem fjalla um fiskiðjuver, sem ríkið láti reisa á þessum stað. Þarna, eins og annars staðar, hefur aðeins verið um saltfisk að ræða fram að síðasta stríði, en síðan hefur fiskurinn verið fluttur út ísvarinn. Nú munu allir vera sammála um, að þessar fiskverkunaraðferðir muni ekki vera til frambúðar, og flestir eru sammála um, að um hraðfrystingu og niðursuðu verði að ræða og ef til vill eitthvað fleira. Þess vegna er það, að ef ríkið leggur í stórar framkvæmdir hafnarmannvirkja á þessum stað, verður að tryggja það, að sjómenn fái sem mest fyrir fisk sinn, og þá fyrst koma hafnarmannvirkin að gagni, því að þá reyna bátaeigendur að sækja á stað, þar sem slík mannvirki eru fyrir hendi. Þess vegna er það álit kunnugra, að það sé eins nauðsynlegt að koma upp fiskiðjuverinu eins og að koma upp hafnarmannvirkjunum, en til þess að þau komi að gagni, þar. að vera til stöð, svo að hægt sé að nota allt. en ekki eins og nú, þar sem bara eru notuð flökin. Það þarf að vera hægt að vinna úr þunnildunum og hausunum, auk þess sem til þarf að vera beinamjölsverksmiðja. Stundum getur þurft að salta, þegar svo mikið berst að, að ekki er hægt að taka við öllu.

Það, sem sérstaklega mælir með því að gera þessi hafnarmannvirki á Hornafirði, er það, að það er ekki hægt að hafa þar stærri báta og koma í veg fyrir, að útgerð fari minnkandi. Notkun hafnarinnar og vélbátafjöldinn mundi aukast til stórra muna. Það mundi skapast lengri útgerðartími fyrir vélbátana og þar að auki aðstaða fyrir báta, sem liggja úti til fiskveiða, til þess að flytja afla sinn til fiskiðjuversins, sem þar væri og gæti fengið fisk allmikinn tíma úr sumrinu líka. Þá vil ég enn fremur benda á, að það er önnur ástæða til þess, að við leggjum svo mikið kapp á, að ríkið taki þetta að sér. Ef um stærri bæi er að ræða, sem hafa möguleika til þess að ráðast í þessar framkvæmdir, þá væri ekki svo nauðsynlegt að gera þetta á kostnað ríkisins. Þarna er lítið kauptún og hefur ákaflega litla möguleika til þess að ráðast í þessar framkvæmdir, og ekki sízt, þar sem á þessum stað eins og öðrum liggja fyrir mjög fjárfrekar framkvæmdir. Hreppsbúar eru að undirbúa að leggja rafveitu um kauptúnið, sem nauðsynleg er, m.a. vegna útgerðarinnar. Skortur er á vatnsleiðslu um kauptúnið, og er verið að byrja á henni. Þetta fyrirtæki er líka nauðsynlegt vegna útgerðarinnar. Einnig vantar skólprennsli og fleira, og þetta er fyrirtæki, sem hreppurinn verður að leggja í á næstu árum, og er því ógerlegt, að hreppurinn geti lagt í svo fjárfrekar framkvæmdir sem bæði hafnargerðin og fiskiðjuverið eru. Að ríkið taki þetta að sér, er eina tryggingin fyrir því, að þetta verði gert fljótt, og hugmyndin er, að landshöfninni verði komið upp á eins stuttum tíma og hægt er, en að það taki ekki eins langan tíma og víðast vill verða, þannig að það líði mörg ár, þangað til mannvirkin komast í það lag, að þau verði að fullum notum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira að svo stöddu, en legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.