23.05.1947
Efri deild: 144. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (4405)

86. mál, landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég skal verða við ósk hæstv. forseta, að tala ekki langt mál um þetta frv., þó að það sé þess eðlis, að full ástæða sé til þess, að það hefði fengið eðlilega afgreiðslu og verið rætt, en til þess að málið fái nú afgreiðslu, þá get ég látið nægja að vísa til nál. á þskj. 812. Meiri hl. hefur lagt til, að málinu yrði vísað frá með rökst. dagskrá. Ég vil í sambandi við hana taka fram, að ekki er ástæða til að vísa málinu frá, ekki þeim hluta þess, sem lýtur að hafnarbótum, því að meginundirbúningurinn undir þær hefur þegar farið fram. Á síðasta aðalþingi var málinu vísað með rökst. dagskrá til stjórnarinnar, til þess að hún léti fara fram rannsókn á þessum málum. Sú rannsókn hefur nú farið fram, og liggur fyrir áætlun vitamálaskrifstofunnar um hana, sem birt er sem fskj. með nál. mínu. Þetta atriði liggur því ljóst fyrir og skapar grundvöll til að taka afstöðu til málsins. Ég vil geta þess, að l. um hafnarbætur, sem meiri hl. n. vísar til, leysa þetta mál engan veginn. Hér er um fámennt hreppsfélag að ræða, en höfnin hefur geysimikla þýðingu fyrir allt Austurland. Þess vegna er eðlilegt, að ríkið standi að þessu og standi undir framkvæmdum. Þetta álít ég fullkomin rök fyrir því, að málið nái fram að ganga, hvað snertir byggingu landshafnarinnar, en um hinn hlutann vísa ég til nál.