13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (4422)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Reykv., hélt fram, að þessi l. væru afar vinsæl hjá bændum. Nú geri ég ráð fyrir því, að hann muni sem landbrh., sem hann var, þegar þessi l. voru sett, hafa kynnt sér það, sem búnaðarsamband Mýra og Borgarfjarðar sagði um þetta mál, það sem búnaðarsamband Dala og Snæfellsness sagði um þetta mál, það sem búnaðarsamband Vestfjarða sagði um þetta mál, það sem búnaðarsamband Strandasýslu sagði um þetta mál, það sem aðalfundur búnaðarsambands Húnvetninga samþ. um þetta mál, það sem aðalfundur búnaðarsambands Skagfirðinga samþ. um þetta mál, það sem aðalfundur búnaðarsambands Eyjafjarðar samþ. um þetta mál, það sem aðalfundur búnaðarsambands Þingeyinga samþ. um þetta mál, það sem aðalfundur búnaðarsambands Austf jarða samþ. um þetta mál, það sem aðalfundur búnaðarsambands Suðurlands samþ. um þetta mál og það, sem aðalfundur búnaðarsambands Kjalarnessþings samþ. um þetta mál. Tvö af þessum samböndum, þau síðast töldu, mæltu með, að frv. yrði að l., hin öll á móti. Þessi gögn voru lögð fram á lestrarsal á síðasta þingi, og hv. þm. getur séð þau í skjalasafni Alþingis. Þá var haldinn fyrsti fundur stéttarsambands bænda. Það komu fulltrúar bænda, tveir úr hverri sýslu, ýmsir honum nákomnir, á þessa fundi, og þeir hafa samþ. mótmæli mót lögunum. Mér sýnist því vilji bænda allur annar, en hvað hann kallar vilja bænda, skal ég láta ósagt.

Hv. þm. telur, að alþingiskosningarnar hafi ekki snúizt um annað en þetta mál. Þegar ég sem kjósandi þarf að greiða atkv. einhverjum við alþingiskosningar, þarf ég að taka samnefnara allra þeirra mála, sem fyrir liggja, og kjósa þann, sem næst er mínum skoðunum. Ég hef aldrei kosið til Alþingis um eitt einstakt mál. En þegar kosið er um eitt einasta mál, þá kemur fram vilji manna um það. Hann kemur fram í samþykki í sambandi við eitt mál, en ekki þegar kosið er til Alþingis, því að þá verða menn að taka tillit til margra mála. Þetta er því sú mesta fjarstæða, sem hægt er að segja, að halda þessu fram, sem hv. þm. gerir.

Hv. þm. segir, að það hafi engin l. mælzt eins vel fyrir og þessi og bændur fái sjálfir féð, það fari til búnaðarsambandanna og þau ráðstafi því. En hvernig er þessu nú hagað? Hann getur líka svarað því sem fyrrv. landbrh. Eftir l. nr. 38 15. febr. 1945 á að taka 1/2% gjald af söluvörum landbúnaðarins. Þetta er borgað af þeim, sem vöruna selja. Svo segir, að fé sjóðsins skuli um næstu 10 ár skipt milli búnaðarsambanda landsins í réttu hlutfalli við það, sem framlög reynast úr viðkomandi héruðum, og skuli samböndin verja þessu fé til jarðræktar og annarra félagslegra framkvæmda á sambandssvæðinu, eftir því sem aðalfundur ákveður á hverjum tíma. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm.: Hvað hefur hann gert til þess, að allar afurðir bænda í Skeggjastaðahreppi, sem lagðar eru inn á Þórshöfn og greitt 1/2% af í sjóð Þingeyinga, renni til Búnaðarsambands Austfjarða, eins og það á að gera eftir gr., sem ég las upp? Lagði hann fyrir þá, sem keyptu þessar vörur, að taka skýrslu um, hvaðan þær komu? Gerði hann nokkuð til þess að sjá um, að þetta gjald færi til þeirra, sem greiða það, eins og l. mæla fyrir? Hefur hann lagt fyrir kaupmenn í Rvík, sem kaupa nautakjöt svo að segja af öllu landinu, svo sem Austfjörðum og Norðurlandi, — að taka skýrslu um, hvað mikið kæmi úr hverjum stað? Hvert rennur það gjald, sem er borgað af því? Hann getur svarað því sem ráðh. Búnaðarsamböndin tvö, sem mæltu með þessum l., eru þannig sett, að þau fá á þennan hátt gjald bænda á öðrum svæðum, sérstaklega Kjalarnessvæðið, og það má vera, að þau hafi verið með því, af því að þau héldu, að með því móti gætu þau náð til sín einhverjum tekjum frá bændum á öðrum svæðum. Hér er því gloppa í l., en hv. þm. gerði sem ráðh. ekkert til að fyrirbyggja þetta. Hvað er gert til að fyrirbyggja, að gjald af sláturfé, sem rekið er til Akureyrar úr Skagafirði, renni til Skagfirðinga, en ekki Eyfirðinga? Hvað hefur hann gert til þess? Ekki hreyft litla fingurinn. Þó var honum á þetta bent, þegar l. voru til umr. Ég held, að mestur hlutinn af ræðu hv. 2. þm. Árn. eigi að skoðast í þessu ljósi, þar sem verið er að reyna að draga sér gjald, sem aðrir borga, til Búnaðarsambands Suðurlands. Það er það, sem verið er að gera. Þess vegna er verið að halda þessu við. Hæstv. fyrrv. ráðh. reyndi ekki til að laga þetta með reglugerð, svo að gjaldið rynni til réttra aðila. Það var ekkert sett um það í l., og þess vegna hafa engar slíkar ráðstafanir verið gerðar. L. eru því eins ranglát og mest má vera, þar sem engin trygging er fyrir, að þetta gjald renni í sjóð þeirra svæða, sem mennirnir, sem framleiða vöruna, eru búsettir á. Verzlunarsvæði manna eru víðs vegar um land allt önnur en búnaðarsambandssvæðin. Þess vegna er alveg nauðsynlegt, hvað sem öðru líður, að breyta l. og koma með ákvæði, sem tryggja, að þetta ranglæti haldi ekki áfram, en svo ákveðin var Nd. í að halda þessu, að hún vildi ekki ræða málið við aðra umr., heldur vísaði málinu frá með rökst. dagskrá strax, en gerði ekki tilraun til að laga þetta ranglæti, sem er í lögunum.

Nú er lagt til, að þessum sjóði verði skipt í tvo jafna parta, annar fari til stéttarsambandsins, en hinum verði skipt milli búnaðarsambandanna, og það er ætlazt til, að þetta ranglæti, sem nú er, geti horfið með aðgerðum búnaðarþings og einnig að farið verði eftir því, hvað mikil þörfin er á hverjum stað, því að það er öllum ljóst, að ekki má eingöngu miða við framleiðsluna og hvað margir bændur eru í héraðinu, heldur verður að taka tillit til margra hluta. Það eru 4 ólík sjónarmið látin koma til greina við ákvörðun á skiptingu þess fjár, sem búnaðarþing skiptir árlega, og ég geri ráð fyrir, að eitthvað svipað yrði, þegar farið yrði að skipta þessu fé, því að sízt af öllu má láta það ráða skiptingunni, hve mikil framleiðslan er á hverjum stað, því að þar er venjulega minnst þörfin fyrir umbætur þær, sem þessum sjóði er ætlað að styðja. Það orkar því ekki tvímælis, að með þessu móti yrði skiptingin miklu réttlátari en eins og hún er nú.

Hv. 1. þm. Reykv. (PM) dró í efa, hvort meira gagn yrði að þeim helmingi sjóðsins, sem ætti að renna til stéttarsambands bænda, heldur en ef hann rynni til búnaðarsambandanna, og vildi, að haldið yrði áfram hinni ranglátu skiptingu, sem nú er. Um það má að vísu deila og færa rök fyrir bæði með og móti, hvort geri meira gagn, en ég tel þó, að féð komi að meira gagni, ef það heyrir undir stéttarsambandið, heldur en búnaðarsamböndin, sérstaklega þegar skiptingin er eins ranglát og hún nú er.

Sú skoðun er ríkjandi hjá mörgum, að hver einstaklingur, og þá líka einstakir hlutar heildarinnar, eigi að standa út af fyrir sig og taka ekkert á sig af því, er við kemur öðrum hlutum heildarinnar, eins og það er gamalt sjónarmið að vera ekki náunganum hjálplegur, en ef sú hugsun hefði ráðið, þá hefði þetta gjald aldrei átt að koma. Þetta sjónarmið er kannske ríkjandi hjá hv. l.þm. Reykv., en ég vona þó, að það sé ekki svo ríkt í huga hans, að hann geti ekki hugsað sér bændur sem sameinaða heild og að bændur greiði þetta gjald hver eftir sinni getu og að féð renni til bænda á hinum ýmsu svæðum landsins, eftir því sem þörfin er mest fyrir það.

Ég get tekið undir það, að það er ekki rétt að líta á þetta mál sem neitt tilfinningamál. Fyrir mér er þetta fyrst og fremst almennt réttlætismál og félagsmál, því að fá l. eru eins ranglát og l. um búnaðarmálasjóð, þar sem tekin eru gjöld af mönnum og þeim úthlutað — eins og nú er — til þeirra, sem minnsta hafa þörfina fyrir féð, og sú skipan, sem nú er viðhöfð samkvæmt l., stuðlar aðeins að því að breikka enn meir bilið milli þeirra héraða landsins, sem mest eru aftur úr og þurfa því mest á fénu að halda, og hinna, sem framar standa. En það má líka vel vera, að hv. 1. þm. Reykv. sé farinn að feta í fótspor þeirra manna, sem vinna að því, að vissar sveitir landsins fari í eyði, en að fólkið þyrpist á einhverja ákveðna staði. Þetta er gert með l. eins og þau eru nú, en reynt að fyrirbyggja það með frv.