14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (4432)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki þreyta hæstv. forseta með löngu máli, en síðasta ræða hv. þm. Str. gaf tilefni til mótmæla. Þegar hv. þm. Dal. spurði mig, hvort ég vildi vera meðflm. þessa frv., þá kvað ég mig fúsan til þess af eftirtöldum ástæðum. fyrsta lagi hef ég áður í þessari d. verið stuðningsmaður þessa máls, og hefur afstaða mín ekki breytzt. Í öðru lagi fékk málið þá meðferð í Nd, sem ekki var æskileg og tæpast sæmandi, enda voru fyrir hendi samkomulagsmöguleikar, ef málinu hefði verið vísað til nefndar. Á grundvelli þess samkomulags er svo málið flutt hér. Eftir að ég hafði gerzt meðflm., þá spurði hv. þm. Dal., hvort mér væri nokkuð á móti skapi, að hv. þm. Str. yrði og meðflm. Kvað ég nei við því, þar eð ég bjóst við, að heilindi fylgdu frá hv. þm. Str. En síðan frv. kom til umr., hefur þessi hv. þm. spillt stórlega fyrir framgangi þess, og hafa öll orð hans hér í d. miðað í þá átt. Þetta hefur hann gert vitandi vits. Hann endaði síðustu ræðu með stórfelldum ásökunum á síðustu stjórn, sem að nokkru leyti verða og árásir á núv. stjórn, sem maður skyldi þó ætla, að hann styddi, þar sem flokkur hans á tvo ráðh. í stjórninni. Hann hélt því fram, að síðasta stjórn hefði hrökklazt frá fyrir fjárhagslegt sukk. En hvaða ráðstafanir hafa flokksmenn hv. þm. Str. gert síðan þeir komu í stjórn? Hafa þeir gert ráðstafanir gegn dýrtíð og eyðslu? Nei, þeir hafa hvorugt gert. Þeir hafa ekki reynt að ráðast á sukkið, sem hann taldi vera. Heldur hafa þeir flokksmenn hans beinlínis viljað undirstrika þau l., er þeir töldu valda sukkinu. Svo heldur hv. þm. vandlætingarræðu yfir fyrrv. stj. og hefur hér eldhúsumr. um fjármálaástandið, og það í þessu máli, sem nú átti að leysa með samkomulagi. Öll ummæli hv. þm. Str. um fjárhagsástandið eru röng, svo röng, að þeim verður að mótmæla, þar sem þau koma frá manni, sem enn þá hangir við formennsku í flokki, sem hefur nú 2 ráðherra í stjórn.