07.02.1947
Efri deild: 66. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (4450)

160. mál, vatnsveita Reykjavíkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í samráði við bæjarráð Reykjavíkur, og efni þess er, að heimilt verði fyrir Reykjavíkurbæ að leggja á jafnháan vatnsskatt hér í bænum eins og heimilað er fyrir aðra staði nú samkv. vatnalögunum. Vatnsskattur í Reykjavík hefur verið töluvert lægri en víðast annars staðar á landinu fram að þessu. En nú er unnið að viðbótarlagningu við vatnsveitu bæjarins, og með því er vatnsmagnið aukið svo mikið, að það verður tvöfalt meira en áður, og hefur slíkt auðvitað óhjákvæmilega mikinn kostnað í för með sér — auk þess sem sífelldur vöxtur bæjarins gerir það að verkum, að miklu fé þarf árlega að verja til aukningar á vatnsveitunni. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að afla vatnsveitunni nýrra tekna, og þess vegna er þetta frv. flutt. Og er þá ekki með frv. ætlazt til, að vatnsskatturinn verði hærri en hin almenna heimild leyfir.

Benda má og á það, að í 2. gr. er lagt til, að heimild verði gefin bæjarstjórninni til að loka fyrir vatnsæðar hjá þeim, sem greiða ekki vatnsskatt eða annað endurgjald fyrir vatnið, og eru þau ákvæði í samræmi við það, sem tíðkast um rafmagn, síma, heitt vatn o.fl., sem sýnist vera eðlilegt til að greiða fyrir innheimtunni.

Að öðru leyti vísa ég til grg., sem fylgir þessu frv., og legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.