22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (4457)

160. mál, vatnsveita Reykjavíkur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — Ég tók eftir því, að hæstv. dómsmrh, lagði á það mikla áherslu, að það væri mikið nauðsynjamál fyrir Reykjavíkurbæ að koma frv. um breyt. á l. um vatnsveitu fyrir Reykjavík gegnum þingið. Hins vegar tók ég ekki eftir því, að hæstv. ráðh. legði eins mikla áherzlu á það, að það væri eins mikið nauðsynjamál fyrir sveitarfélögin og bæjarfélögin úti um land, að frv. um styrk til vatnsveitna fengist gegnum þingið. Nú var búið að afgreiða það frv. þannig, að þessi mál væru leyst, bæði hvað snertir Reykjavíkurbæ og allt landið. Þess vegna lýsti n. því yfir, að hún legði fyrst og fremst áherzlu á að fá það frv. gegnum þingið, en ekki tvenns konar löggjöf um sama efni. Samgmn. lagði mikið kapp á að leysa málið í einu lagi í því trausti, að ríkisstj. mundi knýja það fram fyrir Reykjavíkurbæ og landið allt, því að Alþ. er ekki fyrir Reykjavík eina, heldur fyrir gervallt landið, og það vona ég, að hæstv. ríkisstj. líði ekki úr minni, þó að hæstv. dómsmrh.fyrrv. borgarstjóri Reykjavíkur. Vil ég mega treysta því, að hæstv. ráðh. leggi alefli sitt til þess, að þetta mál verði leyst og verði samþ. — ekki aðeins fyrir vatnsveitu Reykjavíkurbæjar, heldur fyrir allt landið.