22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (4462)

160. mál, vatnsveita Reykjavíkur

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vildi benda hæstv. utanrrh. á, að ágreiningur er um þetta mál, eins og tekið hefur verið fram. Og ég vil eindregið ráðleggja honum að knýja ekki fram atkvgr., því að þá gæti svo farið á þessu stigi málsins, að frv. yrði fellt. Hitt málið er komið lengra. Það er í n., og mér er sagt, að málið hafi verið stöðvað af hæstv. ríkisstj. eða mönnum innan hæstv. ríkisstj. Þess vegna finnst mér, ef ráðh. hefur áhuga fyrir, að þetta mál verði leyst á þann hátt, sem við í raun og veru erum sammála um, að heppilegastur sé, þ.e. að frv. nái fram að ganga, þá ætti hann að beina allri sinni miklu orku að því innan ríkisstj., að málið yrði tekið fyrir í Nd. og afgr. einhvern veginn, þannig að í ljós kæmi, hvort þingfylgi er fyrir því eða ekki. Nái það fram að ganga á Alþ., er málið, þegar leyst, en verði það fellt, mun ekki verða nein andstaða á móti því, a.m.k. ekki frá n., að þetta mál nái fram að ganga. Það er ekki nema ein umr. eftir í Nd. Ég álít því langheppilegast fyrir ráðh. að fara að ráðum meiri hl. n. og að málið verði nú tekið af dagskrá. Ráðh. hefur sjálfsagt í fullu tré við meðráðh. sína, að ekki verði komið í veg fyrir, að hitt málið verði tekið fyrir í Nd. á morgun og úr því skorið, hvort það hefur nægilegt fylgi þar.