23.05.1947
Efri deild: 143. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (4479)

160. mál, vatnsveita Reykjavíkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Það, sem gefur mér tilefni til að segja nokkur orð um þetta mál, eru ummæli, sem féllu. frá hv. 1. þm. Reykv. í nótt sem leið. Hann hélt því fram hér, að við þrír, sem höfum starfað í n., hefðum gert hrossakaup. Ýmislegt hefur verið sagt um störf mín hér á. Alþ. af andstæðingum mínum, en aldrei hefur mér verið borið á brýn, að ég hafi gert hrossakaup um nokkurt mál. Því sárara er mér þetta að fá það frá jafngrandvörum manni og 1. þm. Reykv. er. Leyfi ég mér algerlega að mótmæla þeirri ásökun. Það var fullt samkomulag við hæstv. dómsmrh. að halda þessu máli, þar til hitt málið hefði náð fram að ganga.

Málið er eingöngu svo komið sem er fyrir stífni og ósanngirni ráðh. út af þessu og hinu, en hann hefur fengið nægilega hirtingu fyrir framkomu sína með neitun á afbrigðunum, og vænti ég, að hann læri af þessu í þeirri stöðu, sem ég hef stutt hann og mun styðja hann í í von um betri hegðun. En ég hygg, að borgarstjóri hafi átt talsverða sök á, hvernig fór með málið í Nd. Það er komin brtt. um þetta mál, og það mun ekki hafa verið sótt neitt lint af honum að fá einmitt inn það, sem hefur valdið deilunum, og hafa þeir báðir, bæði fyrrv. og núv. borgarstjóri, stuðlað að því, að málið er komið í öngþveiti. Í sambandi við það, sem ráðh. sagði, að við hefðum beitt valdi okkar í n., ekki sízt ég, sem hann hélt, að væri form., þá vil ég benda á, að tvö undanfarin ár hélt hann máli fyrir mér, sanngirnismáli, í allshn. og beitti formannsvaldi til að drepa það og viðurkenndi, að þannig færi hann að, þegar hann hefði ekki möguleika til að drepa það öðruvísi. Þriðja skipti, sem það kom fyrir, var því haldið í n. svo lengi sem hann átti þar sæti. Fyrst þegar hann fór úr n., komst þetta réttlætismál í d. og úr þinginu. Svo leyfir þessi ráðh. sér að brigzla mönnum um það, sem þeir hafa ekki gert, eins og að tefja mál af ásettu ráði. Þegar frv. var tekið til umr. í n., var mjög mikill ágreiningur um málið sjálft, m.a. lýsti þm. Seyðf. því yfir, að hann gæti ekki fylgt frv. óbreyttu. Hann taldi m.a. að það væri raunar ósanngjarnt að hækka vatnsgjaldið svo mikið sem gert er, það væri raunar beint brot á loforði, sem hefur verið gefið um, að það skyldi verða tekið tillit til þess í vatnsskattinum, þegar heita vatnið hefði komið í bæinn, enda er það vitanlegt, að svo og svo mikill hluti af vatninu er keyptur alveg sérstaklega. Allir nm. féllust ekki á þessu skoðun, en það er rétt að láta það koma fram, að þetta mál kom inn, án þess að gefið væri út nál. Hins vegar er því ekki að leyna, að heilbr.- og félmn. á ekki sök á ástandi vatnsveitunnar í Reykjavík, eins og gefið var í skyn í nótt. Það er sannarlega eðlilegt, að sjálfur dómsmrh., sem hefur verið borgarstjóri, veit, að það þarf ekki reglugerð til að skrúfa fyrir vatnið í Reykjavík. né sérstök lög. Mér er líka vel kunnugt um átök milli mín og ráðh. um hagsmunamál bæjarins, svo sem höfnina, er hann hefur unnið gegn. Einnig hafa framkvæmdir þurrkvíanna. stöðvazt fyrir hans tilverknað. Þessa andúð sína hefur hann ekki þorað að viðurkenna opinberlega, en hefur sjálfur „saboterað“ ár eftir ár og mánuð eftir mánuð, er það mál kom á dagskrá, og svæft það svo kirfilega, að engum hefur dottið í hug að reyna að koma með till. um þetta mannvirki. Hann getur svo sjálfur skýrt, hvað á bak við hefur legið. Hann veit það sjálfsagt bezt.

En úr því að ráðh. óskar eftir umr. um málið og hefur sagt, að ég hafi sýnt fjandskap í því, þá er bezt að fá upplýsingar um, hver sýndi málinu þann fjandskap, sem hann talaði um í nótt, og hver á sök á þessum drætti. Ég mun ekki ræða þetta nánar, nema tilefni verði til, en mun að sjálfsögðu fylgja málinu úr d., úr því sem komið er.