18.02.1947
Efri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., er komið til þessarar hv. d. frá hv. Nd. Þar var það lagt fram af mþn., sem starfað hafði í málinu og skipuð var af fyrrverandi hæstv. ríkisstj. því er ætlað að breyta mörgum l., eins og fram kemur í frv. sjálfu, þar sem numin eru úr gildi með 48. gr. frv. ýmis l., allt frá árinu 1931 og frá ýmsum árum síðar. En eins og frv. er í núverandi formi þess, er því sérstaklega ætlað að breyta tvennum l. frá 1941. Annars vegar l. um girðingar vegna sauðfjársjúkdóma og hins vegar l. um varnir gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma.

Um þetta frv. almennt, eins og það nú kemur til okkar hér, þá tel ég sjálfur — segi það ekki fyrir hönd n. —, að í því sé í raun og veru ákaflega lítið til umbóta frá eldri l. Það eina, sem ég tel, að sé til umbóta í þessu frv. frá eldri l., er 41. gr. þess. Eldri l. gerðu ráð fyrir, að bændur gætu á ákveðnum svæðum, þar sem þeir vildu, samþ. að láta fram fara fjárskipti, og þá var ríkisstj. og Alþ. skyldað til að koma þar á móti. eftir vissum reglum, sem l. settu, og láta fjárskiptin fara fram. Nú eftir þessu frv. er þetta haft heilsteyptara, en áður var, að því leyti, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að þar sem fengjust stofnuð fjárskiptafélög, er þeim skapaður nokkur rammi, sem ekki er til í eldri l. Auk þess er í 41. gr. frv. gert ráð fyrir því, að ef ekki koma fram fjárskiptafélög á þeim svæðum, sem sauðfjársjúkdómanefnd telur nauðsynlegt að framkvæma fjárskipti á, vegna þess að það séu sýkt svæði af fjárpestum eða þannig grunuð svæði, þá geti sauðfjársjúkdómanefnd látið fjárskipti fara fram þar engu að síður með samþykki landbrh., og er þetta til bóta frá því, sem verið hefur, ef um almenn fjárskipti verður að ræða í framtíðinni. En undanfarið hafa þau verið framkvæmd með meira og minna fálmi. Þetta tel ég til verulegra bóta, eftir að hæstv. Alþ. er búið að taka þá stefnu að styðja yfirleitt að því, að fjárskipti verði framkvæmd.

Eftir þennan inngang skal ég snúa mér að brtt. n. sjálfrar. Þær eru 16 talsins. en margar þeirra meira orðabreyt. en efnisbreyt. og engar þeirra verulegar efnisbreyt. Og ég hygg, að fáar þeirra geti valdið ágreiningi.

Brtt. þessar eru á þskj. 407. og er 1. brtt. við 8. gr. Girðingar verða í tveimur flokkum eftir frv., aðalgirðingar og aukagirðingar. Nú leggur n. til í brtt. þessari, að breytt verði nokkuð efni 8. gr. frv., þannig að í 8. gr. er gert ráð fyrir því, að girðingar á aðalvarnarlínum skuli lagðar á kostnað ríkissjóðs, en viðhald þeirra og eftirlit beri hlutaðeigandi fjárskiptafélögum eða sýslufélögum að annast, en ríkissjóði að kosta — en þessu vill n. breyta og ákveða, að girðingar á aðalvarnarlínum skuli lagðar og þeim við haldið, hvort tveggja á kostnað ríkissjóðs, án þess að fjárskiptafélög eða sýslufélög séu þar neinn milliliður um viðhaldið. Þetta þykir n. eðlilegra, þar sem ríkissjóður á hvort sem er einnig að bera kostnaðinn af þessu viðhaldi eftir ákvæðum frv. Okkur í m. finnst algerlega óþarft að setja þarna inn þennan millilið. Meiri hl. n. álítur, að ef þessi milliliður væri þarna settur inn, þá mundi það verða til þess bæði að gera verkið dýrara og gæti jafnvel orðið líka til þess, að verkið yrði verr framkvæmt. Við viljum þess vegna láta sauðfjársjúkdómanefnd fyrir hönd ríkissjóðs sjá um greiðslu á þessu viðhaldi, annast það, en ekki láta koma millilið, sem annast það og sendir svo alla reikninga fyrir þetta viðhald til nefndarinnar eða ríkissjóðs.

2. brtt. landbn., við 9. gr., er sú, að viðhaldið á aukavarnarlínunum verði kostað af ríkissjóði, en ekki af fjárskiptafélögum, eins og þó er gert ráð fyrir í frv. Þó að það láti undarlega í eyrum, þá hefur reynslan verið sú, að þar, sem héruðin hafa átt að sjá um viðhaldið á girðingum, sem settar hafa verið upp til þess að fyrirbyggja, að fé sýkist í þessum héruðum frá fé hinum megin við girðingarnar, þá hefur viðhaldið á þessum aukalínum verið meira og minna vanrækt. Þess vegna er það, að eftir þessari reynslu, þá sjáum við okkur ekki annað fært í landbn. en að, leggja til, að ríkissjóður sjái um viðhaldið á aukavarnarlínugirðingunum. Og í staðinn fyrir það, að nú er ætlazt til þess, að ríkissjóður kosti viðhaldið á aðallinunum, en viðkomandi svæði á aukalínunum, þá viljum við í landbn., að viðhaldið á öllum varólinunum, hverri sem er í þessu efni. sjái ríkissjóður um. Þessi efnisbreyt. felst í 1. brtt. við 8. gr. og fyrri brtt. við 9. gr., og breyt. á 9. gr. samkv. fyrri brtt. við hana er því ekki nema orðabreyt., eftir að búið væri að samþykkja breyt. á 8. gr.

Þá er gert ráð fyrir því í brtt. við 9. gr. frv., að þeir varðmenn, sem kunna að verða settir til eftirlits með aukalínunum eða aðallínunum, séu ævinlega tilnefndir af þeim mönnum, sem eiga land að girðingunum og hafa ósýkt fé. Það er gert ráð fyrir, að þar sé áhuginn meiri fyrir því að sjá um, að þessi varzla sé góð. Þess vegna viljum við tryggja, að varðmenn við þessar línur verði alltaf kosnir af þeim, sem heilbrigða féð hafa, en ekki hinum, sem hafa sjúka féð. Þetta er líka í samræmi við það, sem fram hefur komið við reynsluna. Báðar þessar brtt., sem við höfum gert við frv., hafa verið bornar undir Sæmund Friðriksson, framkvæmdarstjóra sauðfjársjúkdóman., og þær eru í samræmi við óskir hans. Og um brtt. yfirleitt er það að segja. að sumar þeirra eru fluttar fyrir hans atbeina og allar með hans samþykki.

Við 13. gr. frv. er ein brtt. um að skjóta þar inn einu orði til skýringar. Það stendur í 13. gr. frv., að bæta skuli fé, sem slátrað er af því, að kindur sæki þráfaldlega á að komast í gegnum varnarlínur, þannig, að eigandi fái fullt niðurlagsverð fyrir. Nú er raunverulegt niðurlagsverð á fé ekki til, nema því sé slátrað að haustinu. Þess vegna er í brtt. n. lagt til. að á eftir orðunum „fái fullt niðurlagsverð“ komi í þessari gr. milli sviga haustverð. Þannig að ef þarf að drepa á að vorinu vegna ásóknar í gegnum varnarlinu, þá væri bótafé miðað við það verð, sem eigandinn gæti fengið fyrir hana að haustinu, ef henni væri slátrað þá.

Þá höfum við lagt til, að í sömu gr. bætist inn, að þar sem landbrh. er heimilað að gera vissar framkvæmdir eftir gr., þá geri hann það að fengnum till. sauðfjársjúkdómanefndar. Við gerum ráð fyrir. að sú n. hafi þann kunnugleika, sem till. hennar byggjast á, að rétt sé, að landbrh. fái hennar till. um þetta. Þetta er nánast til þess að gera l. skýrari, því að ég býst við, að það hafi alltaf verið ætlazt til þess, að þetta væri framkvæmt þannig.

Þá er næst 20. gr., sem við gerum till. til breyt. á. Það er nú svo komið, eins og maður reyndar strax gat búizt við, að einn af þessum sauðfjársjúkdómum, sem um er að ræða í þessum l., getur líka komið fram í nautgripum. Það er að vísu ekki enn upplýst um nema fimm tilfelli á landinu, þar sem sannað er, að sú tegund garnaveiki, sem verið hefur hér á landi í sauðfé, hafi borizt í nautgripi og sýkt þá. En grunur er um, að fleiri nautgripir hafi sýkzt af þessari veiki hér á landi. Þessu gat maður búizt við, því að þó að um annan stofn af sýklum sé að ræða, sem orsaka garnaveiki í sauðfé, en þann, sem orsakar venjulega þann sjúkdóm í nautgripum, þá var vitað, að þessi stofn, sem sýkir sauðféð, gat líka lifað í nautgripum. En til þess þarf hann að berast í nautgripina mjög unga, helzt kálfa, eða þegar þeir eru sérstaklega veilir fyrir, t.d. hafa garnakvef eða sár í görnum. Undir slíkum kringumstæðum, þegar þannig er einhver veila hjá nautgripum, getur þessi tegund sýklanna líka smitað og sýkt kýr, þótt fullorðnar séu. Þess vegna má ekki gleyma nautgripunum, þegar þessi l. eru samin. En það hefur blessuð mþn. gert, hún gleymdi kúnum. —

Breyt. á 20. gr. eru heldur ekki aðrar en þær, að við viljum bæta inn ákvæði um nautgripina. Við gerum ráð fyrir, að það meir en geti komið fyrir, að það þurfi að rannsaka, hvort veikin er útbreidd í nautgripum, alveg eins og í sauðfé. Og nú á næstunni mun Guðmundur Gíslason læknir fara á vegum sauðfjársjúkdómanefndar austur á land til þess að rannsaka útbreiðslu veikinnar í nautgripum. — Þessi brtt. frá n. er ekki önnur en sú, að ákvæði hennar, ef samþ. verður, skyldar eigendur nautgripa til að gera viðkomandi hreppstjóra tafarlaust aðvart, ef grunsamleg veiki kemur upp í gripum þeirra, alveg eins og gildir um það, samkv. 20. gr. frv., ef sauðfjáreigendur verða varir við grunsamlega veiki í sauðfé sínu.

Brtt. við 22. gr., sem n. flytur undir tölul. 5, er ekki önnur en sú, að við gerum ráð fyrir, að eins og sauðfjáreigendur geta gert kröfu um, að sauðfé, sýkt eða grunað af garnaveiki, sé rannsakað, þá geti eins eigendur nautgripa krafizt þess, að ef gripir þeirra eru sýktir af garnaveiki eða grunur er um það, þá verði það rannsakað.

Brtt. við 23. gr. eru í áframhaldi af þessu. Þær miða allar að því að breyta gr. svo, að hún geti átt bæði við sauðfé og nautgripi. Þarf í raun og veru ekki frekar um hana að tala. Þó skal ég taka fram viðkomandi c-lið þessarar brtt., að við leggjum til, að 2. málsl. síðari málsgr. 23. gr. frv. verði orðaður alveg um, þannig að í stað hans komi tveir málsliðir, og sé sá síðari til að skilgreina það, að bætur fyrir nautgripi skuli greiða eftir gangverði í þeirri sveit. En landbn. áleit, að ekki gæti gilt það sama orðalag um bætur fyrir nautgripi í þessu efni eins og um bætur fyrir sauðfé, þ.e. miða við niðurlagsverð á haustdegi, því að það niðurlagsverð á nautgripum er í raun og veru ekki til.

7. tölul. brtt. n. er lítils háttar brtt. við 24. gr. frv., sem nánast er leiðrétting á prentvillu, þannig að í frv. er „að“ á einum stað, sem á að vera: og.

Við 25. gr. frv. höfum við gert till. til breyt., þar sem nú er í frv. ákveðið, að þegar fjárskiptasvæði myndast innan einhvers girðingasvæðis, þá skuli þrír fulltrúar frá hverjum hreppi, sem hlut eiga að máli, mæta á fundi, sem þarna er talað um í 25. gr. frv., sem ætla að taka ákvörðun um fjárskipti. Nú er svo sums staðar, að sauðfjárveikivarnagirðingar kljúfa hreppa. Og þó gætu eftir frv. óbreyttu, ef samþ. væri. komið þrír fulltrúar á slíkan fund úr hreppi, sem aðeins að nokkru leyti væri innan girðingarinnar. Þegar svo stendur á, að aðeins einhver hluti úr hreppi er innan fjárskiptasvæðis, leggjum við til í brtt. okkar, að úr þeim hreppi mæti á slíkum fundi fulltrúar í hlutfalli við tölu fjáreigenda í hreppshlutanum.

Brtt. við 28. gr. frv. eru fjórar. Í fyrsta lagi um það, að hreppsnefnd á að búa til þá kjörskrá, sem þar um ræðir, en í frv. nú er enginn stafur um það, hvernig hún á að vera búin til. Þar eru bara ákvæði um það, hverjir eigi að vera á henni, en ekkert um það, hverjir eigi að búa hana til. — Enn fremur er því skotið inn í með brtt. okkar, að leiðréttingu megi fá á kjörskrá með kæru, ef hún komi til hreppsnefndar fyrir kjördag. Það voru engin ákvæði um þetta áður, hvort kjörskrána mætti leiðrétta eða hvernig ætti að fara að því. Okkur fannst rétt, að hreppsnefnd mætti leiðrétta kjörskrána allt að þeim degi, sem á að nota hana. Hér settum við ekki inn neitt um það, að viðkomandi gæti skotið máli sínu til neinnar yfirkjörstjórnar eða kjörnefndar eða neins annars, og kann ef til vill einhverjum að þykja varasamt að láta vanta ákvæði um slíkt. En við í landbn. teljum, að í flestum tilfellum mundi ekki til slíks ágreinings koma, sem þessir aðilar gætu ekki jafnað sín á milli. En ef einhverjum þætti þurfa að ákveða nánar um þetta, mætti vitanlega taka það til greina. — Þá er það til tekið í frv., að atkvgr. skuli vera leynileg og framkvæmd á sama hátt og á sér stað við óhlutbundnar kosningar til hreppsnefndar. En þetta er vitanlega ekki hægt að framkvæma þannig. Við kosningar til hreppsnefndar við óhlutbundnar kosningar liggur kjörskrá frammi hjá kjörstjórn, og kosning fer þannig fram, að skrifuð eru númer þeirra, sem á að kjósa. En þegar menn eiga að segja aðeins já eða nei við einhverri spurningu, eins og hér mundi eiga sér stað viðkomandi fjárskiptum, þá er ekki hægt að láta atkvgr. fara fram eins og þegar kosið er til hreppsnefndar, því að við atkvgr. um fjárskipti er skrifað aðeins já eða nei á seðlana. — Það var talað við Sæmund Friðriksson, framkvæmdastjóra sauðfjársjúkdómanefndar, um það, hvort ekki þætti nauðsynlegt að útbýta seðlum og láta það vera sams konar seðla, sem útbýtt væri yfir allt svæðið, þar sem greiða ætti atkv. um fjárskipti. Þetta taldi hann n. hafa gert, þar sem atkv. hafa verið greidd um fjárskipti. og hann taldi, að hún mundi gera það, þótt ekkert stæði um það í l. Eftir þessar undirtektir hans sá n. ekki ástæðu til að setja inn í l., að sauðfjársjúkdóman. skyldi útbýta seðlum, þó er það til athugunar.

Síðasta brtt. við þessa gr. er um það, að með þeim kjörgögnum, sem send eru frá atkvgr. til sauðfjársjúkdóman., eigi kjörskrá að fylgja. Eftir reynslunni. t.d. við kosninguna um stéttarfélagsskap bænda á s.l. ári. virðist þörf á því að setja þetta inn í l., því að það var aðeins frá fáum hreppum, sem kjörskrá fylgdi, og þess vegna var ómögulegt að átta sig á, hve mörg prósent hefðu kosið. Til þess að sauðfjársjúkdóman., áður en hún tekur afstöðu til fjárskipta, geti áttað sig á, hvað hér er mikill vilji á bak við, töldum við nauðsynlegt, að kjörskrá lægi fyrir, til þess að ekki yrði deilt um það, hve margir hefðu tekið þátt í atkvgr. hlutfallslega.

Þá er brtt. við 31. gr. Greinin gerir nú ráð fyrir því, að sauðfjársjúkdóman. láti rannsaka heilbrigði fjár í þeim héruðum, sem lömb eru keypt frá. Nú teljum við, að það sé ekki víst, hvort ástæða sé til að rannsaka heilbrigði fjárins, t.d. á Vestfjörðum, þar sem lömb eru mest tekin og þar sem engin hætta hefur verið á, að nein veiki sé. Okkur þótti þetta þess vegna fullsterkt ákvæði, að það skuli rannsaka, og bættum því inn í gr., að þetta skuli rannsaka, ef ástæða þykir til.“

Þá er næst brtt. við 33. gr.brtt. er sett inn eftir reynslu frá s.l. hausti. Það voru áður þau ákvæði í l., að verðlagsnefnd búnaðarráðs skyldi ákveða verð líflamba eftir lifandi þunga. Svo varð framkvæmdin sú, að þegar átti að verðleggja fyrir eitt ár, þá var fengið upp, hvað fjárverðið hafði orðið haustið, sem lömbin voru keypt, og voru þá borgaðar uppbætur á það verð, sem borgað var út haustið áður. Hafa verið borgaðir út 2/3 hlutar verðsins strax. en 1/3 seinna. Það sýndi sig í haust, þegar fara átti að kaupa lömb á Vestfjörðum, að þetta fyrirkomulag var mönnum mjög á móti skapi. Þeir vildu fá lambsverðið ákveðið strax og allt borgað og ekkert eiga á hættu um það, hvað kynni að verða endanlegt verð. Þess vegna var vikið frá l. í haust og samið við bændur um ákveðið verð, ella hefðu lömbin tæplega fengizt. Út af þessu er nú sett inn í 33. gr. heimild um það, að það megi ákveða fast verð með hliðsjón af fyrra árs afurðaverði og útliti fyrir afurðaverð á því hausti, sem lömbin eru keypt. Með því þarf ekki að brjóta l., þótt keypt séu lömb með sama fyrirkomulagi og í haust.

Þá er brtt. við 35. gr., það er breyt. á einu orði, að í stað „almenn fjárböðun“ komi: útrýmingarböðun. Nú er svo ákveðið, að ef það kemur upp fjárkláði í lömbum, sem keypt eru, þá sé sauðfjársjúkdóman. heimilt að láta fara fram almenna fjárböðun. Almenna fjárböðun er skylt að framkvæma á hverju ári. og það er áreiðanlega ekki slík böðun, sem ætlazt er til, að fari fram, heldur útrýmingarböðun á fjárkláða, og okkar brtt. innifelur það, að í stað almennrar fjárböðunar komi: útrýmingarböðun, svo að þetta orki ekki tvímælis. Annars hefur það komið til tals í n. að láta fara fram útrýmingarböðun á svæðum, þar sem lömb eru keypt frá, svo að tryggt sé, að kláði útrýmist þar og komi ekki inn á ný svæði með lömbunum. Hvort horfið verður að því ráði, skal ég ekki segja, en hér er farið inn á sömu leið og mþn. ætlaði að fara, að heimila n. að útrýma fjárkláða, ef hann berst inn á svæði með lömbunum.

Næsta brtt. er við 36. gr., og í áframhaldi af henni er brtt. við 37. gr. Eftir frv., eins og það kom frá Nd., á hver maður, sem á ær og slátrað er hjá, að geta fengið lömb, sem nemur 70% af fjártölu, en á fyrsta ári ekki nema lamb fyrir aðra hvora á, eða 50% af ærtölu, en það er af því, að það er ekki búizt við, að fleiri gimbrarlömb fáist á svæðum. þar sem veikin er ekki komin, en sem nemur þessari tölu. Það er gert ráð fyrir því í l., að þegar miðað er við ærtölu manna, sem fé er slátrað hjá, þá sé miðað við það, sem hún var þrem árum áður, en fjárskipti fóru fram. Brtt. okkar við þessa gr. er í því fólgin, að við látum það vera við næstsíðustu áramót á undan, í staðinn fyrir, að nú er miðað við 3 ár, þá mun líða eitthvað á annað ár eftir okkar till. Þetta gerum við fyrst og fremst af þeim ástæðum, að með því að miða við fjártölu þremur árum á undan, þá geta verið orðin alla vega skipti á fjáreigendum, einn hættur að búa og fluttur burtu, annar nýbyrjaður o.s.frv., en til þess að hafa þetta sem næst því, þá miðum við við næstsíðustu áramót á undan. Að við miðum ekki við næsta framtal á undan, er af því, að við viljum gefa bændum kost á því, árið áður en fjárskipti fara fram, að fækka fénu. Það getur verið þeim haganlegt, að fækkuninni sé að nokkru leyti dreift á 2 ár, en komi ekki allt á einu ári. Þetta mundi eftir I. vera miðað við 1. jan. 1944, en þá væri aftur hætta á því, að menn byrjuðu að fækka fénu fyrri árin og svo kæmi einhver afturkippur, kannske að menn breyttu um skoðun, Alþ. sæi ekki ástæðu til að leggja fé fram til fjárskipta o.s.frv., og þá er sá bóndi. sem treystir þessu, illa farinn, því að þá á hann engan bústofn til að lifa af og yrði alveg í vandræðum með sína afkomu, ef svo færi. Hjá þessu kemst maður með því að miða við næstsíðustu áramót á undan. Hins vegar var svo fyrir mælt í l., að ríkið skyldi greiða verð lambanna og greiða það strax það ár, sem lömbin voru keypt. En það skiptir ekki miklu máli, hvort það er svo eða eins og við leggjum til, að greiða þau árið eftir. En þó er á það að líta, að árið, sem einhver bóndi fargar öllum sínum fjárstofni, þá hefur hann milli handa fé til að greiða lömbin, en árið eftir ekkert nema nokkur gimbrarlömb undan lömbunum, sem hann keypti árið áður, og þarf hann þá að fá bætur. enda svo til ætlazt, en ekki sama árið og fjárskipti verða. Við teljum þetta heppilegra, þar að auki kemur það til greina, að með því að bæta sama haustið þá er ekki hægt að gefa Alþ. neinar upplýsingar um það, hvað mikið fé mundi þurfa til fjárskiptanna, en með því að bæta árið eftir, þá er hægt að segja nákvæmlega, hvað mikið þarf til fjárskipta á hverju ári. Þetta hefur þýðingu, a.m.k. í augum þeirra manna, sem vilja hafa fjárl. í sem mestu samræmi við það, sem verður. Allar þessar brtt., við 36., 37. og 38. gr., hanga hver aftan í annarri og eru hver í samræmi við aðra.

Hið sama má segja um brtt. við 39. gr. Þær eru tvær og hvorug veigamikil. Önnur er í því fólgin að slá því föstu í l., að þau vanhöld, sem á að bæta, séu fyrst og fremst vanhöld af þessum þrem sauðfjársjúkdómum, sem hér um ræðir, en ekki vegna allra vanhalda, eins og mætti túlka eftir orðalagi 39. gr., heldur aðeins vegna vanhalda af fjárskiptum. Hin brtt. er afleiðing af brtt. við 37. og 38. gr., að í staðinn fyrir 3 ár komi 2 ár, því að það kemur ekki til mála, að fjárskipti verði búin í landinu eftir 3 ár, eins og gefið er í skyn með 39. gr. með því að láta þetta ná 3 ár fram í tímann. Við setjum 2 ár í staðinn, því að þá er uppeldisstyrkurinn greiddur áframhaldandi, meðan þess þarf, til þeirra, sem þurfa, þar til tveim árum áður, en fjárskipti verða hjá þeim.

Þá hefur n. til athugunar, hvort ekki sé ástæða til að taka aftur upp í þetta frv. þann kafla, sem úr því var felldur í Nd., en það er kaflinn um innflutning sauðfjár og ýmislegt í sambandi við það. Sú skoðun varð ofan á í Nd., að þessi kafli ætti heina í sérstökum l., og það er í undirbúningi að koma í staðinn með slík l. Við höfum enga afstöðu tekið til þessa og þess vegna ekki heldur til þess, hvort ástæða sé nú til þess að fella burtu 7. kafla þessara l., en hann er í rauninni eftirstöðvar af þeim kafla frv., sem búið er að fella niður í Nd. Hið sama er að segja um þau l., sem úr gildi eru numin með þessum l., en það eru öll þau l., sem til eru um innflutning sauðfjár og nautgripa. Í þessu var fullkomið samræmi, eins og l. voru, þegar þau voru lögð fyrir Alþ., því að þá var ætlazt til, að ný ákvæði kæmu inn í staðinn fyrir þessi lög, sem felld eru úr gildi. En eftir að búið er að nema þau úr gildi, þá er ekki ástæða til að nema hér úr gildi l., sem ekki snerta efni þessa frv. En n. á eftir að taka afstöðu til þess, hvort eigi að taka upp einhver ákvæði um þetta efni í þetta frv., eins og var í því upprunalega, eða nema 7. kaflann úr gildi, en n. mun taka ákvörðun um þetta milli 2. og 3. umr. og mun þá flytja viðbótarbrtt. í þá átt, ef ástæða þykir til. — Ég hef svo ekki meira um frv. að segja. Ég vil vænta þess, að hv. deild geti verið með brtt. nefndarinnar.

Tveir nm. skrifa undir nál. með fyrirvara almenns eðlis, sem þeir gera sjálfsagt grein fyrir.