20.02.1947
Efri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (4499)

167. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér þykir það leitt, ef ég hef misskilið eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Reykv. Ég skildi hann svo, að ekki yrði komizt hjá fjárfestingu, með því að nýja félagið fengi að byggja tanka á stöðum, þar sem þeir hefðu ekki verið byggðir áður, en nú segir hann, að olíufélagið mundi byggja tanka til aukningar á stærri stöðunum. Ég verð að segja það, að ólíklegt er, að B.P. og Shell láti nýja olíufélagið fá alla nýja tanka. Það er mjög ótrúlegt, að sá bróðurkærleikur kæmi fram hjá erlendum aðilum. Hitt held ég, að sé ekki misskilningur, er ég sagði, að verulegur hluti væri erlendur. Hann sagði einnig, að æskilegt væri, að féð kæmist á innlenda hendi, og að það væri metnaðarmál, að það væri íslenzkt. Í þessu felst viðurkenning á því, að þessu er ekki náð. Þetta er ekki á hendi Íslendinga, meðan mannvirkin eru eign kapítalistískra erlendra auðhringa. Hér þarf að sameinast um að gera þessa grein verzlunarinnar innlenda. Ég mun ekki á þessu stigi málsins deila um, hvort ekki yrði sparnaður, ef öll olíusalan væri á einni hendi. Ég tel, að það liggi í augum uppi, og hef ég leitt rök að því. Einnig er augljóst, að fjárfesting yrði minnkuð, og í þriðja lagi tel ég, að spara mætti mannafla með þessu.

Ég heyrði, að hv. þm. Barð. var illa við, að ég hafði ekki gert ræðu hans að umtalsefni, en ég taldi meira vert að svara hv. 1. þm. Reykv. en honum, sem mér fannst tæplega svara verður. Hitt minnti ég á, að þessi sami hv. þm. lýsti því yfir, að hann mundi taka í hönd hverjum, sem gæti lækkað olíuverðið, og það er gert með þessu frv. Hv. 1. þm. Reykv. hefur sagt, að þeir sem gætu keypt í stórum stíl gætu fengið ódýrari og hagkvæmari innkaup en ef keypt er í slöttum. Það eru því líkur til, að hagkvæmara grunnverð fáist, ef keypt er á einni hendi. Þá er víst, að flutningskostnaður er lægri, ef flutt er á stórum skipum. Einnig yrði dreifing olíunnar hentugri samkv. þessu frv. Þetta liggur svo í augum uppi, að ekki er erfiðara að sjá það en leggja saman tvo og tvo. Mig furðar, að hv. þm. Barð. skuli ekki sjá, hvað felst í 2. og 3. gr. frv. Það er ætlazt til, að ríkið hafi einkasölu, en aðrir aðilar annist dreifinguna. En skilur þá ekki hv. þm., að fjármagn þarf til dreifingarinnar? Er honum ekki kunnugt um, að tanka B.P. þarf að gera að innlendri eign, og til þess þarf fé. B.P. á einnig dælur, sem leigðar eru smásölum. Þessar dælur þarf að kaupa, og verður það ekki gert án fjár, og þetta er í sambandi við dreifingarkostnaðinn. Ég þarf ekki að útskýra frv. Ég hygg, að hv. þm. Barð. hafi skilið það rétt. En stofnfé þarf til að eignast það tækjakerfi, sem nauðsynlegt er í sambandi við smásöluna. Ég mundi telja heppilegt, að smásöludreifingin væri í höndum samlaga og samvinnufélaga, vegna þess að hugsanlegur ágóði dreifðist þá til notendanna. Með innflutningi einkasölu og dreifingu samvinnufélaga og samlaga væri olíumálum komið í sæmilegt horf, og ég vona, að Alþ. auðnist að koma þessu á, svo að hægt sé að skila nauðsynjavöru til þegnanna með engum óþarfa gróða. Ég hef áður látið í ljós ósk um, að frv. yrði vísað til fjhn.