21.02.1947
Efri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (4504)

167. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var aðeins út af atriði, sem mér láðist að minnast á, þegar ég talaði hér síðast, er ég kvaddi mér hljóðs. Það var sem sé í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði viðvíkjandi því, sem reyndar var ekki beinlínis skylt þessu máli, að víða væri okrað með beitu handa bátaútveginum sjálfum. Þessu mótmælti hann og sagði, að það ætti sér ekki stað. Ég þarf enga vitneskju að sækja til hv. þm. Barð. um þetta. Það getur verið álitamál, hvað kallað er okur, en mér er vel kunnugt um, að það græðist ekki meira á öðru hjá íshúsunum kringum land en að geyma og selja beitu fyrir bátaútveginn. Á Ísafirði er það svo, að íshúsin, sem hafa selt beitu, hafa jafnan selt hana miklum mun dýrara en íshúsið, sem samvinnufélagið hefur á leigu, hefur gert, og þó hefur það íshús grætt tugi þúsunda á beitunni, og það skiptist milli félagsmanna í samvinnufélaginu. Og mér er kunnugt um, a$ íshúsin á Ísafirði hafa ekki ætlað sér meiri gróða en venja er á þessu sviði, og má þar sjá dæmi þess, að það er ekki hlífzt við að ætla sér dágóðan ábata af beitu- eða olíusölu eða öðrum vörum, sem útgerðin á mest í húfi um að fá með sem sanngjörnustu verði. Þetta hefur orðið til þess, að útgerðin hefur brotizt undan þessu okri með því að stofna til samlaga, og það er af því, að menn hafa talið, að með því gætu þeir losað sig við óþarfa milliliðagróða, sem íþyngir útgerðinni um of, og komið málum sínum hagkvæmar fyrir og tryggt betur rekstur sinn.

Ég get ekki skilið, af hvaða toga það er spunnið að fullyrða, að engin óhófleg álagning eigi sér stað í sambandi við beitusölu til útgerðarinnar, nema ef hv. þm. Barð. bæri einhverja slíka okrara fyrir brjósti, og þá skal mig ekki undra, þó að hann mæli gegn því, að olíuverzlunin sé færð í betra horf. Það getur þá verið af sams konar rótum runnið, að hann hafi þar einhverra hagsmuna að gæta fyrir einhverja, sem græða á að selja olíu í þessu landi, en það gerir ekkert fráleitara að kippa þeim málum í betra horf, fremur en þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til að kippa beitusölumálum útvegsins, veiðarfæraverzluninni og öðrum slíkum nauðsynjum útgerðarinnar í betra horf.

Hvort sem rætt er um olíusölumálin lengur eða skemur, þá vakir ekkert fyrir okkur flm. þessa frv. annað en að reyna að tryggja, að olíuverzlun landsmanna komist á innlendar hendur og að verðið á olíuvörum sé það lægsta, sem nokkur möguleiki er til, og innkaupakostnaður, dreifingarkostnaður og rekstrarkostnaður sé sem minnstur og ágóðahluti sé numinn gersamlega burt.