18.02.1947
Efri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki ræða mikið þennan mikla og vandasama lagabálk, sem á að gera tilraun til að bæta úr einu mesta vandamáli bændanna. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi víkja að. Í fyrsta lagi þykir mér það skorta hjá hv. n., sem annars hefur lagt fram mikla vinnu í þessu máli, að hún hefur ekki gert samanburð á þeim kostnaði, sem hlytist af samþykkt þessa frv., og kostnaðinum eins og hann er nú með ríkjandi fyrirkomulagi. Það væri miklu betra fyrir Alþ., ef hv. landbn. gæti látið í té slíkan samanburð, svo að það sæist, hve mikið fé þyrfti til hinna fyrirhuguðu framkvæmda í þessum efnum. Mér skilst, að frá upphafi til ársins 1945 hafi árlega verið varið allt að einni milljón króna til þessara mála, og sjálfsagt hefur sú upphæð verið enn þá hærri s.l. ár í samræmi við hækkun á öllu verðlagi og mig minnir, að á fjárlögum nú séu ætlaðar þrjár milljónir króna til sauðfjárveikivarnanna, en nokkuð af því fé munu vera uppeldisstyrkir. Ég vænti upplýsinga í þessu efni frá hv. n. fyrir 3. umr.

Hitt atriðið er viðvíkjandi 7, kafla frumvarpsins. Ég fæ ekki skilið, að nauðsynlegt sé, að hann verði samþykktur. Hér á að koma upp sóttvarnar- og einangrunarstöð fyrir innflutt dýr, sem mjög er deilt um, hvort yfirleitt eigi að flytja til landsins, og menn hafa hlotið dýrkeypta reynslu af að hafa nokkurn tíma flutt inn. Og í þessu sambandi eru nefndar hinar dýrmætustu eyjar, sem finnast, fyrir sóttvarnarstöð, þótt vitað sé, að ríkið á nægilegt land fyrir undir þessar ráðstafanir. Það þarf ekki lítið fé til að taka Viðey eignarnámi, varla minna en eina milljón króna, ef þar á að reisa tilraunastöð, eða þá Engey, því að vitanlega yrði að rækta þar land fyrir skepnurnar. Nú er sagt í grg. frv., að tilraunastofnun þessi eða vísindastofnun þurfi ekki að verða dýr. Ég veit ekki, hvaða mælikvarði er þar á lagður, en ég hygg, að þessi stöð kosti drjúgan skilding, og það er vafasamt, að allir fylgi þessu frv., sem mundu fylgja því, ef 7. kafli væri numinn brott. Ef landbn. hefur ekki tekið afstöðu til þessa, vil ég mælast til, að formaður hennar fái þessari umr. frestað, svo að d. gefist kostur á að heyra afstöðu n., þegar hún hefur verið tekin nú við þessa umr., en ekki við 3. umr., því að þá kynni ég að bera fram brtt., ef n. fellir ekki niður þennan kafla frv. Í sambandi við sóttvarnarstöð í fyrrgreindum eyjum, sem gert er ráð fyrir að taka með eignar- eða leigunámi, ef með þarf, vil ég benda á, að það er í meira lagi vafasamt að láta slíkar heimildir í l. vofa yfir eignum manna svo og svo lengi, og minnist ég Grafarholts í því sambandi. þar sem eigendum er með því móti meinað að ráðstafa eignum sínum, eða þeir eru í sífelldri óvissu um þær. Ég vil því eindregið mælast til þess, að n. taki málið að nýju til athugunar, þessari umr. verði frestað, en n. geri út um það innbyrðis hjá sér, hvort hún getur fellt þennan kafla, 7. kaflann, úr frv.