28.04.1947
Efri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (4512)

206. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — N. hefur haft þetta mál til athugunar. Eins og fram kemur í grg. frv. og fram kom við 1. umr., er það komið frá búnaðarþingi, er samdi frv. þetta og sendi landbn. Ed. til flutnings. Landbn. hefur leitað. umsagnar þessara aðila um málið: Dýralæknafélags Íslands, Sigurðar Hlíðar yfirdýralæknis og Árna Eylands, fulltrúa í stjórnarráðinu, sem hafði haft með málið að gera í sambandi við frv. um fjárskipti.

Jón Pálsson hefur í nafni Dýralæknafélags Íslands sent n. bréf, þar sem hann segist ekki hafa getað náð félaginu til sameiginlegs fundar, en mælir fyrir sitt leyti með því, að frv. verði að l., og gerir enga aths. við það. Sigurður Hlíðar yfirdýralæknir skrifar alllangt mál, þar sem hann leggur höfuðáherzlu á, að gott eftirlit sé haft með því, að l. þessum verði framfylgt, og þar sem það mál verður að mestu í höndum hans sjálfs, ætti hann a.m.k. ekki að vantreysta því, að svo verði. Ég sé ekki ástæðu til að lesa allt bréf hans, en niðurstaðan er hin sama og hjá Jóni Pálssyni, formanni Dýralæknafélags Íslands. Árni Eylands var sérstaklega með eina aths. Honum skildist, að eftir frv., eins og það liggur fyrir, færi saman einangrunarstöðin og ríkisbú, þar sem féð verður haft eftir einangrunina til að rannsaka árangur af blöndun með því og hvort sjúkdómar kynnu að leynast í því. Satt að segja er þetta nokkuð óákveðið í frv., en áreiðanlega hefur verið ætlazt til þess af búnaðarþingi, að þetta yrði í tvennu lagi. Sumir hafa hugsað sér hvort tveggja í sömu eynni, aðrir hafa hugsað sér, að betra væri að hafa sjálfa einangrunarstöðina á Keldum, þar sem eru mörg skepnuhús og 10–20 klefar til að einangra veik dýr í og þar sem yfirstjórn þessara mála að mestu leyti á að vera í framtíðinni. Framkvæmdin er í höndum stjórnarinnar, og hún ræður því í samráði við yfirdýralækni, hvor stefnan verður tekin. En til þess að ljóst sé, að stjórnin hafi óbundnar hendur, höfum við gert nokkrar smábrtt., sem eru þess eðlis, að samkvæmt þeim er hvort tveggja hægt, að hafa þetta í eyju eða einangrunarstöðina sjálfa annars staðar.

Brtt. okkar eru fyrst og fremst við 2. gr., þar sem segir varðandi innflutning, að fara skuli eftir till. ráðunauta í hlutaðeigandi búfjárgreinum. Við höfum bætt við „eftir því sem við verður komið“, af því að ekki eru til ráðunautar í sumum greinum, t.d. svínarækt, sem er mest aðkallandi, ef á að halda henni hér áfram, því að þau svín, sem til eru, eru aðeins af tveimur náskyldum stofnum og í mikilli úrkynjun.

Þar vantar nýtt blóð, ef halda á þessari alidýrarækt áfram. En enginn ráðunautur er til hér í þeirri grein. Við höfum því bætt þessu inn í greinina, eftir því sem við á. Hið sama gildir um hænsn, hér er enginn ráðunautur í hænsnarækt, en þó eru þau alltaf flutt inn. T.d. vissi ég til, að 200 voru flutt inn í einu s.l. ár, sjálfsagt með einhverju leyfi. Ráðh. hefur eflaust leyft þann innflutning. Og þá eru egg flutt inn, en með þeim geta borizt sjúkdómar eins og með hænsnunum sjálfum.

Úr 4. gr. hefur fallið niður orðið „svo“, og er sú grein því óbreytt, þótt við látum prenta hana upp með þessu orði til að taka fram, að ekki fer saman að byggja stöðina og setja saman búið. Ég tel alveg óforsvaranlegt að hafa ekki slíka stöð fyrir alifé, annað nær ekki neinni átt, eins og t.d. í vetur, þegar fluttir voru inn 20–30 minkar, en engin stöð var fyrir hendi, þar sem hægt væri að einangra þá, og ég tala nú ekki um hundana, sem alltaf er verið að flytja inn. Því er það, hvað sem menn annars segja um gagn af innflutningi búfjár yfirleitt, þá verður að hafa hér einangrunarstöð, og því tvennu mega menn ekki blanda saman. Stöðin þarf að koma, hvað sem innflutningi búf jár almennt líður.

Þá eru hér 2 brtt. við 5. gr. Sú fyrri er lítilfjörleg, en hún er um það, að í stað orðanna „dýralæknir hlutaðeigandi héraðs“ komi: viðurkenndum dýralækni —, að skylt sé, að vottorð frá viðurkenndum dýralækni fylgi skepnunni erlendis frá, því að við kunnum ekki við að skylda hér með l. sérstakan lækni erlendis til að gefa slíkt vottorð. Aðeins hér á landi má flytja út dýr án slíks vottorðs, og það er því nóg að taka fram, að dýralæknirinn skuli vera viðurkenndur af yfirvöldum heilbrigðismála dýra. Þá er einnig í þessum a-lið brtt. við 5. gr. dálítil umorðun í sambandi við það, að innlendur dýralæknir sé við skoðunina erlendis og hafi eftirlit með skepnunum á leiðinni til landsins. B-liður er í sambandi við það, sem áður er sagt um einangrunarstöðina. Því er slegið föstu í frv., að hún skuli vera í eyju. Við höfum sett „þar“ í staðinn, til þess að yfirvöldin hafi óbundnar hendur um þetta. Stöðin þarf þá ekki að vera í eyju fremur en gott þykir, heldur t.d. úti í Gróttu, eins og talað var um í vetur, eða á Keldum eða þar, sem hún er talin bezt sett, í fáum orðum sagt.

Eins og þm. heyra, eru þetta allt lítilfjörlegar brtt., og aðaláherzlan er lögð á, að einangrunarstöðin og búið þurfi ekki að fara saman eða vera saman, og að því leyti er komið til móts við sjónarmið Árna Eylands, og hinn sami var vilji mþn., er starfaði í haust.

Ég hef svo ekki fleira um þetta að segja, því að ég fer ekki út í það hér, hvort yfirleitt á að flytja inn búfé eða ekki. Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína, að sjálfsagt sé að flytja inn sumar tegundir, en aðrar ekki. Hitt er staðreynd, hvaða skoðun sem menn hafa á þessu, að alltaf er verið að flytja inn skepnur, með leyfi og í óleyfi, þótt enginn útbúnaður sé til einangrunar. Það er því afar nauðsynlegt að koma á eftirliti með þessum innflutningi í tryggri einangrunarstöð, svo að maður þurfi ekki að standa eins og glópur með hund eða aðra skepnu á götunni og hringja í Pétur eða Pál, biðja hann og segja: „Heyrðu góði, þú getur víst ekki geymt fyrir mig hund einhvern tíma.“ Framkvæmd einangrunarstöðvarinnar má ekki dragast, hvað sem búinu líður.