28.04.1947
Efri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (4515)

206. mál, innflutningur búfjár

Gísli Jónsson:

Ég vil lýsa því yfir, að ég hef engan áhuga á innflutningi dýra, einfaldlega vegna þess, að ég hef aldrei orðið var við, að hann hafi orðið til nokkurs gagns, en hins vegar hafa af honum stafað mörg og þung óhöpp, sem kostað hafa ríkissjóð milljónatugi, og ekki er enn þá séð fyrir endann á því. Má þar nefna sauðfjársjúkdóma og svo minkana, sem valdið hafa miklu tjóni. Ég er því alveg á móti því, að nú verði farið að leggja 1/4 millj. kr. í kaup á Engey, bæði vegna þess, að ríkið á fjölda eyja, sem nota mætti í þessu skyni, og svo vegna þess, að nú þegar hefur verið lagt í milljónafyrirtæki á Keldum og hundruð þúsunda á Hesti, sem allt er raunverulega í þessum sama tilgangi. Ég mun því ekki styðja þetta mál, heldur óska, að það verði fellt.