15.04.1947
Efri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (4529)

330. mál, menntaskólar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Þetta frv. um breyt.á l. um menntaskóla er flutt af hv. 1. þm. N–M. ásamt mér. Efni þess er það, að í stað þess, sem nú segir í l., að menntaskólar skuli vera 2, á Akureyri og í Reykjavík, segir í þessu frv., að þeir skuli vera 4. Einn í Reykjavík, annar á Akureyri, þriðji á Ísafirði, og fjórði á Eiðum.

Ég veit, að sumir, einkum þeir, sem lítið þekkja til skólamála, hneykslast á því að heyra það nefnt að hafa 4 menntaskóla, en ég mun ekki kippa mér upp við það. En ég vil minna á það, að ekki er langt síðan menn héldu, að einn eða tveir læknar nægðu allri þjóðinni. Nú eru um 50 læknishéruð á landinu og um 500 starfandi læknar.

Það eru heldur ekki nema um 20 ár síðan því var haldið fram af lærðum mönnum, að engin þörf væri fyrir menntaskóla á Akureyri, það væri aðeins hégómamál Norðlendinga. En reynslan hefur sýnt, að sá skóli hefur bætt úr mikilli þörf og ranglæti. Nú er samt svo komið, að þeir tveir menntaskólar, sem hér eru, eru ófullnægjandi. Með þeim fræðslulögum, sem samþ. voru á síðasta Alþ., er verið að gerbreyta öllum menntamálum þjóðarinnar. Það er vitað mál, að á næstu árum mun meiri fjöldi leita til menntaskólanna en hingað til. Nú lýkur skyldunámi við 15 ára aldur og mjög margir munu halda áfram eitt ár í viðbót og ljúka miðskólaprófi, en það veitir rétt til framhaldsnáms í menntaskóla eða kennaraskóla. Það er alveg augljóst, að þegar barnaskólunum lýkur, munu margir bæta við námi í 3 vetur með það fyrir augum að halda áfram námi í kennaraskóla eða menntaskóla.

Þetta leiðir til þess, að menntaskólinn á Akureyri yfirfyllist af miðskólafólki úr Norðlendingafjórðungi, og þar með er sú leið fyrir Vestfirðinga og Austfirðinga lokuð að komast í þann skóla, og allir vita, hvernig er að komast í menntaskólann hér í Reykjavík. Húsnæðisvandræði höfuðborgarinnar eru nægileg til þess, að sú leið er lokuð fyrir flestum. Það er einnig talið, að það kosti 10–12 þús. kr. að kosta einn ungling til náms í Reykjavík yfir veturinn. Efnaminna og meira að segja sæmilega efnað fólk hefur ekki efni á að kosta, þó ekki sé nema einn ungling til náms með slíkum kjörum.

Það, sem gerist, er því það, að efnilegum unglingum úr þessum landshlutum verður synjað um framhaldsnám vegna fyrirkomulagsins á þessum málum. Efnilegu mannfólki af Vestur- og Austurlandi verður þannig bægt frá æðri menntun.

Það er eðlilegt, að spurt sé: Er þörf á menntaskóla á Austur- og Vesturlandi? Til þess að gefa hv. alþm. nokkra hugmynd um þetta, skal ég geta þess, að í gagnfræðaskólanum á Ísafirði eru nú á þriðja hundrað nemendur. Í I. bekk eru nú rösklega 90. Um helmingur þeirra er í verknámsdeild, hinir í bóknámsdeild. Þó að ekki héldi áfram nema 1/3 þeirra, sem eru í bóknámsdeild, sem ég vil segja, að sé gott úrval, að því er snertir námshæfni til bóknáms, væru það þó strax 15 nemendur í bekksögn.

Nú eru, eins og kunnugt er, tveir aðrir ungmennaskólar á Vesturlandi, hinn landskunni héraðsskóli að Núpi í Dýrafirði og annar vel þekktur skóli í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þó að ekki kæmu frá hvorum þessara skóla nema 5 nemendur í viðbót, þá er þarna um 10 nemendur til viðbótar að ræða, og eru þarna þá um 20–25 nemendur til viðbótar á vetri, sem líkur eru til, að kynnu að halda áfram námi að afloknu miðskólaprófi. Og ég fullyrði, að þetta úrval, sem svarar til sjötta hvers nemanda, sem fer í barnaskóla eða héraðsskóla, hafi fullkomlega gáfur á við það fólk, sein safnast í menntaskólana á Akureyri og í Reykjavík, enda er það margsannað með prófi frá þessum skólum.

Það er bæði vegna fjárhagshliðar þessa máls, sem ég hef drepið á þetta, og þess, að þarna erum að ræða aukningu á nemendum á ári hverju, sem þyrftu að ráðstafa sér til annarra landshluta á menntaskóla eða kennaraskóla, vegna þess að í þá landshluta vantar þessa skóla. Þá leiðir það af sjálfu sér, að fjöldi af efnilegu fólki verður að fara úr sinu byggðarlagi og ekki einasta það, heldur líka foreldrarnir, þeir verða að taka sig upp líka og flytja búferlum til Reykjavíkur, taka sig upp frá heimili sínu og kannske æskustöðvum. Efnahagurinn leyfir oft ekki annað, og eru mörg dæmi til slíks, enda vitum við það vel, að foreldrar vilja leggja mikið að sér fyrir sín börn til þess að geta kostað þau til framhaldsnáms.

Þessi er reynslan á Vestfjörðum, þar má finna mörg dæmi þess, að foreldrar hafa flutt burt til þess að geta fylgt börnum sinum eftir til framhaldsnáms hér í höfuðborginni.

Þá vil ég víkja að því, hvernig aðstaða er til þess að reisa menntaskóla á Ísafirði. Það er ýmislegt, sem mælir með því að reisa þar menntaskóla við þær skólastofnanir, sem fyrir eru á staðnum. Nú á síðustu árum hefur Ísafjarðarkaupstaður gert mjög mikið átak fyrir kennslumál sín. Í kaupstaðnum er einhver bezti gagnfræðaskóli landsins með 11 kennslustofum, en það er jafnmörgum kennslustofum og verður í þeirri milljónabyggingu, sem verið er nú að reisa fyrir gagnfræðaskóla í Reykjavík, og er hann hið vandaðasta hús. Þarna hefur líka verið reist yfirbyggð sundlaug, sem er miklu stærri, miðað við stærð Ísafjarðarkaupstaðar, en sundhöllin er fyrir Reykjavíkurbæ. Þar hefur líka verið reist vönduð bókasafnsbygging, og þar mun einnig vera einn af stærstu og vönduðustu íþróttasölum landsins. Þá er þar einnig stór og vandaður húsmæðraskóli, sem kemur reyndar ekki þessu máli við. Þessi aðstaða öll dregur mjög úr kostnaði við að bæta þarna í þetta skólakerfi menntaskóla. Það, sem hér þyrfti að bæta við, eru 4–6 kennslustofur, skulum við segja, og rektorsíbúð. Meira að segja mundi það vera hægt að hefja starf slíks skóla í húsakynnum gagnfræðaskólans, eins og þau eru nú.

Líkt þessu má segja um skólasetrið á Eiðum. Þar er ýmiss konar aðstaða, sem dregur til muna úr kostnaði, ef byggður væri menntaskóli á þeim stað. Þar eru ýmis mannvirki, sem gætu verið sameiginleg fyrir menntaskóla og héraðsskóla.

Ef draumur Sunnlendinga um menntaskóla gæti rætzt og staður eins og Laugarvatn yrði fyrir valinu, má segja um þann stað líka, að þar er um ýmiss konar mannvirki að ræða, sem gætu verið mikil hjálp til þess að draga úr kostnaði við að bæta þar við menntaskóla. En möguleikinn, sem fyrir hendi er, ef ekki yrði horfið að því ráði að koma upp menntaskóla í öllum landsfjórðungum, er sá að endurbyggja þá menntaskóla, sem fyrir eru, en þá verður að reisa stórkostlegar byggingar hér í höfuðborginni fyrir menntaskóla og einnig á Akureyri.

Það hefur verið upplýst hér á hv. Alþ. fyrir nokkrum vikum, að lóð sú, sem flestir hafa helzt augastað á fyrir framtíðarmenntaskóla, þ.e. landspildan, sem liggur að núverandi lóðum menntaskólans í Reykjavík, mundi kosta S-6 millj. kr. Þar að auki telja menn fullvíst, að bygging menntaskóla hér mundi kosta 10–12 millj. kr.

Hv. þm. S-Þ. (JJ), sem mörgum öðrum þm. fremur hefur óneitanlega þekkingu og vit á skólamálum, hefur áætlað, ef menntaskóli yrði byggður hér til nokkurrar frambúðar fyrir allt landið ásamt menntaskólanum á Akureyri, þá þyrfti að byggja menntaskóla fyrir 1000 — eitt þúsund - nemendur, og þá mundi, ef þetta er rétt, þetta byggingarbákn kosta meira en 10–12 millj. kr.

Ég trúi því ekki, með þeirri aðstöðu, sem ég hef nefnt, ef byggðir væru menntaskólar í öllum landsfjórðungum með það fyrir augum að jafna aðstöðu manna til menntunar og menningar, að hver slíkur skóli mundi kosta meira en 600–700 þús. kr. Og ég sé ekki annað en að þessir tveir menntaskólar, á Ísafirði og Eiðum, yrðu minni en einn skóli annaðhvort í Reykjavík eða á Akureyri. Kenn. arafjöldi yrði nokkuð svipaður, 20–30 nemendur á hvern kennara, og þegar litið er á það, að á Eiðum, Ísafirði og á Laugarvatni verða gagnfræðaskólar, mundi vera hægt að hafa sömu kennara, þannig að þeirra kennslukraftar kæmu að fullu gagni.

Rekstrarkostnaður ætti ekki að þurfa að verða meiri, þó að skólarnir væru hafðir fleiri og smærri. Það, sem svo má kannske telja aðalatriði þessa.

máls, er það, að það væri ekkert vit uppeldislega séð að byggja einn menntaskóla fyrir 1000 nemendur hér í Reykjavík. Það væri allt of stór stofnun til þess að geta verið sú uppeldisstofnun, sem ætlazt er til af slíkri stofnun. Smærri og færri skólar yrðu af þessum ástæðum betri fyrir þjóðina í þessu efni en ef lausn málanna væri einskorðuð við Reykjavík og Akureyri.

Það lítur út fyrir, að framtíð menntaskólans hér í Reykjavík hafi verið ráðamönnum Reykjavíkur og ráðamönnum landsins nokkurt umhugsunarefni á undanförnum árum. Rektor menntaskólans hefur kvartað undan því, að erfitt sé að útvega nýjum menntaskóla lóð í höfuðborginni og byggingarmál skólans séu í mesta öngþveiti. En ef horfið væri að því að reisa smærri menntaskóla úti á landi, og svo er hitt, að eftir hinni nýju skólalöggjöf getur menntaskólinn losað sig við gagnfræðakennsluna, og verða þá aðeins fjórar deildir eða vetur fyrir nemendur í menntaskóla, þá hygg ég, að gamla menntaskólahúsið færi langt með það um nokkurra ára bil að fullnægja þörf og aðsókn lærdómsdeildar, og gæfist þá nokkurt tóm til að ráða fram úr húsnæðisvandræðum hinnar ágætu og sögufrægu menntaskólastofnunar í Reykjavík á næstu árum.

Ég er þeirrar skoðunar, að það, sem sízt af öllu megi einoka í okkar þjóðfélagi, sé menningar- og menntunaraðstaða og á því sviði verði að veita atgervi einstaklinga sem allra jafnasta aðstöðu, eftir því sem unnt er. Það er margt andlegt og líkamlegt atgervi, sem búið er að bera út í þessu landi á liðnum öldum. En nú erum við ekki til þess neyddir og megum heldur ekki við því. Þess vegna tel ég, auk þess sem það er fyrst og fremst menningarmál, þá sé það líka réttlætismál, að menntaskólar verði reistir í öllum landshlutum. Ég held, að það sé í það minnsta víst, að þetta mál sé hafið yfir allan flokkadrátt á Vestfjörðum og í Austfirðingafjórðungi, og ég vænti þess, að það sé hafið yfir togstreitu flokka meðal allra Íslendinga. Ég sé ekki, að þessi lausn málsins, sem hér er haldið fram, togi skóinn ofan af einum eða neinum. Ég sé ekki betur en höfuðborg landsins sé fullsæmd af því að hafa nú þegar tvo skóla, sem geta útskrifað nemendur með stúdentsprófi, og ekkert réttlæti sé í því, að bætt sé við þriðja menntaskólanum eða það stækkað, sem fyrir er, en ekkert gert í þá átt að jafna aðstöðuna fyrir hina landshlutana, sem eru mjög illa settir, Vestfirði og Austfirði, þegar Norðlendingar hafa sjálfir fengið sinn menntaskóla.

Ég vil því vona, að þótt þetta mál fái ekki lausn þessa þings, þar sem það er svo seint fram komið — við því er ekki að búast —, þá verði þetta mál af öllum ráðamönnum, sem eiga að horfast í augu við að leysa það mikilvæga viðfangsefni, leyst á sem allra réttlátastan hátt, og að þeir taki þetta mál til fyllstu yfirvegunar og athugunar, áður en fastur grundvöllur er lagður að því, hvernig skuli haga lausn menntaskólamálanna í Reykjavík og á Akureyri.

Að mínu áliti á að taka málið þeim tökum, að litið sé yfir landið allt.

Að síðustu vil ég óska þess, að málinu verði sýnd sú sanngirni, sem það á skilið, og því verði tekið með þeirri réttsýni, sem hv. þm. ber að taka hverju góðu máli og þá ekki sízt menningar- og menntamálum þjóðarinnar.