18.02.1947
Efri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hér eru nú margar og miklar brtt. á þskj. 407 frá hv. landbn., en ein þeirra er, að því er mér virðist, afdrifarík fyrir ríkissjóð, eða gæti orðið það, en það er fyrsta brtt., sem er við 8. gr. Breytingin, sem þar er farið fram á, og þar fer n. inn á nýjar brautir. er sú, að mér skilst, frá því, sem mþn. lagði til, að kostnaðurinn af byggingu varnarlínanna sé ekki aðeins borinn uppi af ríkissjóði, heldur nú einnig viðhald línanna. En í hinu upphaflega frv. er þetta viðhald eða kostnaðurinn við það ætlað hlutaðeigandi fjárskiptafélögum eða sýslufélögum. En hér er gengið allmjög í þá átt að þyngja byrðar ríkissjóðs, þótt kostnaðurinn við þessar varnarlínur hafi. eins og fjárlög undanfarinna ára bera með sér, verið mjög mikill. Þess vegna tel ég þessa brtt. mjög varhugaverða. Og frsm. n. rökstuddi þessa brtt. aðeins með því einu, að samkvæmt ákvæðum þessarar gr., eins og hún er nú í frv., yrði of mikið sleifarlag á viðhaldinu, og þann vanda vill hann leysa með því, að ríkið beri allan kostnaðinn af því. Er nú ekki til önnur leið en þessi? Þeir opinberu aðilar, sem umsjón hafa með girðingunum, hljóta að hafa þann myndugleika að geta haldið hlutaðeigendum, sem viðhaldið eiga að annast, að því að gera skyldu sína. Þetta vildi ég biðja hv. dm. mjög að athuga. Hér er ofan á þær miklu fúlgur, sem ríkið greiðir til sauðfjárveikivarnanna, bætt upphæð, sem vitaskuld er enn þá ekki þekkt, og engar tölur liggja fyrir um það, hve há hún verður, en sem vissulega hlýtur að verða mjög há. er allt viðhaldið er komið á einn aðila. Ég álít fulla ástæðu til að vara hv. dm. við að samþykkja slíkan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Vitað er, að ástandið í fjármálunum er þannig, að hv. fjvn. hefur orðið að stinga við fótum um afgreiðslu fjárlaganna vegna þess, hve erfitt er að fá endana til að mætast í þeim efnum. Ef þessi brtt. yrði samþ., yrði að taka inn nýjan kostnaðarlið á næstu fjárlög.

Ég heyri, að það er hér deila á milli hv. frsm. landbn. og hv. þm. Barð., sem er form. fjvn., um 7. kafla þessa frv., og mér skilst, að sá síðar nefndi hafi óskað eftir, að þessu máli væri nú frestað vegna þessa kafla m.a. Ég veit, að það er á valdi hv. forseta, hvort hann verður við þessum tilmælum hv. þm. Barð., en ég kysi heldur fyrir mitt leyti, að þessari umr. væri nú frestað, bæði vegna 7. kaflans og líka vegna þeirrar brtt., sem ég hef rætt hér um og hefur í för með sér svo mikil útgjöld fyrir ríkið. En það er þess vert á þessum tímum, að þm. hraði ekki um of afgreiðslu þeirra mála, sem hafa í för með sér hækkun á gjaldahlið þeirra fjárlaga, sem afgreiða á, á þessu þingi.