09.05.1947
Efri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (4537)

242. mál, söngskóli þjóðkirkjunar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Það er aðeins fyrirspurn, sem ég vil beina til hæstv. ráðh. og til n., sem mun fjalla frekar um þetta mál. Ég vil lýsa því yfir, að ég er efnislega mjög hlynntur þessu frv. Ég var á sínum tíma fylgjandi því hér í þessari hv. d., að söngmálastjóri væri settur með lögum. Ég tek undir það, að hans starf hefur borið giftudrjúgan árangur í söngmennt víðs vegar um land.

Í umr. hefur komið fram, hvort ekki væri hægt að sameina starf söngmálastjóra annarri fræðslu í þessum efnum, og hefur verið bent á tvær stofnanir í því sambandi. Ég vildi spyrja um það, hvort það mundi ekki leiða af því, að þessi skóli væri stofnaður, að skólastjórinn yrði þá mjög bundinn við þá skólastjórn, svo afleiðingin yrði sú, að annar maður kæmi í hans stað til að ferðast um landið. Í öðru lagi var bent á það af hv. 3. landsk., hvað áfátt væri söngnámi í barnaskólunum. Ég vil beina því til hv. menntmn., hvort þessum málum mætti ekki koma fyrir í kennaraskólanum annars vegar og guðfræðideild háskólans hins vegar, þar sem prestaefni eru menntuð í söng, tóni og organleik. Fram að þessu hafa organleikarar í kirkjum landsins sótt sína menntun sumpart til Reykjavíkur til Páls Ísólfssonar og sumpart til manna úti um land, sem eru fullkomnir á sínu sviði. Þetta mundi breytast að einhverju leyti, ef skólinn kæmist upp. En það er óráðið enn, hverjir aðilar mundu að honum standa, og mér fyndist eðlilegt, að kennaraskólinn og guðfræðideildin stæðu sameiginlega að slíkum skóla. Ég vil beina því til hv. n. að athuga þetta milli umr.