21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (4542)

242. mál, söngskóli þjóðkirkjunar

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Menntmn. Ed. hefur haft nokkra fundi um þetta frv., frv. til laga um söngskóla þjóðkirkjunnar, og kvatt á sinn fund til viðræðna söngmálastjóra. Einnig átti ég sem frsm. n. tal við fræðslumálastjóra um þetta mál. Fræðslumálastjóri sagði mér, að hann legði ríka áherzlu á, að málið næði fram að ganga, taldi hann það mjög mikilsvert, m.a. fyrir skóla landsins til þess að tryggja þeim hæfari söngkennara en nú er kostur. N. fékk ýmiss konar upplýsingar hjá söngmálastjóra um það, hvernig þessi kennsla hefur farið fram á undanförnum árum og við hvaða skilyrði hún ætti að búa, og er það álit n., að nauðsyn á að stofna þennan skóla, sem um ræðir í frv., sé brýn. Forsögu þessa máls þarf ekki að rekja. Hún er rakin hér í grg., og var gerð grein fyrir henni við fyrstu umr. málsins. Till. n. er þá er, að tvær breyt. verði gerðar á frv. Sú fyrri við 1. gr. þess, þannig að í stað orðanna „stofna skal“ í upphafi þessarar greinar komi: Ríkisstjórn er heimilt að stofna o.s.frv. — Þannig verður þessi lagasetning þá að heimildarlögum, en það ætti að koma að sama gagni, þar sem vitað er, að núverandi menntmrh. er málinu fylgjandi og vill jafnvel leggja áherzlu á, að málið nái fram að ganga.

Hin breyt. er við 4. gr. frv. og á þá leið, að í stað orðanna „2–4 ár“ komi: allt að fjórum árum. — N. taldi ekki rétt, að það væri lögfest, að stytzti námstími í skólanum væri 2 ár, og er það rýmkað með þessari breyt., gæti t.d. verið um eins árs tíma að ræða, en verður nánar tekið fram í reglugerð um námstíma fyrir þennan skóla, ef hann verður stofnaður. Þetta eru þær breyt. sem n. leggur til, að verði gerðar á frv. En þannig breytt leggur n. einróma til, að frv. verði afgr. sem lög á þessu þingi. Verði skóli þessi stofnaður, verður verksvið hans þríþætt: Í fyrsta lagi að kenna nemendum guðfræðideildar Háskóla Íslands tón og söng, í öðru lagi að kenna væntanlegum kirkjuorganistum orgelleik og í þriðja lagi að kenna söngkennaraefnum í skólum landsins orgelspil og söng, tónfræði, tónlistarsögu, söngstjórn og fleira, sem að tónlist lýtur. Það er tilætlunin, að skólastjóri þessa skóla verði söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, en hann hefur á undanförnum árum rækt það hlutverk, sem í þessu frv. felst, af mjög miklum áhuga, og hlotið fyrir það lof þeirra, sem til starfs hans þekkja. Nú er þetta starf orðið svo umfangsmikið, að það er alls ekki hægt að ætlast til þess, að þessi kennsla geti farið fram í einkaíbúð söngmálastjóra, eins og verið hefur. Ef þetta starf á ekki að bíða mikinn hnekki eða jafnvel leggjast niður, verður að ráða bót á þeirri aðstöðu, sem verið hefur við þessa kennslu, og sjá þessu kennslustarfi fyrir húsnæði. Það er þá líka meginefni þessa frv., ef það verður lögfest, að ríkið taki á sig skyldu til að sjá söngmálastjóra þjóðkirkjunnar fyrir húsnæði. Söngmálastjóri yrði þá skólastjóri. Það yrði þá enn fremur hægt að sjá honum fyrir 1–2 stundakennurum að auki. Þetta yrði sá kostnaður, sem af lögfestingu frv. mundi leiða fyrir ríkissjóð, þ.e. útvegun húsnæðis og aukakostnaður við stundakennslu, en söngmálastjóri þjóðkirkjunnar er á fullum launum og hefði sömu laun, þó að hann yrði skólastjóri þessa skóla. Þegar litið er á kostnaðarhliðina er ekki hægt að segja, að þetta sé neitt stórmál, en hins vegar dylst engum, sem um fjalla eða um málið hugsa, að þörf fyrir þennan skóla er mikil, ekki eingöngu til að bæta úr þörf þjóðkirkjunnar, þó að skólanum sé ætlað að bera heitið: „Söngskóli þjóðkirkjunnar“ — heldur líka að bæta úr tilfinnanlegum skorti söngkennara, bæði við barna- og unglingaskóla. Það er búizt við, að meiri hluti þeirra nemenda, sem sækja skólann, verði auk guðfræðinema nemendur úr Kennaraskóla Íslands. Þar fá þeir nokkra kennslu í söng og orgelspili, en ekki munu þeir fá neina kennslu í raddbeitingu. Þetta væri því eins konar framhaldsnám fyrir nemendur kennaraskólans til þess að gera þá hæfari til söngkennslu.

Ég held, að ég megi segja fyrir hönd n., að nm. eru allir sannfærðir um, að umfangsmikið og brýnt verkefni bíði þessa skóla, og óski þess allir, að það hljóti góða afgreiðslu í þessari d.