23.05.1947
Efri deild: 144. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (4549)

242. mál, söngskóli þjóðkirkjunar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er nú komin hér fram önnur dagskrá um að vísa málinu frá, svo að mikið þykir við þurfa, en þær eru nokkuð ólíkar að efni. Í fyrri dagskránni er lögð áherzla á að vísa málinu frá og semja við tónlistarskólann um að halda uppi þessari söngkennslu. Vil ég endurtaka það, að ég tel óheppilegt að taka þessa kennslu úr höndum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og leggja hana undir tónlistar. skólann. Þessi söngkennsla er að því leyti svo sérstök, að það er eðlilegt, að hún haldi áfram á þann hátt, sem verið hefur og með þeirri nauðsynlegu aukningu, sem óhjákvæmileg er með aukinni söngmenntun í þessari grein. Ég vil því mæla gegn dagskrártill. hv. þm. Barð. og sömuleiðis hv. þm. N–M., þó að hún sé að því leyti skárri, að þar er ekki gert ráð fyrir því, að þessi mál verði tekin úr höndum söngmálastjóra, heldur beint inn á þann farveg, að honum verði gefinn kostur á auknu húsnæði til þess að hafa þessa kennslu með höndum. En þegar maður lítur á dagskrártill. hv. þm. N–M., finnst manni undarlegt, að hún skuli hafa komið fram, því að á það verður að benda, að þetta frv. fjallar einmitt um það að heimila ráðh. að stofna söngskóla, þ.e.a.s., það er þegar til vísir að honum á heimili Sigurðar Birkis. Með frv. er aðeins gert ráð fyrir því, að þessi vísir verði að skóla og að söngmála. stjóri fái sæmilegt húsnæði og einhverja aðstoð til þess að halda þessari kennslu uppi. Ég get því ekki séð, hvað gerir það að verkum, að hv. þm. N-M. getur ekki fallizt á þetta frv. og hvers vegna hann kemur nú fram með rökstudda dagskrá um að vísa málinu frá. Virðist mér það helzt vera til fyrirstöðu hjá honum, að marga kennara eigi að ráða við þennan skóla, en það er hins vegar alls ekki gert ráð fyrir því með þessu frv., að heimilt sé að stofna nein ný kennaraembætti við skólann, heldur yrði aðeins um stundakennara að ræða og að söngmálastjóri veitti stofnuninni forstöðu. Loks er gert ráð fyrir því að útvega 1 eða 2 herbergi, þannig að hægt væri að losa söngmálastjóra við að kenna á sínu heimili. Ég hygg, að sá ótti, sem hefur komið hér fram um það, að með þessu frv. sé verið að setja á stofn stórt skólabákn, sé ástæðulaus, og vil beina því til hv. dm. að fella þær dagskrártill., sem fram hafa komið, og samþykkja frv., þannig að hægt verði að koma á þessari kennslu utan heimilis söngmálastjóra á næsta hausti.