11.11.1946
Sameinað þing: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (4556)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. þm. mun kunnugt um það, að rektor Menntaskólans í Reykjavík hefur nú enga íbúð í bænum. Býr hann austur í Reykjakoti og verður að koma daglega í bæinn til þess að gegna embætti sínu. Er því svo komið, að ekki er unnt að fresta lengur að leysa þetta mál, og geri ég ráð fyrir því, að allir hv. þm. séu mér sammála um það, þegar þeir vita, hvernig málum er komið. — Ég hef að gefnu tilefni skýrt frá helztu atriðum þessa máls hér í grg. á þskj. 93. Nú er svo ástatt, að rektor stendur til boða hús við Garðastræti hér í bæ, sem á að kosta 650 þús. kr., og er ég þeirrar skoðunar, að þetta sé hið hagkvæmasta boð, sem nú er völ á í þessu skyni, því að svo stendur á, að þetta hús er stærra en þörf er á fyrir rektorsíbúð, og er því hægt að hafa það einnig til annarra nota í þarfir ríkisins.

Nú hefur hæstv. fjmrh. látið svo ummælt hér á þingi, að hann teldi ríkisstj. ekki fært að festa kaup á húseign sem þessari, nema áður fengist fyrri því heimild hjá Alþ. Ég hef þess vegna borið þessa till. fram í trausti þess, að hún fái mjög skjóta afgreiðslu, og það helzt strax á morgun, og mælist ég til, að hæstv. forseti stuðli að því. Leyfi ég mér að leggja til, að till. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjvn.