18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (4566)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég vildi leyfa mér að bera upp við hæstv. forseta að fresta umr., vegna þess að nýtt ástand hefur skapazt við hinn nýafstaðna stórbruna. Ég hygg, að skorta mundi fé, ef kaupa ætti upp lóðirnar við skólann, en það er nauðsynlegt, ef byggja á yfir rektor og auka skólann. Mál þetta mundi leysast að nokkru með því að fá íbúð fyrir rektor í vetur með það fyrir augum að koma upp húsnæði við skólann að sumri. Í dag kom í ljós, að hugsanlegt er að leigja íbúð með ákveðnum skilmálum, sem þó eru ekki aðgengilegir. Ég tel samt, að það sé fjárhagnum hagkvæmara en að kaupa þetta hús með því verði, sem sett er á það. Ég álít því æskilegt, að ráðrúm fáist til að athuga þessa nýju möguleika.