18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (4568)

65. mál, húsnæði handa rektor Menntaskólans í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að benda frsm. minni hl. á, að annaðhvort hefur hann ekki lesið till. meiri hl. eða ekki viljað skilja hana. Það er langt frá, að farið hafi verið fram á að kasta hans herradómi, biskupinum, á dyr. Miklu heldur var um það að ræða að reyna að ná samkomulagi. Mig dreymir ekki um, að biskupinn, sem þekkir þetta mál manna bezt, standi á móti því, að málið leysist á þann hátt, sem bezt er fyrir æskuna. Slíkt ber ekki að ætla biskupi, yfirmanni kirkju og svo góðum dreng. N. tekur skýrt fram, að leitað yrði samkomulags og honum tryggt húsnæði, sem sæmandi er. Öllum svigurmælum hv. frsm. minni hl. vísa ég á bug.

Viðvíkjandi aths. hv. þm. S-Þ., að ekki sé hægt að rýma húsnæðið, vildi ég benda á l. frá 14. febr. 1945, sem heimila þetta. L. þessi eru breyt. á eldri l. um húsnæði, og eru þar sérstök ákvæði um „Gimli“, þar sem ríkisstj. er heimilt að taka húsið til afnota fyrir þá menn, sem hún þarf að láta húsnæði í té. Þessu mun þó ekki þurfa að beita nú. Viðvíkjandi brtt. á þskj. 112, þá er ég henni mótfallinn. Það hefur komið fram, að hv. þm. S-Þ. er ekki ljóst, að ríkið hefur enga lagaskyldu til að útvega rektor húsnæði. Ef þetta verður leyst sem framtíðarmál, er ekkert atriði, hvort þetta er gert næstu daga. Rektorinn gæti búið t.d. á Hótel Borg, og væri engin goðgá og ekki hægt að telja það neina útlegð, meðan þetta kæmist í framkvæmd. Það er því ástæðulaust að samþykkja þessa till. Fyrir okkur í meiri hl. vakir, að rektor búi þar, sem hann getur haft auga með börnunum allan tímann, og ég trúi ekki, að þeir, sem hafa verið í skólanum, snúist gegn hagsmunum hans. Hitt er aftur á móti ekkert atriði, hvar biskup býr, og er ekki annað sæmandi fyrir Alþ. en að hann hafi sæmilegt húsnæði. Hv. menntmrh. beindi því til fjvn., að málið hefði verið dregið á langinn. Ég hygg, að ekki sé ástæða til að ásaka n. fyrir þetta, því að málið lá fyrir n. frá 11. nóv. til 13. nóv., og geta menn þá séð, að hún hefur ekki haldið því lengi hjá sér. Að síðustu þetta, að hv. menntmrh. hafi keypt lóð í Laugarneshverfi fyrir 300 þús. kr. og það hafi verið samþ. af bæjaryfirvöldunum. En mér hefur verið tjáð af bæjaryfirvöldunum, að þar hafi ekki verið keyptur einn metri af landi, hins vegar hafi verið keypt réttindi til að nota á landspildu um takmarkaðan tíma, en lóðin aldrei keypt, enda ekki föl. Væri fróðlegt að fá að vita, hvort 300 þús. kr. hafi verið fleygt til kaupa á gömlum húskofa.