21.02.1947
Efri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég mun ekki gera nema stutta aths. að þessu sinni. Ég mun hafa í umr. um daginn verið búinn að tala það, sem mér bar.

Í umr. um daginn kom fram hjá hæstv. fjmrh., að hann óskaði ákveðinna upplýsinga í málinu, upplýsinga um það, hver væri kostnaður við þessar varnarlinur, og eins, hvort frv. hefði aukinn kostnað í för með sér. Í tilefni af þessu fékk ég Sæmund Friðriksson til að athuga þetta. Ég upplýsti að vísu sjálfur eftir ágizkun, að þetta mundi vera um 50 þús. kr. í sambandi við aukavarnarlínurnar. Nú hefur þetta reynzt alveg rétt hjá mér (GJ: Merkilegt nok.) og hér liggur fyrir umsögn Sæmundar.

Hv. þm. Barð. spurði; hvað kostnaðurinn mundi verða við varnir og útrýmingu, eftir að frv. væri orðið að l., miðað við það, sem kostnaðurinn væri í núgildandi l. Þessu svaraði ég líka, að það mundi ekki muna miklu. Sæmundur hefur einnig svarað þessu, en því miður bað ég hann ekki um það, fyrr en hann var búinn að skrifa bréfið. Þetta svar liggur því ekki beinlínis fyrir hjá honum, en hann svaraði, eins og ég hafði svarað áður eða taldi mig vita, að munurinn mundi verða lítill, og það, sem munurinn væri, þá væri hann til lækkunar, því að eftir núverandi l. er ætlazt til, að ef fjárskipti verða, fái bændur 66 lömb fyrir hver 100 ærgildi, sem lógað er, og þar er ær og veturgömul kind eitt ærgildi og tveir sauðir eitt ærgildi. Um það er ekkert sagt nú, hvernig sauður skuli metinn sem ærgildi, en með tilliti til þess, að nú eru ekki sauðir nema í litlum hluta af þremur sýslum og alls ekki nema 7 þús. skepnur, þá hefur ekki þótt ástæða til þess að gera rellu um, hvernig sauðir væru lagðir í ærgildi, sem þó mætti taka til athugunar, hvort ekki ætti að gera, en eftir frv., eins og það er nú, er ekkert um það. Nú er gert ráð fyrir í frv., að bændur, sem lóga 100 ám vegna fjárskipta, skuli ekki fá nema 50 lömb í stað 66 áður, og er þar því um sparnað að ræða fyrir ríkissjóð, sem er ómögulegt að segja, hver verður á hverju ári. Það verður eftir því, á hvað stórum svæðum fjárskipti verða á hverju ári og hvert fjárverðið er hverju sinni.

Í öðru lagi hygg ég, að eins og frv. verður eftir till. n., þá muni fjárskiptin fara eitthvað örar en eftir núgildandi l., en það er spádómur, sem er ekki hægt að leiða nein veruleg rök að. Þó er þess að geta, að eins og frv. kemur frá n. og nú frá Nd., þá er frekar en áður ýtt undir fjárskipti. Sérstaklega er þar ein gr., sem hefur mikið að segja, en hún heimilar ráðherra að framkvæma fjárskipti, þó að menn vilji ekki sjálfir, ef einstök svæði standa eftir, sem ekki vilja skipta, og það er höfuðbreyt. frá eldri l. og er líka ákaflega mikils verð, því að það þýðir ekki að hafa fjárskipti hægra og vinstra megin við eitthvert svæði. sem ekki vill hafa fjárskipti, því að þá er unnið fyrir gýg, en þá er samkvæmt frv. heimilt að framkvæma fjárskipti þar. Það má því gera ráð fyrir, að þegar þetta frv. verður komið í lög, þá gangi fjárskiptin eitthvað örar, en áður. Það getur haft aukinn kostnað í för með sér, en varðlínur og gæzla hverfa þá líka jafnframt því fyrr, og þar sparast aftur. Sæmundur segir því það sama og ég sagði hv. þm. Barð. um daginn, að ég geri ráð fyrir, að kostnaðurinn verði eitthvað minni en hann hefur verið.

Hv. þm. Barð óskaði eftir að afhugað væri, hvort n. kæmi ekki með brtt. um að afnema 7. kafla frv., sem honum þótti óþarfur og óviðeigandi. þar eð búið er að fella burtu tvo aðra kafla, sem snerta þetta sama. Þetta hefur n. ekki gert, en ég býst við, að forseti beri upp kaflana hvern í sínu lagi, svo að hægt sé að vita, hvort menn vilja hafa þá.

Nú er það svo, að árlega eru fluttir inn í landið allmargir hundar og nokkrir kettir auk annarra loðdýra, en það er engin leið fyrir yfirdýralækni að einangra þessi dýr fyrst eftir, að þau koma til landsins, þar eð enginn staður er til þess. Ég fyrir mitt leyti hygg, að ágætt væri að einangra þessi umræddu dýr á dýraspítalanum á Keldum. Þar er mikið rúm ætlað fyrir sjúk dýr, og skiptir ekki miklu máli, hvort nokkrum dýrum er bætt við.

Ég lít svo á, eins og hv. þm. Barð., að 7. kaflinn eigi ekki að vera í þessum l., og mun ég greiða atkv. á móti honum. En ef hann verður felldur burtu, verður að breyta — og reyndar hvort sem er — 48. gr., sem nemur úr gildi heilan bunka af l., sem varða innflutning á nautgripum og sauðfé, en sem annars snerta ekki það, sem þetta frv. fjallar aðallega um. en breyt. á 48. gr. verða ekki gerðar fyrr en við 3. umr., þegar séð verður, hver afdrif þessa kafla frv. verða, sem við þm. Barð. viljum fella niður.