25.10.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (4577)

16. mál, dýralíf í Hvammsfirði, Nýpsfirði og Nýps

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég get látið það nægja að vísa að miklu leyti til grg., sem fylgir þessari þáltill. Hér er um að ræða einn af stærstu fjörðum landsins, og hann er víða alldjúpur, en fiskveiðar hafa þar ekki verið teljandi nema hrognkelsaveiðar. Þorskveiði er þar ekki, en sílaganga er þar nokkur, er vart verður af fuglageri miklu, er safnast að sílatorfunni og fylgir henni eftir firðinum. Það er og álitið, að hér geti verið uppeldisstöð fyrir flatfisk. Fjörðurinn er einstakur að því leyti, að fyrir mynni hans er fjöldi eyja og hólma, en í Gilsfirði og innan eyja er mikið um sílagöngur.

Fjörðurinn hefur áður verið mældur allverulega á innsiglingarleiðum, en annars mun hann vera lítt rannsakaður. Ég hef átt tal við Árna Friðriksson fiskifræðing um þetta. Telur hann, að rannsaka þurfi hita sjávarins á ýmsu dýpi og við sjálfan botninn, því að dýpi sjávarins er allmismunandi, og er hiti, efni og gróður í þessum firði alveg órannsakað nú. Mjög fljótlegt mun vera að mæla upp þennan fjörð, og með því að nota bergmálsmæli er auðvelt að sýna botnlag fjarðarins. Líkur eru til, að hægt mundi vera að fá bát til þessa hjá vitamálastjórninni á sumri komanda. Von er nú á fiskirannsóknarskipi, og mætti nota það til þess að rannsaka fjörðinn. Ég bind rannsóknina ekki við ákveðinn tíma og geri ráð fyrir því, að ríkisstj. mundi hefjast handa strax og hægt þykir. Að lokum legg ég til, að þessari till. til þál. verði vísað til fjvn. og 2. umr.